14.2.2014 | 12:30
2121 - Með allt á hreinu
S.l miðvikudag hlustaði ég alllengi á ógáfulegar umræður þingmanna um reiðhjól og þess háttar. Sannaði þessi umræða þaksögu Parkinsons ef einhverjir muna eftir henni. Kannski gera það ekki allir. Mig minnir að hún hafi verið um stjórn stórfyrirtækis þar sem samþykkt var á fáeinum sekúndum að byggja kjarnorkuofn fyrir marga milljarða. (Gömul hlýtur þessi saga að vera). Aftur á móti urðu langar og ýtarlegar umræður um endurnýjun á þaki yfir reiðhjólageymslu skrifstofufólks fyrirtækisins. Semsagt því mikilvægara mál því minni umræður. Man líka að þegar ég lærði á bíl var ákvæði um það í kennslugögnunum að ef eitt ökutæki drægi annað mætti ekki vera nema einn og hálfur metri á milli þeirra. Þetta ákvæði vildu ökukennarar ekki ræða, enda er það svo heimskulegt að ætla mætti að þingmenn hafi sett það.
Lekamálið svokallaða er að verða að stórmáli. Jafnvel Davíð Oddsson hefur viðurkennt að samkvæmt lögum væri lekablaðið svokallaða (sem ég hef ekki einu sinni séð þó eflaust sé það í mikilli dreifingu) brot á einhverjum lögum. Vörn Hönnu Birnu er sennilega sú að ekki verði mögulegt að sanna með óyggjandi hætti að það sé upprunnið í ráðuneytinu. Kannski fellst lögreglan á það. Ríkissaksóknari virðist þó ekki vera þeirrar skoðunar. Bíðum og sjáum til.
Hugsanlegur endir á þessu máli er sá að blaðamenn sem ekki hafa enn komið fram verði settir í fangelsi fyrir að neita að segja hvaðan margumrætt plagg sé ættað og beri við vernd heimildarmannna. Slíkir fangelsisdómar eru ekki einsdæmi. Hvort þessháttar heimildarmenn, sem hugsanlega er um að ræða í þessu tilfelli, eigi að njóta verndar er síðan umdeilanlegt. Svo virðist sem einhverjir starfsmenn Innanríkisráðuneytisins hafi leikið illilega af sér og blaðamenn við Morgunblaðið einnig. Hugsanlega blaðamenn við Fréttablaðið sömuleiðis. DV eitt hefur haft dug til að fylgja þessu máli eftir. Hvað sem um það blað má segja að öðru leyti.
Athyglisvert er einnig að þó Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi komið Hönnu Birnu á vissan hátt til hjálpar þá var hann bara að mæla með því að hún segði ekki af sér á meðan rannsókn færi fram. Vill eflaust hafa möguleika til að gera hvað sem er seinna meir. Sennilega eru þeir fóstbræðurnir Simmi og Bjarni búnir að komast að niðurstöðu um að láta hana fjúka og sömuleiðis Má í Seðlabankanum.
Lengi vel voru ekki aðrir en Atlantsolía sem höfðu auglýsingaaðgang að farsímanum mínum. Svo bættist Orkan við og ég fæ venjulega SMS með svona tíu mínútna millibili ef öðru hvoru því fyrirtæki dettur í hug að veita afslátt af sínum dýrmætu dropum. Þannig er nú samkeppnin í olíudreifingu á Íslandi í dag. Nýlega hef ég svo farið að fá í símann minn óvelkomnari andstyggðartilkynningar um fundi og annað þessháttar frá Framsóknarflokknum. Ég veit svosem að ég er einhversstaðar á skrá hjá þeim eftir að ég studdi Bjarna frænda minn Harðarson til að velta Hjálmari skólastjóra úr sessi en ég asnaðist til að hafa trú á þessu frelsiskerfi hjá Símanum og ef fleiri fara að nota þetta númer til auglýsinga þá hætti ég að nota það og fæ mér nýtt númer.
Brúin yfir Vesturlandsveg heitir ekki Höfðabakkabrú þó lögreglan og líklega fleiri haldi það. Hin raunverulega Höfðabakkabrú er yfir Elliðaárnar skammt frá Árbæjarsafninu. Einu sinni var nefnilega Breiðholtið eins og langur tangi vegtæknilega séð. Það var ekki fyrr en undir lok síðustu aldar sem landfræðileg einangrun Breiðholtsins var rofin með fleiri vegtengingum. Tenging þess við nýbyggingar í Kópavoginum er samt aðhlátursefni enn í dag og stuðlar mjög að villum ókunnugra.
Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðamálið verði tekið til dóms eða a.m.k. reynt alvarlega að semja um það fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Fjölmiðlar virðast hafa nóg með sig og leita ekki að svona málum. Þó varpar það á margan hátt skýru ljósi (aftur í aldir) á hvernig samskiptum yfirvalda og almennings hefur verið háttað.
Hanna Birna með hreina samvisku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.