2251 - Styrmir von Stasi

Skyldi Styrmir von Stasi enn njósna um Þórhildi Þorleifsdóttur. Hún hlýtur að spyrja hann að því í fyrsta þættinum sem þau stjórna saman í Sjónvarpi allra landsmanna. Þó ég sé yfirleitt ekki hrifinn af pólitískum uppnefnum þá verð ég að viðurkenna að mér finnst þetta óvenjulega rammandi og vona eiginlega að það festist við hann. Fyrst heyrði ég það eða sá hjá Stefáni Ólafssyni. Kannski hefur Styrmir njósnað um hann. Þungar refsingar liggja yfirleitt við njósnum og föðurlandssvikum, en ekki er líklegt að Styrmir verði látinn svara til saka, hvernig sem á því stendur.  

Annars er ekki grín gerandi að þessu. Satt að segja er þetta engu betra en blessað Rússagullið. Þeirri Moggalygi trúði ég alveg fram undir þetta. Þetta snýst ekki um það samt. Flokkarnir (og dagblöðin) voru spilltir þá ekki síður en nú. Að ritstjóri og heilagur andi stærsta dagblaðsins í þá tíð skyldi leggjast svona lágt er einfaldlega sögulegt. Af hverju í ósköpunum skyldi hann vera að opinbera þetta núna á gamals aldri?

Ég veit ekki hvar þetta endar!! Nú er klukkan að verða tíu og það er ekkert farið að birta að ráði. Ætli sólin hafi gleymt að koma upp. Jú, annars. Ég veit alveg hvar þetta endar. Þetta endar með því að það fer að birta sífellt fyrr á morgnana og á endanum verður bjart allan sólarhring, eða svotil. Þó nú sé dimmt og ég tilbúinn til að fara í morgungönguna mína þá er ég ekkert á því að breyta klukkunni eins og hálfvitlausir þingmenn vilja. Þetta er ágætt svona. Maður getur þá hlakkað til einhvers.

I told you so. Nú er Hanna Birna loksins búin að segja af sér. Ég var næstum orðinn úrkula vonar með það. Bjarni og Simmi hefðu sennilega leyft henni að hanga áfram ef hún hefði heimtað það. Á endanum hefðu þeir samt sparkað henni. Simmi veit eiginlega ekkert hvernig hann á að snúa sér í þessu. Segir þjóðinni bara að draga lærdóm af þessu. Lærdóminn telja nú sumir að stjórnmálamenn ættu einkum að draga. Fimmti framsóknarráðherrann er sennilega fjarlægari en nokkru sinni. Sem betur fer.

Í gær var föstudagur. Eiginlega er það ryksugudagur, en mér tókst á snilldarlegan hátt að komast hjá allri ryksugun. Við fórum nefnilega í heimsókn upp í Hvalfjörð. Bjarni var þar í sumarbústað og Tinna hringdi í okkur (alveg sjálf) og bauð okkur í heimsókn. Það er alveg „awesome“ að vera þar, sagði Tinna. Veit ekki hvort mér tekst að komast hjá ryksugun alla helgina.

IMG 1900Eftir hamfarirnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rafn Guðmundsson

flottur pistill

Rafn Guðmundsson, 23.11.2014 kl. 02:42

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ætli samviskan hafi ekki verið að hrjá karlgreyið svona á gamals aldri.  Góður pistill hjá þér Sæmundur. Sammála bæði með klukkuna og stjórnmálamennina.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.11.2014 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband