16.1.2015 | 07:52
2272 - RUV
Sennilega læra flestir íslenskir unglingar að drekka með því að fá sér bjór og að sumu leyti er það svosem ágætt. Eflaust finnst þeim þó að hann sé óttalega vondur á bragðið, sem hann óneitanlega er. Það þarf nefnilega heilmikið magn af bjór til að verða ofurölvi, en þegar ég lærði að drekka þá var Séníver hæstmóðins og einu sinni tók ég óvart gúlsopa af 75% vodka (sem var vinsælt að smygla og fékkst allsekki í Ríkinu). Bjórlíkið var ekki komið í tísku og enn síður búið að leyfa bjórinn sjálfan þá. Auk þess að vera vondur á bragðið er bjórinn hræðilega dýr hér á Íslandi, en ódýr víðast annars staðar.
Á fésbókinni er það helst að gerast að Anna í Holti dreifir grimmt auglýsingum um týnda ketti og hunda og Sævar Bjarnason reynir að rífa skákina upp þar með stanslausum skákskrifum. Auk þess sem mikið er skrifað í Borgarnesbókina. Húrra fyrir fésbókinni. Kannski hún sé að batna. Það eru næstum allir þar.
Stundum (oft) finnst mér fésbókin samt haga sér afskaplega undarlega. Einu sinni safnaði ég fésbókarvinum og eignaðist þónokkur hundruð slíkra. Síðan hef ég ekki haft mikinn frið fyrir afmælistilkynningum. Frekar marklausar yrðu hamingjuóskir með slíkt ef ég sendi margar á dag. Sumum vil ég þó gjarnan óska til hamingju með afmælið, en nú orðið er mjög undir hælinn lagt hvort ég fæ tilkynningar um slíkt. Menn eru að mestu hættir að vera tölvunarfræðingar og verða í staðinn í mesta lagi fésbókarfræðingar. Það finnst mér heldur snautlegt.
Bloggið er hinsvegar á niðurleið. Sérstaklega Moggabloggið, sem vitanlega er ekkert annað en glorifíserað kommentakerfi, Vel má samt nota það sem venjulegt bloggkerfi án nokkurra áhyggna af uppitíma. Ágætt er líka að auglýsa bloggin á fésbókinni og það geri ég. Alveg er það merkilegt að Gúgli sjálfur skuli taka blogg framyfir fésbók. A.m.k. safnar hann ekki saman neinu þaðan sem ég hef orðið var við.
105,7 kg. er ég núna, segir vigtin. Henni verð ég víst að trúa þó mér finnist hún svolítið mislynd. Enginn vafi er á að ég ætla mér undir 105 og jafnvel 100 kíló. Síðan er sennilega best að hætta þessu streði og reyna bara að halda sér á sæmilegu svæði. Líkamsræktin (gönguferðirnar) skilar sér hinsvegar ágætlega. Og bráðum fer að birta. Fuglarnir halda það a.m.k. Það heyri ég á þeim.
Ólafur (bölvar og ragnar) Grímsson er ekki ómissandi sem forseti. Hann heldur það líklega sjálfur, og kannski ræður hann því hvort og hvenær hann hættir þessu stórasta embætti landsins. Auðvitað ætti forsætisráðherra að vera stærstur, en Ólafur sjálfur virðist ekki álíka það. Sennilega hefur hann ekki fattað hve stórt þetta Parísarmál var, annars hefði hann örugglega skroppið. Á sínum tíma kaus ég hann samt og það var ekki bara vegna fyrrum framsóknarmennsku hans. Ef forsetar eru (fyrrverandi) pólitíkusar, þá er nokkuð öruggt að þeir hafa verið flokkaflakkarar.
Deilan um RUV er að mestu hin klassiska deila um keisarans skegg. Ef allt í einu á að fara að reka RUV eins og alvöru fyrirtæki þá er það að sjálfsögðu fallít. Það hefur bara aldrei verið gert. Alltaf hefur verið til siðs að horfa framhjá vanda lífeyrisskuldbindinga í framtíðinni og þeim útgjöldum sem skapast hafa af þeim kastala sem byggður var á sínum tíma í Efstaleitinu. Reksturinn sjálfur hefur verið nokkurn veginn í járnum um margra ára skeið. Auðvitað væri hagstætt að hætta þessum feluleik og taka upp nýja siði. Það er bara svo erfitt. Spá mín er að ráðist verði á vandann að hluta en að mestu haldið áfram í gamla farinu. Annars er ágætis greining á vanda RUV á Kjarnanum. (kjarninn.is)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.