2241 - Draugabær

Nei, ég veit ekki af hverju þetta með myndirnar á blogginu er svona. Áður fyrr gat ég alltaf skipt um myndir á fésbókartilkynningunni, en núna get ég það ekki. Þetta er ekki af því að ég vilji alltaf hafa myndina af mér þarna, heldur finnst mér að fésbókin vilji þetta. Auðvitað kann það að vera vitleysa hjá mér og ef einhver veit betur má hann gjarnan láta mig vita.

„Hjálpið okkur að vernda bílana með því að skilja kerrurnar ekki eftir á planinu“. „Handmössum bílinn þinn mjúklega. Við kappkostum að láta honum líða vel. Hreinsum hann og þvoum útvortis sem innvortis“. Skilti og auglýsingar með hvatningarorðum í þessa veru blasa hvarvetna við. Bíllinn minn er bara járnahrúga og blikkbelja og aðgangurinn að sálinni í mér (ef hún er til) liggur ekki í gegnum bílinn. Einhverjir virðast samt halda það. Kannski er svo hjá sumum. Varla eru skiltamálarar og auglýsendur öðrum heimskari. Gæsalappafræði eru ekki minn tebolli. Ég er t.d. í vandræðum með að vita hvort punkturinn eða gæsalappirnar eigi að vera á undan. Svo veit ég líka að til eru margskonar gæsalappir.

Fréttir af draugahverfum á Reykjavíkursvæðinu eru vinsælar. Vel tekst þó að halda þeim utan við alla umfjöllum. Fæstir hafa séð ósköpin. Hringtorg hist og her með malbikuðum götum sem liggja ekki að nokkrum sköpuðum hlut. Slíkt sá ég á Mallorca fyrir óralöngu síðan og hélt að slíkt mundi aldrei fyrirfinnast á Íslandi. Þá var nefnilega alls ekki til siðs að malbika götur fyrr en búið var að búa alllengi við þær. Fáir hafa séð stóru blokkirnar með hundruðum íbúða en mjög fáa íbúa ef nokkra. Er ekki kominn tími til að sýna túristum þetta? Mér finnst þetta mun merkilegra en hverasvæðin sem greyin fara um á útbíuðum strigaskóm og láta teyma sig hvert sem er.

Og svo eru maurarnir búnir að hreiðra um sig á Lansanum. Mér finnst það jafnvel ískyggilegra en læknaverkfallið. Hingað til hefur það einkum verið eftirfarandi sem mér finnst Ísland hafa getað stært sig af dýrafræðilega séð. Engir maurar. Engar moskítóflugur. Engir kakkalakkar og engin (eða mjög fá) villidýr. Sonardóttir mín sem er 5 ára mundi sennilega bæta hættulegum kóngulóm við þessa upptalningu og til eru þeir sem eflaust mundu bæta snákum við.

Vatnsverksmiðjan hans Jóns Ólafssonar er við Hlíðarenda í Ölfusi. Rétt hjá Þorlákshöfn. Einu sinni var ég í hóp sem skoðaði þá verksmiðju. Það verð ég að segja að ég var imponeraður af aðferðunum til að tryggja hreinleika vatnins og geymsluþol. Ef ég á einhverntíma eftir að „kaupa“ vatn í flösku þá mun ég taka vatnið frá Jóni framyfir annað vatn.

IMG 1858Kranar í úrvali.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband