2287 - Fésbókin, einn ganginn til

Fyrst er það fésbókarhryllingurinn. Hingað til hef ég haft það fyrir reglu að deila helst ekki tilkynningum um týnda ketti og þess háttar. Í staðinn hef ég farið á fésbókarsíðu þess sem upphaflega auglýsir eða tilkynnir. Þar hefur verið hægt að fá upplýsingar um hve oft viðkomandi tilkynningu hefur verið sérað. Nú er það ekki hægt lengur. Hvers kettirnir eiga að gjalda veit ég ekki. Svona er þetta bara.

Í sívaxandi mæli er þjóðin að verða tölvuvædd. Eins og Íslendinga er siður eru hlutirnir teknir með trukki. Aðaltrukkið núna er fésbókin. Hún er tekin með miklu trukki. Enginn er maður með mönnum nema hann eyði svo og svo mörgum klukkutímum á dag á fésbókinni. Aðalstarf flestra blaðamanna virðist vera að lesa fésbókina. Allskyns vísindarannsóknir snúast aðallega um þetta fyrirbrigði. Vírusarnir vaða uppi og klámið er að hertaka hana. Mér finnst hún frekar leiðinleg og hættuleg er hún. Bæði heilsu manna og sálarheill. Þetta er forheimskandi andskoti sem enginn þorir að hallmæla sem vert væri. Þessi fésbókar-reiðilestur ætti að duga í bili. A.m.k. dugar hann mér.

Var í einskonar Þorrapartýi í gærkvöldi, og missti því af Bjarna Ben. og sjálfsréttlætingum hans. Skilst samt á Kjarnanum að hann hafi platað suma uppúr skónum. Að hann hafi kannski ekki beinlínis farið að grenja, en verið á næsta bæ við. Mér er alveg sama hvað aðrir segja ég trúi því ekki ennþá að neitt komi útúr þessu Tortóla-ævintýri, nema þá kannski fælingarmátturinn. Hann er samt út af fyrir sig nokkurs virði. Auðvitað verður það aldrei viðurkennt, en látið sem þetta hafi verið voða sniðugt.

Allir sem ég verð var við að læki t.d. fésbókarmyndir mínar geri ég ráð fyrir að lesi bloggið mitt líka, ásamt hugsanlega ýmsum fleirum. Satt að segja finnst mér ég vera að tala við þá þegar ég skrifa þessi ósköp. Auðvitað veit ég ekkert um það hverjir eru svo langt leiddir í Morgunblaðs-symfóníunni að þeir lesi það sem ég skrifa. Tölurnar frá MoggabloggsGuðunum benda samt til þess að þeir séu þónokkrir. Sagt er að mbl.is sé vinsælasti vefur landsins. (Fyrir utan fésbókina þó væntanlega.) Alveg er ég samt hættur að linka í fréttir þar.

Svo eru það myndirnar. Fæstir gera sér sennilega grein fyrir því en ég plata þá sem lesa bloggið mitt til að skoða myndirnar mínar líka. Afleiðingin er sú að ég er (a.m.k. af sumum) álitinn vera alvöru ljósmyndari. Svo er þó ekki. Aðalmyndvélin mín þessa dagana er í símanum mínum og hún er ekki einu sinni með flassi.

Sé að þetta blogg er aðallega um fésbókina og það verður bara að hafa það. Sennilega er það líka mest umtalaða fyrirbrigðið í þjóðlífinu um þessar mundir. Kannski samt fyrir utan Bjarna Ben. Svo dreymdi mig einhverja skelfilega vitleysu í nótt. M.a. um mannlausa verslun sem samt var hægt að versla í. Keypti m.a. pils á dóttur mína sem var með mér og í mesta lagi 10 ára. Fyrir hverju skyldi það vera? Nú er ég hættur.

WP 20150120 13 15 11 ProBirta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband