2172 - 10. maí

Kynslóðirnar koma og fara
kynstur lítil erum við.
Tuldri hinna seint þær svara,
svona reynist almættið.

Ekki get ég mikið að því gert þó einhver vísukorn læðist að mér í morgunsárið. Þessi er síðan í morgun og ég hef svosem engu við hana að bæta. Svona er þetta bara.

Um daginn var ég á einskonar fundi hjá Þórhalli Hróðmars í Hveragerði. Þar slöngvaði Siggi Hermanns fram skoðun sem aðrir fundarmenn höfðu ekki velt mikið fyrir sér:

SH: Eiginlega ættum við ekki að hafa 17. júní fyrir þjóðhátíðardag heldur 10. maí.

(AF = Aðrir fundarmenn.) ??

SH: Já, það er langtum merkilegri dagur.

AF: Af hverju segirðu það?

SH: Þann dag var okkur Íslendingum hent inn í framtíðina úr miðaldamyrkrinu sem hafði umlukið okkur í margar aldir.

AF: Ha.

SH: Já, ég er að tala um 10. maí 1940.

AF: Já, einmitt. Það var þá sem Ísland var hernumið af breska hernum.

SH: Það má segja að allt hafi breyst þann dag. Við hættum að vera einangraðir og smáir og fórum allt í einu að skipta máli. Það eru áreiðanlega fáar þjóðir sem geta bent á jafn gagngera breytingu á þjóðlífinu á ákveðnum degi.

Við ræddum þetta ekki mikið, en auðvitað er ekki hægt annað en samsinna þessu. A.m.k. að vissu marki. Ekki er nokkur leið að neita því að 10. maí 1940 sé dagsetning sem skipti okkur Íslendinga verulega miklu máli. Allar aðrar dagsetningar blikna í samanburðinum. Fæðingardagar skipta í rauninni almenning engu máli. Bara þann sem fyrir því verður að fæðast þann dag og í hæsta lagi foreldra hans og systkini.

Samt sem áður er það svo að núna í sumar, þann 17. júní verða liðin 70 ár frá því að við Íslendingar stofnuðum lýðveldi á Þingvöllum. Þann rigningardag hættum við Íslendingar að vera uppá Dani komnir og bundum trúss okkar við hinn mikla sigurvegara úr heimsstyrjöldinni síðari. Svo yfirgaf hann okkur og allt fór í hund og kött. En það er önnur saga.

Millistéttarvælið hans Sigurðar Hólm hefur sannarlega vakið athygli. Ég sá þessa grein seint í gærkvöldi og það fórst alveg fyrir hjá mér að setja fésbókarlæk á hana þó hún hafi vissulega átt það skilið. Annars eru fésbókarlækin alveg sér kapítuli og framsóknarflokkurinn auðvitað líka. Allt bendir til að honum (flokknum altsvo) verði alveg úthýst hér í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Flugvöllur eða ekki flugvöllur á ekki að skipta máli þar. Ef hann á að skipta höfuðmáli í lífi og dauða flokks þá eru alþingiskosningar réttari vettvangur.

Já, það er erfitt að hemja sig, þegar skrifæðið rennur á mann. Minnir að ég hafi sett eitthvað upp á bloggið mitt seint í gærkvöldi. Í morgun vaknaði ég svo frekar snemma og það var eins og við manninn mælt, ég þurfti endilega að skrifa eitthvað og til þess að losna við það úr systeminu er ég að hugsa um að setja það strax upp.

IMG 0533Svolítið ruslaralegt.

IMG 0541Auglýsing.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband