14.12.2014 | 06:42
2259 - RUV o.fl.
Baráttan milli einkarekinna útvarpsstöðva og ríkisrekinna hefur lengi verið fyrir hendi. Sú barátta hefur einkum kristallast milli Stöðvar tvö og ríkissjónvarpsins. Almannaútvarp (sjónvarp meðtalið) hefur lengi átt miklu fylgi að fagna hér á Íslandi. Áður hafa verið gerðar tilraunir til að auka vinsældir og stækka fjárhagsgrunn einkastöðva. Í stórum dráttum hafa þær mistekist, því almenningur (sem fáir þekkja) hefur staðið með RUV.
Sú aðför sem nú er gerð að ríkisútvarpinu með lækkum útvarpsgjaldsins mun einnig mistakast. Vinstri halli fréttastofu RUV er að mestu leyti ímyndun. Kannanir hafa hvað eftir annað leitt í ljós að RUV nýtur trausts umfram aðra miðla hér á landi. Internetið og fésbókin njóta að vísu mikilla vinsælda í ákveðnum hópum, en sameinar ekki landsmenn á sama hátt og RUV gerir, hvað sem verður í framtíðinni.
Barátta ríkisvaldsins við lækna og heilbrigðiskerfið er einfaldlega birtingamynd hagvaxtarins, eða hagvaxtarvæntinga. Seðlabankanum og ríkisstjórninni virðist hagvöxturinn vera mikill, öðrum ekki. Hann er ýmist sagður mikill eða lítill. Aumur ég skil ekki neitt í neinu. Svo er verðbólgan bara sögð vera 1%. Það er lygilegt. Landsmenn eiga ekki slíku að venjast. Sú kreppa sem örugglega er á leiðinni verður eflaust frábrugðin þeim sem áður hafa riðið yfir. Verst er að sjá ekki alla hluti fyrir.
Enn spyrst ekkert til Malasísku flugvélarinnar sem týndist í mars. Skyldi vera nýr Bermuda þríhyrningur að myndast þarna í grennd við Ástralíu, eða hvar það nú var? Liggur ekki beinast við að kenna verum frá öðrum hnöttum um allt dularfullt og illútskýranlegt? Annars er þetta mál allt hið undarlegasta og þessar hugleiðingar mínar varpa engu nýju ljósi á atburðinn. Bara í stíl við mína sjálfmiðuðu kaldhæðni.
Á fésbókinni sýnist mér að fjöldi læka fari meira eftir því hjá hverjum lækað er, en gæðum eða athyglisverðleika innleggsins sem lækað er. Þetta er bara það sem mér finnst. Kannski finnst mér bara of lítið lækað hjá mér sjálfum. Hvernig ætli standi annars á þessu? Er hugsanlegt að lækendur fari í manngreinarálit? Skelfilegt hvað ég hugsa mikið um þessa blessaða fésbók, sem sumir vilja alls ekki kalla fésbók heldur fasbók eða bara eitthvað annað, sem enginn skilur. Svo eru sumir sem helst vilja kalla hana Facebook uppá ensku. Kært barn hefur mörg nöfn segir máltækið.
Sumir virðast sjá flest sem liðið er í rósrauðum bjarma. Jafnréttið var ekkert meira í gamla daga. Hlutirnir gengu bara hægar fyrir sig. Spillingin var mikil. Stjórnmálaflokkarnir réðu öllu og vilja enn í dag ráða sem flestu. Breytingin er aðallega fólgin í samskiptum fólks, sem í krafti tæknibyltingarinnar eru orðin miklu auðveldari og meiri en áður var. Mér finnst hraðinn í öllu hafa stóraukist líka, en kannski er það mest vegna þess að ég er tekinn að gamlast nokkuð. Vegna auðveldari og betri samskipta er pólitísk vitund fólks meiri nú en áður var. Ef nauðsynlegt er að vorkenna einhverjum þessar breytingar má segja að helst beri að líta til stjórnmálaflokkanna. Tök þeirra á kjósendum eru ekki eins mikil og í gamla daga.
Já, ég er gamall blogghundur. Hef talsvert lengi verðið að þessum fjára og breytist ekkert. Talan í upphafi bloggsins breytist þó og hækkar sífellt. Afrek út af fyrir sig sagði einhver kommentari einhverntíma að það væri að halda utanum það. Auðvelt er það samt með þeirri aðferð sem ég hef komið mér upp. Skrifa bloggið mitt semsagt alltaf (eða oftast) í sama Word-skjalið og eitt af því sem fylgir hverri uppsetningu er að hækka töluna um einn á næsta bloggi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.