2267 - Jólafita

Það er spurning hvort maður verður ekki alltof feitur á þessari sykurorgíu sem jólin óneitalega eru að verða. Á maður að sleppa fram af sér beislinu og éta eins og svín um jól og áramót og láta allt aðhald og eftirlit lönd og leið eða telja kalóríur? Þar er efinn.

Er geðleysi þingmanna algert? Og flokkshollusta þeirra ofar öllu? Undarlegt að hægt skuli að telja þeim trú um að með því að skerða atvinnuleysisbætur minnki atvinnuleysi. Þannig geta hlutirnir einfaldlega ekki verið. Jafnvel alþingismenn blindaðir af flokksmeðvirkni hljóta að sjá það. Mjög fáir eru atvinnulausir af því að þeir vilja vera það. Berum við sem betur erum stödd samt ekki ábyrgð á þeim?

Satt að segja er ekki annað að sjá en núverandi ríkisstjórn sé að safna glóðum elds að höfði sér. Samt er hún á margan hátt betri en sú síðasta. Læknaverkfallið gæti vel orðið sá myllusteinn sem sökkvir henni endanlega.

Ég spáði því einhverntíma að fimmti ráðherra þeirra framsóknarmanna yrði aldrei að veruleika. Fjölmiðlar keppast nú við að fræða okkur um að hann verði sýnilegur í síðasta lagi um næstu áramót. Um það get ég ekki sagt annað, en að þá er Bjarni Ben. aumari en ég hugði, ef hann getur ekki komið í veg fyrir það, með öll þessi háspil á hendinni.

Annars er það uppgjörið við föllnu bankana og afleiðingar þess sem mun móta örlög þessarar ríkisstjórnar. Takist þar vel til munu eftirmæli hennar verða nokkuð góð. Ef ekki eða ef þau halda áfram að dragast þá munu þau ekki verða það og jafnvel gæti hún hrökklast frá völdum.

„Hvað boðar nýárs blessuð sól?“ orti Matthías fyrir löngu. Alls ekki vil ég blanda mér í trúarbragðadeilur þær sem nú geysa, en ekki er hægt að neita því að birtutíminn ætti að fara að aukast hægt og hægt. Veturinn getur samt sem áður orðið harður. Janúar, febrúar og mars geta vel orðið kaldir mjög og snjóasamir, en eftir óvenjugóðan nóvember ætti jörð ekki að vera mjög köld og ágætt er að lifa í þeirri trú að vorið verði gott.

Ætti ég kannski að láta aðsóknartölurnar sjást utaná blogginu en ekki hafa þær bara fyrir sjálfan mig eins og að undanförnu? Satt að segja er það nánast það eina sem ég treysti mér til að gera á stjórnborðinu án nokkurra vandræða. Hef tekið eftir því að líklega hefur fésbókarauglýsingin, sem ég set jafnan upp líka, heilmikil áhrif. Allavega eru lesendur (samkvæmt Moggabloggstalningu) ótrúlega margir ef ég skrifa eitthvað bitastætt.

WP 20141228 11 46 00 ProHinar heilögu kýr björgunarsveitanna eru mun heilagri en gangstéttaræflar og bílastæði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband