2264 - Greinarmerki geta skipt máli

Vek sérstaka athygli á því að ekki var tvípunktur á eftir spakmælinu í síðasta bloggi mínu þar sem sagt var eitthvað á þá leið að oft væri betra að þegja en segja.

Ágætisdæmi um það sem enskurinn kallar „conversation piece“ eru t.d. Framsóknarflokkurinn og Þorláksmessuskatan. Þetta rann upp fyrir mér núna réttáðan og auðvitað var það skatan sem varð þess valdandi að ég rann á lyktina. Andskotans della eru þessar jólakveðjur í ríkisútvarpinu. Það er ekki nóg með að Þorláksmessan sé undirlögð. Nú er þetta, ásamt skötufjáranum, að leggja undir sig landið (eða jólin) Skyldi nokkur hlusta á þetta? Einu sinni var viðstöðulaust útvarpað jarðarförum. Á endanum urðu þær samt of margar og hugsanlega verða jólakveðjurnar það líka einhverntíma.

Segja má að nauðsynlegt sé að kunna ensku til að geta kynnt sér ýmsa hluti. T.d. er ted.com ágætis vettvangur til að fara á og kynna sér hitt og þetta. Þar er að finna erindi um allt milli himins og jarðar. Þeir sem hvorki kunna ensku né að hafa stjórn á tölvuhræðslunni í sér eru satt að segja dálítið fatlaðir. Spurning hvort þeir ættu að leggja í fötluðu stæðin hjá Bónus.

Sumir fá útrás fyrir jólastressið með því að hlæja við í öðru hverju orði. Sumir fá þessa útrás með því að skamma hundinn sinn og enn aðrir með því að gefa í sífellu bensínið í botn hvort sem bíllinn er kyrrstæður eða ekki. Kannski kemur kynjamunurinn betur fram í jólastressinu en mörgu öðru. Karlmenn hafa varpað sem allra mestri ábyrgð á öllu jólatilstandinu á kvenfólk, sem hefur tekið því fagnandi en fær litlar þakkir fyrir ómakið. Þannig er það a.m.k. hér á heimilinu og víðast þar sem ég þekki til.

Ræðst olíuverð í heiminum og þar með orkuverð virkilega af því hvort einhverjir kallar skrúfa mikið eða lítið frá einhverjum krana? Helst hefur mér skilist það. Fullyrt er að olíuverð fari hríðlækkandi núna af því Saudi Arabar hafi ákveðið að auka olíuframleiðsluna (eða minnka ekki) til að klekkja á einhverjum.

Í gamla daga. Já, ég er sífellt að tala um gamla daga, áttu ekki aðrir myndavélar en þeir sem tilbúnir voru til að henda peningum í svoleiðis drasl. (Og svo náttúrulega alvöru ljósmyndarar.) Aðalvandamálið í sambandi við filmuvélarnar var samt að þurfa að bíða óralengi eftir því að sjá árangurinn. Afar fáir framkölluðu sjálfir. Þetta breyttist allt með tilkomu þeirra stafrænu og nú eru þær orðnar svo ódýrar að hver og einn tekur bara myndir fyrir sjálfan sig og fésbókina. Rosalega held ég að það sé tekið mikið af ljósmyndum í dag. Ég segi ekki að lestur stafa sé úreltur en vægi hans hefur minnkað mikið að undanförnu. Ekki dugir lengur að benda krökkum á óralangar hilluraðir af bókum til að vekja áhuga þeirra á lestri og nýjir siðir verða að sjálfsögðu að þjóna nýjum herrum.

WP 20141125 15 09 09 ProJá, svona er Auðbrekkan. Alveg auð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur pistill, Sæmundur!

Gleðileg jól.

Húsari. 24.12.2014 kl. 10:57

2 identicon

Þú færð nú alveg að fara í Bónus og kaupa allskonar - og ryksuga allt í hólf og gólf hér heima - o.fl. o.fl.  Það er eiginlega bara gaman að smá jólastressi - pakka inn gjöfum -  setja jólaseríur gluggana - stressa sig yfir konfekti og kakói,- eða góðri spennusögu.  :)
Það er nú alveg spurning hvort okkar er stressaðri jólasveinn.!

Áslaug Benediktsdóttir 24.12.2014 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband