1.4.2014 | 06:16
2146 - Íþróttir
Jens Guð ræddi nýlega um íþróttir. Auðvitað ættu athugasemdir eins og þessi betur heima við bloggið hans beint. Ég er bara svo langorður (reyni samt oftast að vera stuttorður) að það er ekki hægt. Hann birti myndir máli sínu til sönnunar. Man bara ekkert hvað hann var að sanna. Jú, nú man ég það. Hann er svolítið ólíkindatól og var með myndum að sýna fram á að boltaíþróttir væru ofbeldisfullar og hættulegar. Jafnvel verri en blandaðar bardagaíþróttir.
Íþróttir eru aðallega til þess gerðar að æsa fólk upp. Oftast er slíkur æsingur bestur í einrúmi. En ekki nærri eins skemmtilegur. Mér finnst skiptingin ekki vera eins og Jens heldur fram. Þ.e. hvort hægt er að sýna fram á blóð og ofbeldi. Skiptingin er miklu fremur eftir því hvort um liðsíþróttir er að ræða eða ekki. Til dæmis finnst mér skák, hnefaleikar og tennis vera nauðalíkar íþróttir. Sennilega má færa rök að því að blandaðar bardagaíþróttir (kickbox) og skíðaíþróttir ýmisskonar eigi líka heima í þessu flokki. Sumir vilja flokka íþróttir eftir því hvort um snertingu sé að ræða eða ekki. Allskyns flokkun er möguleg og engin ein rétt.
Boltaíþróttir eru alveg sérstakur flokkur. Æsingur verður þar oft mikill í áhorfendum og þeir skemmta sér líklega best við sem mestan æsing. Í sumum tilfellum er álitamál hvort ferðin á leikinn og aðdragandi hans skiptir ekki meira máli en leikurinn sjálfur. Einkennilegt finnst mér að svo virðist sem ensk lið í fótbolta séu jafnvel vinsælli, hér á Íslandi, en íslensk .
Íslenska er ekki útlenska, segir Gumundur Andri. Þó við þekkjum ekki og skiljum heldur ekki algeng málfræðiheiti og setjum stundum ypsilon eða joð þar sem það ætti ekki að vera kunnum við alveg íslensku og skiljum hana ágætlega. Opinberar reglur á þessu sviði eru oft til óþurftar. Ala á málótta. En við erum misjöfn. Ég varð t.d. mjög feginn þegar zetan var gerð útlæg úr málinu, því ég skildi aldrei setureglurnar almennilega. Aftur á móti vefst ypsilonið lítið fyrir mér og þess vegna vil ég helst ekki missa það.
Mig minnir að það hafi verið Atli Harðarson, skólameistari Fjölbrautaskólans á Akranesi sem hélt því fram að niðurstaðan úr verkfalli framhaldsskólakennara væri næstum fyrirsjáanleg og mögulega væri hægt að setja allar forsendur hennar í tölvuforrit og reikna hana út án óralangra samningaviðræðna. Skildi hann þannig að einhver mesta óvissan væri um tímaleng viðræðnanna. Kannski er þetta einmitt að verða að veruleika núna. Nemendur hefðu sennilega grætt mest á þeirri aðferð svo hún gengur náttúrlega ekki.
Horfði í vikunni á beina útsendingu á Englum Alheimsins í sjónvarpinu. Missti af sumu þar, því síminn og klósettið kalla. Tæknivinna og sú yfirfærsla öll gekk mjög vel og var stórfín. Sennilega um tækniafrek þar að ræða. Skil ágætlega þá sem fanns gauragangurinn og ofleikurinn í fyrri hálfleik vera fullmikill og efni og boðskapur verksins týnast í þeim látum öllum saman. Seinni hálfleikurinn var mun hófstillari. Eitt helsta listasnobb bæjarins, Hallgrímur Helgason, var þó vel sáttur við þessa tilraun og líkaði hún vel, en öðrum miður eins og gengur og sumum gekk víst illa að komast í samband við verkið.
Ég er ansi hræddur um að í framtíðinni verði þeir sem hátt hafa um mengunina nútildags í svipuðum sporum og þeir sem töluðu um óhollustu reykinga fyrir nokkrum áratugum. Jú, við vissum þetta alveg, en það er bara svo erfitt að hætta. Er erfitt að hætta að menga? Ekkert sérstaklega. Hugsunarháttur fólks er óðum að breytast. Við tökum bara ekki eftir því. Í mínu ungdæmi hefði verið hlegið óspart að þeim fávita sem hefði hikað við að henda rafhlöðum í ruslið. Ef einhver vogaði sér það núna gæti hann vel átt á hættu að verða tekinn alvarlega í bakaríið.
Sum viðhorf, sem breytast í áranna rás eru okkur samt ógeðfelld. Ég er t.d. skíthræddur við geitunga sem ekki þekktust í mínu ungdæmi. Hnatthlýnunin sem sífellt er verið að boða getur vel haft ýmsar breytingar í för með sér.
Óháð réttmæti þess að borga fyrir að fá að sjá Geysi og Strokk, er óþolandi að hafa talsmann sem segir eitt í dag og annað á morgun. Spái því að landeigendur leiti sér fljótlega að nýjum talsmanni. Annars sýnir það snilld ríkisstjórnarinnar að þetta skuli vera heitasta mál flestra fjölmiðla um þessar mundir.
Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðamálinu verði haldið vakandi og reynt verði að vekja þá sem vilja umfram allt svæfa það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.