3.7.2014 | 10:27
2186 - Hugdetta
Það er nú endanlega komið í ljós að flutningur fiskistofu til Akureyrar var bara hugdetta. Reyndar þarf það ekkert að vera verra fyrir það. Hugdettur geta verið góðar. Andstæðingar forsætisráðherra (sem fékk hugdettuna) hafa samt alveg rétt fyrir sér í því að vel hefði mátt athuga málið svolítið áður en hlaupið var í fjölmiðla. Þeir skilja hvort eð er ekki framsókn. Altsvo fjölmiðlarnir. Enginn Tími og heldur ekki Tíma-Tóti. En sleppum því. Við því er ekkert að gera. Nú er helst ekki hægt að hætta við málið þó í ljós hafi komið að ýmislegt er við það að athuga. Þetta hefði allt saman mátt athuga fyrirfram. Jafnvel í kyrrþey. Framsóknarmenn þekkja víst ekkert þessháttar. Þær hugdettur sem þeir fá (sem eru fáar) koma sér flestar vel atkvæðalega séð, en í praxis er ekki víst að þær séu eins sniðugar.
Það virðist koma einhverjum á óvart að sumarið var að þessu sinni fyrstu dagana í júní. Það getur samt komið hvenær sem er á tímabilinu júní, júlí og ágúst. Sjaldnast þó í ágúst. Yfirleitt er það bara þrír eða fjórir sólardagar í röð og að þessu sinni voru þeir í júníbyrjun. Vonum bara að haustið verði langt og ekki kaldara en venjulega. Óþarfi er að láta tíðarfarið trufla sig. Nú er hægt að fara að hlakka til jólanna. Eitt af því fáa sem hægt er að treysta varðandi veðurfar er að rigning verður á þjóðhátíðinni í Eyjum. Sama er að segja um hestamannamót.
Nú er það orðið ólöglegt westur í Bandaríkjunum, móðurlandi einstaklingsfrelsisins, að sanka að sér rigningarvatni. Ríkið á allt svoleiðis. Hugsið ykkur hve gaman hefði verið að handtaka alla Eyjamenn á einu bretti ef slík lög hefðu verið hér, þegar vatnsveitan var ekki komin þar.
Var að uppgötva það áðan að ég er orðinn svakalega svikull með þetta blogg mitt. Það er barasta orðið mjög óreglulegt. Já, þetta er ekki forsvaranlegt. Kannski ég biðji afsökunar á þessu. Þ.e.a.s. ef þetta hefur valdið einhverjum óþægindum. Líklega hef ég ekkert bloggað í þessum mánuði. Þetta gengur alls ekki. Má eiginlega til með að blogga per samstundis.
Fréttagúrkan er allsráðandi. Fjölbreyttar og nýstárlegar björgunaraðgerðir við Bleiksárgljúfur eru helsta fréttaefnið. Svo eru náttúrulega stríð og allskonar óáran í uppsiglingu í útlandinu, en það eru nú ekki fréttir. Svoleiðis er það alltaf. Fréttamenn eru lagnir við að magna allskyns ósætti, enda er það þeim í hag að mönnum komi illa saman. Ekkert er eins ófréttnæmt og ef allir eru vinir. Svoleiðis er það samt víða. Ef allt annað bregst má segja fréttir af veðrinu. Hrikaleg rigning hér og þrumur og eldingar þar. Ef einhver vill endilega komast í fréttirnar væri hægurinn á að hlaupa hringinn í kringum landið. Slá Íslandsmetið. Ætli Reynir Pétur eigi það ekki ennþá.
Mér finnst merkilegasta fréttin þessa dagana að Costco skuli líta á litla Ísland sem mögulegt útibú. Er ekki hægt að fá Walmart til að koma hingað? Þeir eru víst með um tvær milljónir manna í vinnu, en Costco greyið ekki nema um tvö hundruð þúsund. Gott ef þeir eru svo ekki með alltof stórar pakkningar fyrir venjulegt fólk. Íslendingum tókst að standa saman og koma í veg fyrir að alvöru bensíndreifingarfyrirtæki kæmi hingað. Kannski tekst það líka með Costco.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.