24.2.2015 | 09:36
2294 - Sumar á Sýrlandi
Fyrstu skátaskemmtanirnar sem ég fór á voru haldnar í stóru bröggunum við Snorrabrautina. Nú eru þeir horfnir. Man líka vel eftir því að fyrsti malbikaði spottinn (ósléttur mjög) sem ég ferðaðist eftir var þar sem núna er Bæjarháls. Man einnig vel eftir skiplagslausu hverfi þar sem nú eru Holtin. Þar voru braggar og allskyns kofar út um allt. Sömuleiðis man ég vel eftir Höfðaborginni og Pólunum. Auðvitað er það ekki mikið til að muna eftir. En samt settu þessi fyrirbrigði sinn svip á bæinn og gerðu hann fremur óaðlaðandi. Sem betur fer átti ég heima í Hveragerði á þessum tíma. Strætó gekk alla leið uppað Lögbergi og þaðan var auðvelt að fá far til Hveragerðis. Sömuleiðis þurfti ekki að fara nema niður á þjóðveg frá Hveragerði til að fá far í bæinn. Rútuferðir í bæinn voru þá ekki margar á dag eins og seinna varð. Þar að auki kostaði í þær, en maður ferðaðist ókeypis á puttanum.
Undrast ofbeldið sem beitt er gagnvart þeim sem grunaðir eru um hitt og þetta. Til dæmis heyrði ég í fréttum um einhverja menn sem voru handteknir vegna þess að þeir voru grunaðir um að ætla til Sýrlands. Kannski var þetta bara óheppilegt orðalag, en kannski eitthvað meira. Er ekki bara lögregluríkið að herða tökin? Það finnst mér. Kenningar Krist hélt ég að snerust um það að bjóða hina kinnina ef maður er sleginn á aðra. Að launa illt með góðu hefur stundum hinar undarlegustu afleiðingar.
Pólitíkin er fremur undarleg þessa dagana og sömuleiðis veðrið. Ætli þau séu ekki skyld? Annars finnst mér lognmollan best, næstum því eins og miðjumoðið. Verst hvað menn æsa sig mikið, bæði yfir veðrinu og pólitíkinni. Eiginlega er engin ástæða til þess. Þetta fer alltsaman einhvern vegin. Langbest er að vera áhrifalaus með öllu. Þá ber maður ekki ábyrgð á neinu. Þetta finnst mér a.m.k. Kannski fylgir þetta ellinni. Þegar ég var yngri var ég ekki svona. Þá fannst mér alltaf að ég væri gáfaðastur af öllum.
Þú verður aldrei fullnuma í neinu. Það þýðir ekkert annað en sætta sig við það. Allt sem þú gerir væri hægt að gera betur. Þannig er lífið bara. Þó maður geti sjálfsagt alltaf fundið eitthvað sem maður er betri í en næsti maður, dugar það ekki. Það væri nefnilega alltaf hægt að finna einhvern sem væri ennþá betri. Annars væri maður heimsmeistari. Kannski er það þess vegna sem öll Guinness-metin eru sett. Sama hvað þau eru fáránleg.
Þetta eru einkennilegar hugrenningar. Eiginlega alveg stórfurðulegar. Er ég að verða vitlaus? Ekki held ég það. Kannski með smásnert af Alzheimer. Ekki finnst mér það samt vera mikið. Ólíkt hvað mér þykir það gamla mikið merkilegra en það nýja. Fátt finnst mér ómerkilegra en Evrópusöngvakeppni og Óskarsverðlaun. Get ekki að þessu gert. Veit að sumum finnst þetta merkilegra en flest annað. Telja jafnvel þetta og nýjustu símana skipta meira máli en ástandið í Grikklandi og Úkrainu. Furðulegur þankagangur.
Nú er ég farinn út að ganga. Kannski ég telji hrafna í leiðinni, eða yrki vísu. Kannski tauta ég bara gamla vísu, sem kemur upp í hugann, fyrir munni mér og reyni að sjá fyrir hver vegalengdin verður samkvæmt Caledosinum eftir næsta 5 mínútna tímabil. Sú er mín helsta dægradvöl á röltinu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.