26.2.2015 | 13:32
2296 - Dekkverk
Margt er mannanna bölið
og misjafnt drukkið ölið.
Segir í eldgamalli heimsósómavísu. Eflaust hef ég skrifað um þessa vísu áður, en líklega ekki alveg á sama hátt og núna. Þetta með bjórdrykkjuna hefur alltaf heillað mig svolítið. Ekkert var barist á móti bjórnum í eldgamla daga. Þó er hann allsekki góður. A.m.k. ekki samanborið við dísæt ávaxtavín. Þetta þurftu menn samt að gera sér að góðu í þann tíð og svo eru unglingarnir teknir upp á því aftur. Mjöðurinn frægi var auðvitað einskonar bjór. Að vísu er bjórinn frá ríkinu óheyrilega dýr núna, en minni skammta af áfengi er erfitt að fá. Svo þarf að drekka gríðarlega mikið af þessu sulli til að verða almennilega fullur.
Í nútíma netumhverfi er öll persónuvernd og upplýsingaskylda sífellt að verða flóknari. Ég veit t.d. ekki hvort ég má segja allt sem ég segi. Hugsanlega má ég í rauninni ekki blogga án þess að kynna væntanlegum lesendum mínum lagalega stöðu sína í löngu og ítarlegu máli. Kannski má ekki lesa þetta með lokuð augun. Hvað veit ég? Myndanotkun öll er líka að verða stórhættuleg. Eiginlega verður maður að taka myndirnar sjálfur til að mega gera hvað sem er við þær. Já, það er vandlifað í henni verslu.
Mikið er rætt um bólusetningar þessa dagana og er það engin furða. Hef oft verið undrandi á því hve lítið er rætt um slíkt hérlendis eins og sú umræða er fyrirferðarmikil víða erlendis. Mjög tilfinningaþrungin er hún og margir sem um þetta skrifa seilast langt til áhrifa. Oftast eru líf og dauði í spilinu. Engin ástæða er til að ætla annað en þeir sem á móti bólusetningum eru vilji hið besta, samt er ég hræddur um að þeir vaði í villu og svíma. Bólusetningar hafa útrýmt mörgum hættulegum sjúkdómum og engin ástæða er fyrir þá, sem aldrei hafa kynnst þessum hörmulegu veikindum af eigin raun, til að láta svona og leggja grunn að því að sjúkdómarnir geti náð sér aftur á strik. Þeir liggja flestir í leyni og bíða eftir tækifæri. Samt er það svo að sumt í málflutningi andstæðinga bólusetninga er þess virði að rannsaka nánar. Sú heildsölukennda, öfgafulla og ókeypis bólusetning sem víða fer fram er vissulega athugaverð. Þakka þó guðum (og bólusetningu) fyrir að hafa ekki fengið þá flensu sem nú virðist ganga og vera óvenju slæm, 7-9-13.
Já, margt er mannanna bölið. Það er ekki nóg að forðast bólusetningar og persónuvernd heldur er símarnir og allar þær rafsegulbylgjur sem umlykja okkur (og öll nútímatækni sömuleiðis) víst stórhættulegar líka. Búast má við því að heilastarfsemi allra þeirra sem nálægt þessu koma leggist smám saman af og sækja verði hjálp til frumbyggja hist og her. Það að auki mun hnatthlýnunin sennilega drepa okkur fyrr en varir. Allt er skrifað hjá afkomendum okkar.
Limrur eru ólíkindatól. Aldrei hef ég náð neinum tökum á að yrkja slíkt. Venjulegar ferskeytlur eiga betur við mig. Ég er svo fordómafullur að mér finnst að limrur eigi að vera þannig að eitthvert heiti komi fram í fyrstu ljóðlínunni og að rímið þurfi að vera óvænt. Man samt eftir einni limru sem ég hef gert. Aðdragandinn var sá að ég sá stórt skilti þar sem stóð Dekkverk og hugsaði með sjálfum mér að þarna væri ágætis rímorð. Og innan skamms var vísan (limran) fullgerð:
Það var hann Dóri í Dekkverk
sem dýrindis smíðaði rekkverk.
Svo fór hann á túr
og fékk sér smálúr.
Eftir það ekkert hann fékk verk.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.