27. blogg

Ég sé ekki betur en lesendur mínir séu orðnir um 10, svo það er líklega best fyrir mig að fara að blogga oftar. Einkum og sér í lagi vegna þess að ég hef sjálfur gaman af því. Hef löngum verið svolítið fyrir að skrifa og bloggið býður upp á ágætis tækifæri til þess.

 

Þó ég sé nú farinn að blogga ansi þétt ætla ég að reyna að halda mig við það að blogga ekki alltof mikið hverju sinni.

 

Skrítið hvað maður man og hvað ekki. Ein af mínum fyrstu berskuminningum er að ég skar mig illa á hægri úlnlið. Nánast þvert yfir púlsinn og það blæddi mikið. Þetta var niður við Ullarþvottastöð og það var flöskubrot sem ég skar mig á. Ég var ábyggilega ekki gamall þegar þetta var og eldri systur mínar hafa eflaust verið þarna með mér að passa mig. Ég man vel og nákvæmlega eftir atburðinum sjálfum. Hvar þetta var við Ullarþvottastöðina,  hvernig glerbortið var (botn á grænni brennivínsflösku), að það lá ofan á einskonar fjalhöggi og að ég var líklega einn þarna þegar atburðurinn átti sér stað, a.m.k. var enginn til þess að trufla mig þegar ég lamdi hendinni ofan á flöskubotninn. Síðan man ég einungis eftir því að pabbi kom og sótti mig, vafði vasaklút um sárið, tók mig upp og hélt á mér heim á leið. Ég man vel eftir því að vasaklúturinn sem hann notaði var rauður og hvítur og gæti lýst honum í smáatriðum. Ég man meira að segja mjög vel hvar við vorum staddir (við norðvesturhornið á Kaupfélaginu) þegar ég tók eftir því að vasaklúturinn var rauður og að mér þótti mjög smart að hafa svona rauðan vasaklút bundinn um handlegginn. Meira man ég eiginlega ekki eftir þessum atburði, en mér er sagt að Lúðvík Nordal (tengdafaðir Davíðs Oddssonar) hafi verið sóttur á Selfoss þar sem hann var héraðslæknir á þessum tíma og hann hafi saumað sárið saman.

 

Þegar ég les þetta yfir sé ég að þetta er bara ágæt saga hjá mér svo ég læt þetta duga núna.

 

Ég get ekki að því gert, en þegar ég sá í fréttum áðan að Hafnfirðingar hefðu hafnað stækkun álversins í Straumsvík þá var mín fyrsta hugsun: "Nú verða Keflvíkingar kátir."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband