26.8.2014 | 08:59
2215 - Fjölmiðlar og ýmislegt annað
Gríptu það. Gríptu það, og málaðu það grænt. Þetta á að vera um venjulegt prump og er í þjóðsögum Jóns Árnasonar að mig minnir og þar er gert ráð fyrir að Djöfullinn í einhverju gervi hafi gert eitthvað fyrir einhvern, en þessi þraut sé honum ofviða. Prumpulagið hans doktor Gunna er velþekkt og afar vinsælt hjá börnum. Kúkogpiss brandarar eru líka ákaflega vinsælir hjá börnum á vissu skeiði. Ekki er með neinu móti hægt að ákveða aldurinn og ég hef heyrt í fullorðnu fólki sem þykir kúkogpissbrandarar afskaplega fyndnir. Sjálfur held ég að ég sé að mestu kominn yfir það. Samt þykir mér þetta með Djöfulinn og grænu málninguna fremur fyndið, en ekki er víst að öllum finnist það.
Í mínum huga er enginn vafi á því að sauðkindin á mestan þátt í því að gróður landsins hefur víða þurft að láta undan síga. Bændur hafa þó rétt fyrir sér í því að vel er hægt að láta sauðfjárbúskap og skógrækt fara saman. Mörg svæði eru þó þannig að ekki er nein ástæða til að láta fé ganga þar sjálfala. Þetta með að reka eða flytja fé á fjall er að mestu úrelt fyrirkomulag og stjórnvöld ættu að hjálpa bændum til að leggja það af sem víðast á landinu.
Neyslusamfélagið er æðsta stigið í neysluhyggjunni. Enginn getur losnað úr því neti að fullu. Hægt er þó að berjast um og það gera margir. Bandaríkjamenn hafa komist einna lengst í neysluhyggjunni og líka í mannréttindum. Evrópa og einkum Norðurlöndin (og sérstaklega Ísland) halda í humáttina á eftir. Spurningin er hvort hægt er að fá sæmilega fullkomin mannréttindi án þess að ganga neysluhyggjunni á hönd. Þetta eru bara pælingar og kannski ekkert að marka þær. Eftirlitið og hryðjuverkaógnin geta líka orðið andstæðir pólar.
Fjölmiðlar hér á Íslandi hafa staðið sig fremur illa. Fyrst var það í hruninu mikla og undanfarið hefur það verið í jarðskjálfta- og stríðsfréttum. Netmiðlar, fámiðlar og persónulegir miðlar á netinu hafa á ýmsan hátt tekið yfir hlutverk þeirra í fræðslu og menntun almennings. Þeir standa sig auðvitað mjög misjafnlega og oft alls ekki betur, en eru miklu fleiri og samanlögð áhrif þeirra aukast í sífellu og áhrif hinna hefðbundnu fjölmiðla minnka að sama skapi. Tæknin skiptir þarna miklu máli og a.m.k. prentmiðlarnir hafa átt mjög erfitt með að sætta sig við þetta. Útvarpið er sér á parti. Þar heyrðist mér einhver tala um það í fullri alvöru að ákveðið hefði verið í nefnd að Lagarfljóstormurinn væri til. Auðveldast væri að skipa bara nefnd um öll vafatriði. Pant vera í skipunarnefndinni.
Hugsunina um að verða að annexíu í Noregsveldi virðast sumir taka alvarlega. Stefán Pálsson gerir tilraun til að hrekja þá hugmynd með sögulegum rökum. Það er ekki hægt. Þó slit og upphaf slíkst hjúskapar sem hér um ræðir fari að einhvrju leyti eftir slíkum rökum gera þau það ekki í raun, þau er bara fundin upp eftirá. Samt er það alveg pottþétt að Ísleningar munu aldrei ganga að þeim skilyrðum sem Norðmönnum þættu skynsamleg fyrir veru okkar í ríkjasamstarfi með þeim. Þátttaka í ESB er miklu líklegri. Þar er um ríkjasamband að ræða og ekki verið að tala um að ganga einhverjum á hönd eða fórna sjálfstæðinu. Þetta gera flestir sér mætavel ljóst og fylgið við slíka aðild fer sífellt vaxandi. Alþingi Íslendinga mun ekki fara að grauta mikið í þeim málum nema það neyðist til. Kannski verðum við sett uppað vegg fyrir að fara ekki eftir EES-sáttmálanum. Já, þar er einkum um gjaldeyrishömlurnar að ræða.
Nú dettur mér allt í einu í hug að gaman væri að vita hað Jón Valur Jensson hefur um þetta að segja. Varla getur hann með allt sitt landráðahjal og yfirdrifnu sjálfstæðis-steypu verið þessu hlynnur. Best að gá að því og ég skal hafa símann minn með mér svo ég týnist ekki í leitini að honum. Nú er ég kominn aftur. Það var eins og mig grunaði hann er alveg á móti þess eins og öðru. (Er ég ekki líka á móti öllu.- Bara spyr.) Nei satt að segja er þessi hugmynd svo fáránlega vitlaus að varla er hægt að taka hana alvarlega.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.