2.4.2007 | 00:58
28. blogg
Teljarinn heldur því fram að 27 hafi skoðað bloggið mitt í dag (í gær). Ekki er trúverðugt að þetta séu allt ættingjar sem raunverulega hafi verið að kynna sér hvað ég hef að segja. Mér segir svo hugur um að frekar sé um að ræða einhvers konar leitar-fúnksjón sem sendir fólk óforvarendis á bloggið mitt. Kannski eru þessi ósköp tengd fáeinum orðum um álverið í Straumsvík sem ég setti í lok bloggsins í gær. En hvað um það áfram skal haldið. Ég sé núna að greinaskilin í blogginu eru ekki alltaf eins og ég ætlast til. Veit ekki hvort ég nenni að spekúlera mikið í þessu en ef ég tek eftir einfaldri leið til að leiðrétta þetta þá geri ég það að sjálfsögðu. Tvöföldu greinaskilin í síðasta bloggi voru misheppnuð tilraun til að laga þetta, sem oftast lýsir sér í því að greinaskil týnast og hverfa. Eitthvað skrifaði ég hér á bloggið mitt um fyrirsagnir um daginn. Hlynur Þór Magnússon er einn af þeim moggabloggurum sem ég hef frekar gaman af að lesa. Í dag (eða var það í gær) fór ég inn á bloggið hans og sá þar fyrirsögnina: Finnbogi Hermannsson fréttamaður in memoriam. Nú, hugsaði ég með mér ég vissi ekki einu sinni að hann væri dauður. Ég las svo greinina og komst að því að Finnbogi er sprelllifandi og in memoriam þýðir sennilega eitthvað allt annað en ég hélt að það þýddi. Enda er ég ekki latínufróður. En áfram með minningabrotin. Einhverju sinni þegar ég hef verið svona 10 - 12 ára vorum við nokkrir krakkar eitthvað að hamast í snjókasti skammt frá hótelinu rétt við spennistöð sem þar var. Af einhverjum ástæðum fórum við að henda snjókúlum í spennistöðina og einbeittum okkur von bráðar að glugga á henni sem var allhátt frá jörðu og ekki mjög stór. Fljótlega kom kapp í okkur og við fórum að hamast við að þekja gluggann með snjókúlum sem festust jafnan við gluggann vegna þess hve snjórinn var mátulegur til snjókúlugerðar. Þá var það sem götuljósin í þorpinu kviknuðu skyndilega. Ekki veit ég alveg af hverju en okkur varð samhengið fljótlega ljóst. Götuljósin kviknuðu þegar dimmdi í spennistöðinni. Stórmerk uppgötvun. Sennilega höfum við lært heilmikið á þessu. A.m.k. situr þessi uppgötvun í mér. Á þessum árum var það góð skemmtun að rúlla bíldekkjum á undan sér og lemja í þau með spýtu. Einhverju sinni fórum við Vignir uppá hól hjá elliheimilinu (þar sem kirkjan er núna) með dekk til að láta rúlla niður hólinn. Vel gæti verið að ég hafi verið svona 9 ára þegar þetta var og Vignir 6, ég man það ekki með neinni vissu, en okkur gekk ágætlega að láta dekkin renna niður hólinn þó heldur torsóttara væri að paufast með þau upp aftur. Dekkin lentu gjarnan á girðingunni við Sunnuhvol eða runnu meðfram henni. Í eitt skiptið náði Vignir (minnir mig) að láta sitt dekk renna með miklum hraða niður brekkuna án þess að það beygði nokkuð af leið. Þegar það kom að girðingunni við Sunnuhvol lenti það á steini og sveif í fallegum boga yfir girðinguna, en því miður lenti það í næsta stökki á þvottasnúru þar sem mikið af drifhvítum þvotti hafði verið hengt til þerris og reif hana niður í svaðið og vöðlaði þvottinum undir sig.Ekki þorðum við að gera vart við okkur til að geta fengið dekkið aftur, heldur hlupum í burtu og fórum skömmusutlegir heim og sögðum okkar farir ekki sléttar. Mamma varð síðan að fara til Guddu á Sunnuhvoli og leysa dekkið út og man ég ekki annað en að það hafi gengið vel.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Ja - in memoriam er latnesk klisja sem um langan aldur var notuð hérlendis um minningarorð - í minningu, eða til minningar um. Þarna skrifaði ég nokkur orð um Finnboga fréttamann vin minn - gamlan latínugrána eins og mig, eins og fram kom -, nokkur orð þar sem ég minntist hans, núna á þeim tímamótum þegar hann er ekki lengur fréttamaður, heldur horfinn af þeim vettvangi, úr þeim heimi ...
Hlynur Þór Magnússon, 2.4.2007 kl. 01:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.