2271 - Víst er kú í Keflavík

Einu sinni þótti okkur í skólanum þetta óstjórnlega fyndið: Auðvitað vorum við ekki með beygingarfræðina á hreinu. Rætt var um einkennisstafi bifreiða eins og þeir voru einu sinni.

Rödd 1: „Hver er einkennisstafur bifreiða í Árnessýslu?“

Rödd 2: „X“

Rödd 1: „Alveg rétt. En á Akranesi?“

Rödd 2: „E“

Rödd 1: „Alveg rétt. En í Keflavík?

Rödd 2: „Q“

Rödd 1: „Nei, það er ekki rétt.“

Rödd 2 „Víst er kú í Keflavík.“

Þetta er um AI-box tilraunina. Nánari útskýringu á henni má finna á http://www.yudkowsky.net/singularity/aibox Þarna er rætt um væntanlega yfirtöku tölva á veröldinni. Sú þróun er óhjákvæmileg, eða það er mín skoðun. Allsekki er víst að allir séu sömu skoðunar og það sakar áreiðanlega engan að kynna sér málið á þessum stað. Þetta er sú skoðun sem mest verður deilt um á komandi tímum. Flestir eru að verða hundleiðir á trúmálavafstrinu og xenófóbíunni hjá nútíma fjölmiðlum. Þeir virðast halda að það skipti mestu máli.

Nú er 2015 byrjað og það er ekkert víst að ég verði duglegri við að blogga en undanfarið. Mitt áramótaheit er á þá leið að ég ætla að vona að árið verði sem líkast því sem nýliðið er. Lélegt áramótaheit atarna kynni einhver að segja, en verði um einhverjar framfarir á einhverju sviði að ræða ætla ég að vona að það verði af einhverri betri ástæðu en þeirri að standa við hálfvitalegt áramótaheit. Annars eru þau hjá flestum til þess gerð að brjóta þau.

Þegar ég var næturvörður hjá Mjólkursamsölunni var það öruggasti vorboðinn þegar tjaldaparið mætti á svæðið. Ég ímynda mér kannski bara að það hafi alltaf verið það sama. Ekki þekkti ég þau frá öðrum tjöldum. Að lokum kom bara einn tjaldur og svo enginn. Kannski eru skilnaðir óþekktir meðal fugla. Þau áttu sér hreiður uppá þaki mjólkursamlagsins og einu sinni ætlaði ég að gá að hreiðrinu en þá kom annað þeirra öskureitt á móti mér svo ég hrökklaðist í burtu. Frímann Vilhjálmsson sagði mér að einu sinni hefðu þeir horft uppá það að mávur kom í heimsókn og át alla ungana úr hreiðrinu. Tjaldarnir þorðu ekki að ráðast á hann, en horfðu bara á ósköpin.

Einu sinni leyfði ég Díönu Kristjánsdóttur og Friðbjörgu vinkonu hennar (ætli þær hafi ekki verið svona 8 til 10 ára þá) að króa af andarunga og taka hann upp. Móðirin var að sjálfsögðu í öngum sínum og unginn dauðhræddur, því bara voru tveir slíkir í fylgd með andamömmu og stelpurnar vildu auðvitað fá að fara með hann heim með sér, en ég leyfði þeim það ekki. Að taka barn (unga) frá móður sinni er að mínum dómi næsta stig við morð. A.m.k. ígildi nauðgunar.

Verð að segja að mér finnst gagnrýnin á SDG vera komin út í dálitlar öfgar, þó ég kalli þær ekki beinlínis loftárásir. Hann má varla gera eða segja nokkurn hlut og heldur ekki gera ekki neitt, þá er hann gagnrýndur. Af hverju þarf hann endilega að vera eins og allir aðrir? Vissulega er margt af því sem hann gerir gagnrýnisvert, en það verður enginn stærri af því að velja honum nógu ljót orð í gagnrýninni. Margt af því sem um hann er sagt, má reyndar alveg eins flokka sem grín eins og gagnrýni.

WP 20141227 10 33 27 ProSólarupprás.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Víst hafa þeir q í Keflavík!"  eða "víst eru þeir með q í Keflavík"  Þá er beygingin rétt!

Bjarni Gunnlaugur 12.1.2015 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband