2119 - Hellisheiði

Það er til lítils fyrir mig að vera að fjölyrða um stjórnmál og fréttir dagsins. Þó mér takist kannski stöku sinnum að vera sæmilega frumlegur í hugsun, þá eru skrifin venjulega orðin afskaplega úrelt hjá mér þegar ég sleppi af þeim hendinni. Og þó mér finnist í lagi að setja þau samt á bloggið mitt, er ekki víst að öðrum finnist það.

Einu sinni var ég ekkert sérlega vitlaus á tölvur. Nú er ég eiginlega orðinn það. Ekki skil ég nema að mjög litlu leyti það sem fram fer á fésbókinni. Já, en það er nú bara forrit mundi einhver segja. Það eru samt allir þar og það er dálítið „frústrerandi“ að flestir aðrir skuli skilja betur fínni blæbrigðin þar en ég. Til að aðrir sjái ekki hvað maður er illa að sér í fésbókarfræðum fer ég þangað frekar sjaldan. Ja, það er segja sem mér finnst það. Fer samt þónokkrum sinnum á dag þangað og mun oftar en ég fer á heimabankann minn eða tölvupóstinn. Oftast bara til að skoða og svo gleymi ég mér við lestur á einhverju sem þar er bent á og fer oftast út úr fésbókinni þegar ég veit ekkert hvað ég er að gera á viðkomandi stað. Stundum get ég ekki stillt mig um að láta eitthvað í mér heyra, en það er fremur sjaldan og öll tilboð forðast ég eins og heitan eldinn. Lenti samt í því um daginn að dreifa vírus á alla (eða flesta) mína fésbókarvini, sem eru talsvert margir, því ég var einu sinni að safna þeim.

Man vel eftir að menn héldu mig vera með miklu fjörugra ímyndunarafl en ég þó er, þegar ég var í framhaldi af BBS-unum einhverntíma fyrir 1990 að segja frá Internetinu. Það var löngu fyrir daga bráseranna. Merkasta nýjungin þar var Lynx, sem kom að mörgu leyti í stað Gophersins.

Boðnarmjöður er ágæt síða á fésbók. Þangað fer ég stundum. Kann samt ekkert nema venjulegan ferskeyttan rímnahátt. Þekki hringhendur frá öðrum og finnst oddhenduháttur skemmtilega dýr. Á öðrum bragarháttum þekki ég varla meira en nöfnin. Limrur liggja alls ekki fyrir mér. Sléttubönd eru ekki mjög erfið, en afdráttarháttur er það. Hann hef ég glímt við en árangurinn er bara bull. Þegar ort er undir hefðbundnum háttum er meiningin oftast helsta vandamálið. Það er lítill vandi að raða saman orðum eftir ströngum reglum hvað rím og stuðla varðar. Að öðru leyti er þetta fyrst og fremst æfing. Svo geta menn ýmist verið hraðkvæðir eða þurft að hafa heilmikið fyrir þessu. Ég fell í seinni hópinn. Sumir virðast ekkert hafa fyrir þessu. Nefni engin nöfn.

Í gær fór ég í Hveragerði til að hitta Þórhall Hróðmarsson og Sigga í Gerðakoti. Við erum nefnilega að undirbúa hitting í sumar. Gleymdi bæði myndavél og lesgleraugum hjá Þórhalli og þessvegna neyðist ég til að hafa letrið á tölvunni fremur stórt núna og ég veit ekki hvernig Moggablogginu líkar það. Fyrir viku gerðum við líka tilraun til að hittast en náttúruöflin voru okkur ekki hagstæð þá. Snjókoma og fjúk næstum alla leiðina. Á heimleiðinni var þetta mjög slæmt. Ég vonaði að það væri bara á heiðinni og fjúkinu linnti þegar ég kæmi í Hveradalabrekkurnar. Ekki gekk það eftir. Þá var að treysta á Draugabrekkuna, en ekki gekk það. Það var ekki fyrr en í Lögbergsbrekkunni sem við keyrðum niður í rigningu og eftir það var allt í lagi.

Ef ég á að spá í stjórnmálaviðhorfið þá sé ég ekki betur en Hanna Birna sé á útleið sem Innanríkisráðherra. Hugsanlega er þetta aðeins millikafli í stórkostlegri stjórnmálafléttu: Bjarni Ben. vill komast í stjórn með Samfylkingunni í stað Framsóknar og kannski notar hann Má í seðlabankanum til þess. Um leið vill hann losna við hættulegan keppinaut um formennskuna í Sjálfstæðisflokknum. Nei annars. Ég er enginn spámaður.

Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðir verði lagðir í rúst. Nei, sá bær er víst horfinn, en jörðin er eftir og beðið er eftir því að erfingjarnir verði svo margir að ekki taki því að vera með opinber skipti. Þetta sé hvort eð er allt í rugli eins og annað á þessu ísa köldu landi. Svo er Árborg alltaf að stækka.

IMG 5891Sjósund afmyndað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband