2147 - Úkraína

Árið 1985 kom út bókin „Execution by Hunger – The hidden holocaust“ eftir Miron Dolot (1916- 1998). Í henni er lýst hungursneyð þeirri sem gekk yfir sum svæði í Sovétríkjunum sálugu veturinn 1932 – 33. Talið er að milli 5 og 7 milljónir manna hafi þá soltið til bana í Úkraínu einni. Víða til sveita í Sovétríkjunum var neyðin mikil og t.d. er talið að um það bil helmingur allra íbúa Kazakhstan hafi þá látið lífið.

Miron Dolot var á þessum tíma unglingur í þorpi einu í Cherkasy-sýslu í Úkraínu. Þorp þetta stóð á bökkum Tiasmyn árinnar um hundrað mílur fyrir sunnan höfuðborgina Kiev. Bók þessi er mjög vel skrifuð og hefur verið líkt við dagbók Önnu Frank, um helför nazista.

Það sorglegasta við þessa hungursneyð er að vel hefði mátt koma í veg fyrir verstu afleiðingar hennar. Á þessum tíma var verið að stofna samyrkjubúin í Sovétríkjunum og Stalín og stuðningsmenn hans sýndu mikla hörku við að ná korni því, sem þó var til staðar, af bændunum á svæðinu til að geta staðið við útflutningssamninga sem gerðir höfðu verið. Vel hefði verið hægt að sleppa því að standa við samningana og einnig hefði verið hægt að sækjast eftir hjálp frá útlöndum, en slíkt tíðkaðist alls ekki í sæluríki kommúnismans.

Þessa bók er hægt að fá fyrir 11,19 dollara frá Amazon og ágrip af henni og kynningu fyrir ekki neitt.

Mér leiðist hvernig látið er á fésbókinni. Vissulega hefur margt breyst með internetinu og svo mögnuð er fésbókarsóknin að sumir villast á þessum tveimur fyrirbrigðum. Internetið varð til löngu á undan vöfrunum t.d. Það er samt ekki hægt að segja að það verði almennt fyrr en um síðustu aldamót eða svo. Gagngerðar breytingar verða á innviðum samfélaga með reglulegu millibili. Internetið og snjallsímarnir eru bara hin sýnilega afurð þessara breytinga akkúrat núna. Og þær gerast með sívaxandi hraða. Sjálfur festist ég sennilega í tölvunum og internetinu og næ ekki lengra. Vonandi verður það sem okkur sýnist núna óyfirstíganlegar hindranir svosem mengun og þessháttar bara smávandamál fyrir komandi kynslóðir. Ég hef a.m.k. þá tröllatrú á þeim.

Styrjaldir, morð og önnur óáran verður sífellt sjaldgæfari, hvernig sem látið er og hverju sem spáð er. Auðvitað er taumlaus bjartsýni jafnhættuleg og endalaus svartsýni. Miðjumoðið er alltaf farsælast og flestir hlutir enda þar.

Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðir verði friðaðir og nútímatækni bönnuð þar með öllu.

IMG 0150Hjólkoppur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband