6.4.2014 | 00:10
2149 - Helgi harðorði
Helgi Magnússon er nokkuð harðorður í garð ritstjóra Morgunblaðsins í bréfi sem þotið hefur sem logi yfir akur á Internetinu nýlega. Annars eru þetta svo gamlar fréttir að ég skammast mín fyrir að minnast á það. Link set ég þó ekki. Þetta er nú einu sinni Moggabloggið.
Karl Th. Birgisson er ekki hátt skrifaður hjá pólitískum andstæðingum, enda ritfær í besta lagi. Hann er að endurvekja Herðubreiðar-ræfilinn sýnist mér. http://herdubreid.is/ Hann skrifar grein í blaðið um Helga Hóseasson og ekki var sá Helgi síður harðorður en Magnússon. Sigurðsson minnist ég ekki á. Þetta er víst fyrsta grein af þremur hjá Karli og ég kemst ekki hjá því að setja Herðubreiðar-urlið í bookmark hjá mér. Afburða góð grein.
Stjórnmálaumræða öll er að breytast verulega hér á Íslandi þessi misserin. Vinsælt hefur verið að tala um vorið í Afríku. Einkum er þá átt við arabaríkin í norðanverðri álfunni. Það er ekki síður að eiga sér stað þessi misserin gagnger bylting annarsstaðar í Afríku. Allar þessar breytingar, bæði þar, í Evrópu og víðar, eiga uppruna sinn í tækninni. Sú bylting sem á sér stað fyrir tilverknað þess að hver og einn getur haft sambandi við hvern sem er hvenær sem er, er gagntækari en margur gerir sér í hugarlund.
Byltingar hafa áður átt sér stað í heiminum. Oft eiga þær sér rót í samskiptatækni. Eftir iðnbyltinguna hafa þær riðið yfir heimsbyggðina með sívaxandi hraða. Síminn og t.d. útvarpið voru mikil bylting á sínum tíma. Sjónvarpið ekki síður. Nú snýst allt um internetið og snjallsímana, og eitthvað enn nýrra tekur fljótlega við.
Hræddur er ég um að sú neikvæða gagnrýni sem á framsóknarflokknum dynur þessa dagana verði honum fremur til björgunar en bölvunar. Annars beinist sú neikvæða gagnrýni einkum gegn SDG sjálfum og kannski er ekkert óeðlilegt við það. Kannski finnst bara enginn til að taka við af Óskari Bergssyni og frammarar verða að sætta sig við að annað sætið verði það fyrsta. Enginn minnist samt á þann möguleika. Hvernig stendur á því?
Er sjálfstæðisflokkurinn 2007? Er hægt að nota ártal sem lýsingarorð? Er kominn Jónínu
Ben. tími hjá Framsókn? Er flokkum að fjölga? Spurningarnar eru margar en svörin fá í stjórnmálunum. Best að láta þau eiga sig.
Nú ræður maður því ekki lengur sjálfur hvort maður opnar youtube-myndböndin á fésbókinni. Alltaf sama frekjan í þessu fyrirbrigði. En það er ómissandi samt. Hvernig er annars varið svokölluðu erlendu niðurhali með hliðsjón af þessu? Borgar ekki fésbók alla viðbótarreikninga? Nýja fésbókarlúkkið fer öfugt í mig. Samt mun ég áreiðanlega venjast því. Kom til mín fyrir fáeinum dögum. Sennilega kemur það ekki jafnsnemma til allra. Ætli ég sé ekki svona fjórða til fimmta flokks!!
Man ennþá hvað ég hrökk við þegar einhver teiknimyndafígúra öskraði á mig í tölvunni, alveg uppúr þurru. Já, það átti víst að heita að það væri auglýsing. Þó hrökk ég ekki alveg eins mikið við og þegar ég sá kakkalakkann á veggnum rétt við nefið á mér. Frá því sérstaka tilfelli man ég vel eftir brakinu í stólnum þegar hann lenti útá miðju gólfi með mig enn sitjandi þar. Já, ég held að þetta hafi verið á Tenerife.
Í nótt varð ég andvaka eins og svo oft áður. Las grein um einhvers konar tónleika þar sem Björgvin Halldórsson og Bubbi Mortens komu fram. Þessi grein var eftir Stefán Jón Hafstein.
Ekki fór á milli mála að SJH skrifaði þessa grein fyrir hugsandi fólk. Þó var hún á fésbók og sennilega ekki gúglanleg þessvegna. Greinarhöfundur var heldur lofsamlegur í garð B-anna í þessari grein en þótti þó greinilega fullmikið að borga níu þúsund krónur fyrir herlegheitin. Ég hef semsagt sparað mér þá upphæð með því að fara ekki og er feginn því.
Svo fer að líða að því að útvarpsstjórinn sýni á spilin sín. Kannski verða einhverjir hissa.
Auk þess legg ég til að sett verði lögbann á sýslumanninn á Selfossi. Eða einhver reyni að Ögmundast svolítið í honum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.