2282 - Ásdís Halla

Mikið er fjargviðrast útaf náttúrupassanum svonefnda. Ég get vel fallist á að hugmyndin sé slæm. Mest er ég þó hræddur um að framkvæmdin verði dýr og ómarkviss. Ekki held ég að þessi aðferð gagnist hugsjóninni um einka-eignarréttinn að nokkru marki. Með tímanum er hætt við að þetta ásamt mörgu öðru verði til þess að gera ferðamenn afhuga Íslandi. Hótelbyggingar yrðu þá eins og hver önnur refabú eða laxakvíar um allar sveitir. Snjór og ís eru víðar en hér á landi. Jafnvel norðurljós og eldfjöll líka.

Ásdís Halla Bragadóttir var um skeið bæjarstjóri í Garðabæ og auk þess framkvæmdastjóri Byko eitt sinn, ef ég man rétt. Sennilega er hún últra-öfga-íhaldsmaður og viðskiptablaðið hugsanlega líka. A.m.k. sá það blað fyrir nokkru ástæðu til að hampa eftirfarandi ummælum hennar: „Albanía er ljósárum á undan okkur í valfrelsi og samkeppni í heilbrigðisrekstri“.

Trúi þessu einfaldlega ekki. Hugsjón Ásdísar held ég að sé sú að heilbrigðiskerfið hér á Íslandi verði sem líkast því sem er í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þar á hún e.t.v. samleið með mörgum sjálfstæðismanninum. Ég er hinsvegar sammála Jóni Baldvini um að norræna módelið í þessu efni, eins og mörgum öðrum, henti okkur Íslendingum betur.

Þó talsvert margir lesi bloggið mitt eru athugasemdir við það í lágmarki. Kannski er það vegna þess að flestir sem lesa það eru mér að mestu sammála. A.m.k. vona ég það. Líka er hugsanlegt að það sé vegna þess að þeim finnist ekki taka því að kommenta á rausið í mér. Það vil ég helst ekki álíta svo ég held mig fremur við fyrri skýringuna. Sjálfur les ég frekar það sem ég er nokkurn veginn sammála þó auðvitað megi finna dæmi um hið gangstæða. Ekki kommenta ég samt að neinu ráði. Eða það finnst mér ekki.

Að mörgu leyti eru það alþjóðleg stórfyrirtæki sem stjórna heiminum. Við Íslendingar (í krafti núverandi ríkisstjórnar) viljum þó gjarnan að USA geri það. Alls ekki Evrópusambandið. Gallinn er bara sá að fyrirtækin stjórna báðum þessum landfræðilegu fyrirbærum ásamt fjölmörgum öðrum. Heimurinn kippir sér lítið upp við það þó stigið sé ofan á stórt og fjölmennt ríki eins og Ukrainu. Hversvegna ætti hann þá að gera það vegna okkar Íslendinga? Bandríkjamenn nenna ekki lengur að vernda okkur og hver gerir það þá?

Flesta morgna fer ég í gönguferð. Markmiðið er að annað hvort verði um að ræða klukkutíma eða 5 kílómetra. Caledosinn fylgist með því. Oft gerist ýmislegt á þessum ferðum. Gerði t.d. vísu í morgun. Hún er svona:

Krummarnir krunkast á
kannski þeim líki það.
En gæsirnar gargandi þá
geysast á nýjan stað.

Nú er ég búinn að finna uppá nýju prójekti. Er að hugsa um að hefja lestur á mínum eigin gömlu bloggum. Allavega eru þau nógu mörg. Ætli ég reyni ekki að byrja á byrjuninni. Ég var áðan að lesa gömul blogg eftir sjálfan mig og alveg er ég hissa á því hve vel þau eru skrifuð. Gott ef það er bara ekki einhvern frægur og löngu dauður rithöfundur að skrifa i gegnum mig. Annars ætti ég ekki að vera að þessu endalausa sjálfshóli. Á margan hátt lýtir það annars sæmilegt blogg. Besservisseraháttinn get ég þó ekki alveg losnað við.

IMG 1968Í Hörpunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband