2263 - Óhóflega sjálfmiðað blogg

Öll erum við meira og minna sjálfmiðuð. Þessvegna er oft betra að þegja en segja. „Hún/hann heldur bara áfram að tala um það sem er henni/honum er efst í huga þegar hann/hún kemst að, og tekur ekkert eftir því sem ég er að segja.“ Gæsalappafræðingar mundu skilgreina íslensku lappirnar þannig að þær séu 99 og 66. Ef við notum gúglið rétt getur það auðveldað okkur að þykjast vera einsog við viljum vera. Mér þykir ágætt að vaða svona úr einu í annað. Sumir leitast við að skrifa/tala bara um eitthvað ákveðið, en ekki hann ég. Ég hendist bara útum víðan völl.

Einhverntíma var það svo í aðdraganda jólanna að við vorum stödd hér í Reykjavík (bjuggum þá líklega í Borgarnesi) Gistum hjá Kiddý. Hafdís og Rakel voru þá á jólaskóaldrinum. Ekki voru þær nógu fljótar að fara að sofa eða eitthvað svo ákveðið var að þær fengju bara kartöflur í skóna sína. Ég hafði af einhverjum ástæðum litla hugmynd um tákrænuna í sambandi við kartöflurnar. Skógjafirnar voru þá tiltölulega nýlega farnar að tíðkast og voru ekki nærri eins veglegar og núna. Þær tóku þessu mjög illa, og auðvitað sá ég eftir að hafa ekki komið í veg fyrir þetta, og var jafnframt hissa á viðbrögðum þeirra. Mér dettur þetta svona í hug af því að núna bíð ég eftir að Tinna vakni og vitji um skóna sína og kisa liggur á borðinu hjá mér og les þetta jafnóðum.

Þetta er skrifað á mánudagsmorgni fyrir Þorláksmessu. Já, já það er talsvert hálka úti núna. A.m.k. sumsstaðar. Fór í smágönguferð í morgun fyrir birtingu og satt að segja er íshrönglið á gangstéttum og göngustígum ekki fyrir gamalmenni eins og mig.

Nú er ég kominn með nýja áráttu. Áráttuhegðum er mitt líf og yndi. Vigtunarárátta er sú nýjasta. Kosturinn við þá áráttu er að ég vigta mig helst ekki nema fara í bað á undan. Ókosturinn er aftur á móti sá að baðvogin sem ég nota er varla nógu nákvæm og ekki nógu samkvæm sjálfri sér. Ef ég vigta mig tvisvar með svona mínútu millibili getur skakkað mörg hundruð grömmum (segi ekki kílóum). Eiginlega er ómögulegt að segja frá þessari áráttu nema birta nýjustu tölurnar. Þær eru 107,7 kg. Auðvitað ber þetta vott um óhóflega sjálfmiðun, svo best er að hætta.

Segja má að það vanti eina klausu eða málsgrein svo þetta sé frambærilegt sem blogg. Þessvegna skrifa ég þetta, en ekki útaf því að ég hafi neitt að segja. Jú, það er alveg óvíst að mér finnist taka því að skrifa nokkuð meira fyrir jól. En varla er nú hægt að enda árið svona. Jafnvel þó ekki sé búið að bóna þvottahúsgólfið.

WP 20141125 15 06 35 ProArt 11


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband