2284 - Já, fatlað fólk gleymist

Það er ekki nóg með að ég sé meðal þeirra elstu og reyndustu hér á Moggablogginu, heldur hugsa ég að það séu fáir sem tekið hafa eins miklu ástfóstri við forsíðumynd sína á fésbók og ég. Mig minnir að þessi mynd sé tekin í Danmörku árið 2008, skömmu fyrir hrun. Samt er ég orðinn gráhærður. Sumir virðast skipta reglulega um forsíðumynd þegar þeir hafa ekkert annað að gera, en ekki hann ég.

Í bréfskákum mínum hef ég fyrst og fremst gaman af áhugaverðum endatöflum. Leiðist miðtaflið og byrjanirnar. Endataflið miða ég gjarnan við að drottningarnar séu farnar af borðinu því að þá er oftast óhætt að hætta við hrókun og huga meira að peðastöðunni og þessháttar. Svo finnst mér líka hæfilegt að hafa þriggja daga umhugsunartíma og tefla svona 20 skákir í einu. Tefli sumar stöður alltof lengi. Andstæðingar mínir gera það oft líka. Sjálfshól búið.

Eina möglega ástæðan fyrir því að upplýsingar um skattsvikara verða að öllum líkindum ekki keyptar er sú að áhrifamenn í þjóðfélaginu óttast mjög um sinn hag. Ekki sú sem Bjarni Ben. og fleiri halda fram, að vafi leiki á því að slík kaup séu lögleg. Slíkur vafi hefur ekki síður verið í nágrannalöndunum.

Ég frétti fyrst af þessu með fötluðu stúlkuna sem gleymdist í bílnum í 10-fréttum sjónvarpsins á miðvikudagskvöldið. Greinilega var fréttalesari sjónvarpsins talsvert sleginn yfir þessari frétt og mátti vel vera það. Auðvitað ber fyrirtækið Strætó bs eða stjórn þess ábyrgð á þessum afglöpum og ekki síður eigendur þess fyrirtækis. Að öðru leyti vil ég ekki tjá mig um þetta hörmulega mál. Vafasamt er þó að afsögn leysi nokkurn vanda.

Hér á blogginu hef ég lagst gegn því að breyta klukkunni. Samt er ég á því að aukinn birtutími á morgnana, á kostnað birtunnar seinni hluta dags, hentaði mér betur. Þetta finnst mér a.m.k. núna. Kannski er það vegna myrkursins á morgnana, sem ég segi þetta, en það tekur enda. Ástæðan fyrir því að sumartíminn (daylight saving time) hefur ekki yfirleitt verið afnuminn í öðrum löndum kann að vera læknisfræðilegs eðlis. Ruglandinn sem af því stafar að vera sífellt að breyta klukkunni er helsta ástæðan fyrir því að ég er andvígur klukkubreytingu núna. Langt er þó síðan ákveðið var  að hafa alltaf sumartíma hér og hætta að breyta klukkunni tvisvar á ári.

IMG 2091Trjágarður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband