26. blogg

Já, það er best að hætta þessari vitleysu og fara bara að nota tölustafi. Mér leiðast hinsvegar fyrirsagnir og það má alltaf deila um hvernig þær eiga að vera. Þegar við gáfum út Borgarblaðið sællar minningar þá man ég að Helgi Bjarnason (sem var svo forframaður að hann skrifaði reglulega í sjálft Morgunblaðið!!) sagði við okkur að fyrirsagnirnar væru veikasti hluti blaðsins. Kannski hefur hann haft rétt  fyrir sér. Ég skrifa líka yfirleitt um hitt og þetta svo fyrirsögnin yrði hvort eð er heldur marklaus.

Nú dregur að því að Hafnfirðingar kjósi um framtíð álversins. Ef ég ætti að kjósa akkúrat núna þá býst ég við að ég mundi kjósa með því. Einkum vegna þess að mér finnst margt í málflutningi náttúruverndarsinna bera vott um hálfgerðan yfirgang. T.d. að stilla alþingismönnum upp við vegg og kalla þá annaðhvort gráa eða græna eftir því hvort þeir undirrita eitthvað eða ekki. Það er bara ofbeldi í mínum huga. Ég er samt fremur óákveðinn í þessu og í raun feginn að þurfa ekki að kjósa. Þessar kosningar eru án efa þýðingarmiklar, jafnvel á sinn hátt þýðingarmeiri en Alþingiskosningarnar sem fram munu fara í vor. Stjórnmálaleiðtogar margir hverjir hafa komið fram fyrir alþjóð og lýst því yfir að komandi Alþingiskosningar séu einhverjar þær þýðingarmestu sem farið hafi fram. Þetta er nú alltaf sagt og mér finnst margt einmitt benda til að þessar kosningar verði þær minnst sögulegu sem lengi hafi farið fram. Líklegast er að framhald verði á svipaðri stefnu og hér hefur ríkt að undanförnu, þó eflaust með breyttum áherslum og e.t.v. nýjum flokkum.

Var að enda við að horfa á úrslitin í spurningakeppni framhaldsskólanna og því er ekki að neita að þetta var spennandi. Liðin stóðu sig bæði mjög vel, helst kom mér á óvart hve lítið þau vissu um æfi Aðalsteins Kristmundssonar og var hann þó enginn meðaljón.

Bjarni var að ganga frá uppgjöri vegna árekstursins á Bústaðaveginum. Úrskurðarnefndin úrskurðaði sök 50:50 og hann fær víst 95 þúsund í bætur. Sjálfur var ég að fá frí 13. og 14. apríl vegna þess að Bjarni ætlar að gifta sig laugardaginn 14. Eftir helgi fer hann  víst til London og hittir Charmaine þar. Jói mun líklega hætta að vinna fyrir Opin Kerfi hjá Íslandsbanka á næstunni því samningnum milli þeirra aðila verður sagt upp skilst mér. Benni er að ég held ekki búinn að ganga endanlega frá sölu á íbúðinni sinni en það verður víst fljótlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband