2171 - Það er þetta með Árborg

Sennilega blogga ég alltof mikið og alltof oft. Get bara ekki að mér gert. Verstur er ég yfirleitt á morgnana. Og ég á áberandi erfitt með að stroka út. Ef ég hef einhverntíma skrifað eitthvað sem mér finnst í lagi að láta flakka á ég oftast mjög erfitt með að senda það ekki frá mér. Auðvitað er þetta bæði kostur og ókostur. Vandmeðfarinn jafnvel. Reyni samt að gera mitt besta. Það sem mér finnst einna mesti kosturinn við þessi skrif mín er hve fjölbreytt þau eru. Kannski eru þau of fjölbreytt og ósamstæð fyrir þann sem les, en ég geri þetta nú fyrst og fremst fyrir sjálfan mig hvort eð er, svo það skiptir litlu máli. Jæja, nú ætla ég að reyna að láta sjálfskoðuninni (-hælninni) lokið að þessu sinni.

Já, það er vandlifað á Selfossi. Kvenfólkið þar (a.m.k. sumt) virðist þannig innréttað að ekki megi horfa á það, nema kannski á einhvern vissan hátt. Að þessari niðurstöðu komst ég (alveg hjálparlaust) eftir að hafa lesið enn eina æsifregnina í DV-inu. Þar með er ég langt kominn með að tilheyra þeim þjóðfélagshópi sem kallaður er „virkur í athugasemdum“. Passaði mig samt á að gera ekki athugasemd við fréttina. Læt þessa blogg-grein duga.

Merkilegt hvað mér finnst landslags ljósmyndir alltaf lélegar ef aðrir en ég hafa tekið þær. Skyldi það vera vegna þess að mínum myndum fylgja alltaf einhverjar minningar? Kannski hafa þær bara áhrif á mig. Er líka alveg hissa á hve margir virðast hrifnir af myndum sem augljóslega eru búnar til í „fótósjopp-forritum“. Samt er það svo, að alls ekki er sama hvernig myndir eru kroppaðar (skornar til) eða litunum breytt. Hver skyldi annars horfa á allar þær símamyndir og vídeó sem verða til þessa dagana?

Í pólitíkinni er það merkilegast að ekkert bólar á svokallaðri reiknivél ennþá. Fólk átti semsagt fyrirhafnarlítið að geta reiknað út hlut sinn í leiðréttingunni svokölluðu. (Herfanginu frá hrægömmunum.) Minnir endilega að hún hafi átt að geta komið „strax“. Nú virðist öruggara að hún komi ekki fyrr en í haust. Óþarfi er að trufla fólk við svo ópólitískan gjörning sem atkvæðagreiðslu í sveitarstjórnarkosningum er. Auk þess getur verið að „hrægammarnir“ verði eitthvað óánægðir með upphæðina.

Kaldastríðsþjóðremba ESB-andstæðinga núna er næstum alveg eins og kommaáróðurinn gegn ameríska hernum og veru hans í landinu á sínum tíma. Auðvitað töpuðu gegnherílandarnir á endanum en þó var því máli aldrei leyft að fara í þjóðaratkvæði á neinn hátt. Helst átti ekki að minnast á svo heitt mál í kosningaundirbúningi.

Það eina góða sem um Sigmund Davíð má segja er hann virðist alls ekki hafa mótaðar hugmyndir eða skoðanir í ESB-málum. Bjarni Ben. er nú einfaldlega einslags laumukommi í því máli vegna þess að hann er í hjarta sínu fylgjandi aðild að ESB. Hann stendur þó ekki nærri nógu mikið uppi í hárinu á frekjunni SDG að öðru leyti.

Nú er Ásgautsstaðamálið loksins komið í dévaffið. Auðvitað gerðist það nokkurnvegin jafnskjótt og ég hætti að blogga um það. Spá mín er sú að það sofni þar hægt og rólega.

IMG 0531Sbankinn.

IMG 0532Kennsla fylgir víst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband