2158 - Þjóðremba og pólitík

Stundum finnst manni jafnvel að þjóðremdustu menn haldi að ekkert hafi gerst í heiminum áður en Ísland byggðist. Mér finnst það undarlegt í meira lagi. Mál það sem flestir álíta að víkingar hafi talað líkist einna mest íslensku af núlifandi málum. Auðvitað er það einkum vegna þess hve fáir, smáir og einangraðir við vorum öldum saman sem málið varðveittist svona vel. Að öðru leyti voru víkingarnir ekkert sérstaklega íslenskir þó líklega hafi ríkt víkingamenning hér á tímum þjóðveldisins. Ekki veit ég af hverju iðnbyltingin svokallaða sneiddi næstum alveg hjá Íslandi. Einhverjar skýringar hljóta að vera á því.

Þeim Sigmundi og Bjarna var treyst til þess að koma útgerðinni til aðstoðar. Steingrímur hafði að vísu gert það, en með „hangandi hendi“ og það var eins og hann vildi í raun eitthvað allt annað. Auðvitað var ekki ætlast til að þeir fóstbræður Simmi og Bjarni glutruðu fylgi sínu svo fljótt sem raun virðist vera. Vitanlega er það ekki létt verk að láta þrælana vera ánægða meðan svindlað er á þeim. Því var samt trúað að þeir gætu þetta. 

Sjálfur var ég orðinn þrítugur þegar ég fór í fyrsta sinn til útlanda. Afastelpan mín, hún Tinna, er ekki nema fjögurra ára, en hún er samt í Ameríku í annað sinn núna. Þetta finnst mér undirstrika vel þann mun sem er á kynslóðum þeim sem þetta land byggja. Þegar við, konan mín og ég, fórum í fyrsta sinn til útlanda var það með Gullfossi sáluga. Fyrsti viðkomustaður var Dublin. Ég man að skipið lagðist að bryggju talsverðan spöl frá miðborginni og við tókum leigubíl þangað og bílstjóri hans skildi okkur eftir á umferðareyju beint á móti pósthúsinu. Nokkrar akreinar fullar af bílum voru í hvora átt og við vorum dálitla stund að átta okkur á hvernig við ættum að komast yfir. Höfðum semsagt aldrei séð aðra eins breiðgötu. Við fórum á pósthúsið frekar en ekkert og furðuðum okkur mikið á allskyns minnismerkjum þar.

Mér finnst það mikil grunnhyggni hjá Agli Helgasyni að kenna netverjum um hringsnúning Guðna Ágústssonar. Framsókn er í vandræðum í Reykjavík. Guðni hefur aukið þau vandræði. Samt er það ekki bara honum að kenna. Þetta á sér langa sögu. Óvinsældir ríkisstjórnarinnar eru sennilega meiri á höfuðborgarsvæðinu en úti á landi. Að öllu jöfnu ættu vandræði Framsóknarflokksins í Reykjavík einkum að koma Sjálfstæðisflokknum til góða. Ekki er víst að svo verði nú.

Talað er um að bókasöfn vilji gjarnan fá að lána út rafbækur. Hingað til hef ég álitið að hættan á kópíeringu væri of mikil til að líkur væru á slíku. Svo þarf þó ekki að vera. T.d. væri hægt að hugsa sér að bækurnar væru á heimasíðu sem erfitt eða nær ógerlegt væri að kópíera. Einnig er hugsanlegt að skrár sem dánlódaðar væru eyddu sér sjálfar að ákveðnum tíma liðnum. Hvernig sem á málið er litið væri þetta til mikilla þæginda fyrir viðskiptavini safnanna. Tæknilega er svosem ekkert þessu til fyrirstöðu. Bókasöfn lána nú þegar hljóðbækur. Sú þjónusta held ég að fari mjög vaxandi.

Einhver gáfumaður hélt því fram opinberlega að matvælaverð væri alltof lágt hér á landi og þessvegna væri svona miklu hent af mat. Að menn skuli stunda nám til að komast að svona heimskulegum niðurstöðum er yfirgengilegt. Einhverjir netverjar mótmæltu þessu og telja laun þessa snillings augljóslega alltof há. Að dómi sumra pólitískra skribenta eru þeir þar með farnir að dreifa óhróðri og allskonar skít um hann.

Eiður Guðnason bendir á að málfari í auglýsingum sé oft verulega ábótavant. Þessu hef ég sjálfur tekið eftir og finnst að auglýsendur hjá stórum fyrirtækjum hafi enga afsökun. Ríkisfjölmiðlar og auglýsingastofur ættu að kappkosta mun betur en nú er að vanda málfar sitt. Einhverjum verður að vera hægt að treysta. Orðabókum er auðvelt með hjálp netsins að fletta upp í. Kennsla í því ætti að vera í hverjum skóla. Óþarfi er að kenna skrift og gæti hún sem best fallið inn í teikningu. Handskrifaður texti heyrir brátt sögunni til. Þó er ekki hægt að afskrifa hann í einu vetfangi.

Líklega er við engan sérstakan að sakast um það hve Ásgautsstaðamálið gengur hægt. Sú leið blasir á margan hátt við að fara í einkamál við Árborg og/eða sýslumannsembættið á Selfossi, en það er hugsanlega bæði dýrt og óvissa um hvenær þeir peningar skila sér aftur. Nýjar leiðir er þó nauðsynlegt að kanna. Fjölmiðlar vilja ekki sinna þessu og heldur ekki pólitíkin. Það er svo borðleggjandi og auðvelt að sanna að yfirvöld hafa þverbrotið lög með háttalagi sínu í þessu máli að farvegur þarf nauðsynlega að finnast fyrir það. Fræðast má meira um þetta mál í bloggi mínu frá 10. desember s.l. og auk þess liggja allar upplýsingar um það fyrir í opinberum skjölum.

IMG 0332Og enn er mótmælt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eftirspurn er nákvæmlega engin, hvorki hvað varðar Guðna ellegar framsókn yfirleitt. Veit ekki hvort það sé merkilegt per se, en það er algerlega ljóst að fylgi við framsókn er í öfugu hlutfalli við almennt gáfnafar og menntunarstig hinna ýmsu mengja kjósenda. Því lægri meðaltals greind og menntunarstig, því meira fylgi hefur framsókn. Það er ein helsta ástæðan fyrir hlutfallslegu fylgi framsóknar í NV og NA kjördæmum. Þegar atkvæði eru svo tvöföld að gildi í NV kjördæmi segir sig sjálft, að hlutfall framsóknarmanna á þingi er náttúrulega ekki í neinu samræmi við fylgi þeirra á landsvísu.

Ellismellur 26.4.2014 kl. 10:41

2 Smámynd: Elle_

Mætti halda að þú værir að tala um Össurarflokkinn.

Elle_, 26.4.2014 kl. 17:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband