2116 - Verðtryggingin enn og aftur

Skyldu fésbókartölvurnar vera svo öflugar að þær geti flokkað og sundurgreint eftir kúnstarinnar reglum öll lækin, deilingarnar og þá milljarða smáatriða sem til falla á hverjum degi á þessum vinsæla samskiptavef? Já, þær geta það alveg áreiðanlega og sú tækni sem til þess þarf er sífellt að batna og verða ódýrari. Fyrir hvern þann ávinning sem við náum í frelsisátt verðum við að gjalda dýru verði í auknu rafrænu eftirliti. Hver sá upplýsingasnepill sem ekki er gagnlegur í augnblikinu er geymdur endalaust í Stasi-líku gagnasafni og hver sú arða sem þar er geymd á eflaust eftir að koma tölvuveldinu, sem í uppsiglingu er, einhvertíma að gagni.

Fésbókarupplýsingarnar sem við látum fúslega af hendi eru ekki nema örlítið brot af öllu því gagnamagni sem næst frá allskyns rafeindatækjum og Internetinu. Símum, GPS-tækjum, eftirlitsmyndavélum o.s.frv. Hinar líklegustu og ólíklegustu stofnanir taka þátt í þessu hvort sem þær vita það og skilja eða ekki. Allir taka á sinn hátt þátt í því að gera gagnamagnið sem aðgengilegast og auðskiljanlegast fyrir tölvurnar.

Rafrænu fótsporin okkar eru útum allt og sífellt að verða mikilvægari og mikilvægari fyrir tölvurnar sem sanka  þeim saman að lokum.  

Stefnir þá ekki allt í eitt miðstýrt tölvukerfi sem öllu ræður? Jú, auðvitað. En frá hverjum verður það vald tekið? Sennilega engum. Í alþjóðlegum samskiptum er gríðarlegt vald ónotað og felst það einkum í tölvuupplýsingum allskonar. Sum ríki leggja talsvert á sig til að trufla og afvegaleiða þetta alþjóðlega gagnasafnskerfi og úr því getur orðið einhver töf. En tölvurnar og forritarar þeirra finna ráð við öllu.

Það er í tísku um þessar mundir að fjölyrða um verðtrygginguna. Með mikilli einföldun má segja að þrír aðilar berjist um völdin í landinu. ASÍ, SA og ríkisstjórnin. Á yfirborðinu er látið líta svo út að ríkisstjórnin ráði einhverju. Svo er þó ekki í raun og veru. Með þjóðarsáttinni svokölluðu afsalaði ASÍ (verkalýðurinn) sér réttinum til að ráða nokkru. Verðtrygging launa, eða víxlverkun kaupgjalds við vörur og þjónustu, eins og það var þá kallað, hafði mistekist með öllu og var ekki leyfð framar.

Verðbólgan (verðtrygging vöru og þjónustu) hafði eiginlega étið upp launahækkanirnar jafnóðum. ASÍ stóð frammi fyrir því að halda áfram á sömu braut eða láta SA ráða ferðinni. Raunin varð sú að bankar og fjármálastofnanir réðu ferðinni. Allt mögulegt var verðtryggt, nema launin. Verðlagning vöru hafði í raun og veru verið verðtryggð lengi. Nú bættust húsnæðislánin við og ýmislegt fleira. Lánin voru verðtryggð og bundin vísitölu sem ríkisstjórnin réði í orði kveðnu hvernig reiknuð var út, en bankarnir LÍÚ og SA í raun og veru. Launataxtar hættu með öllu að skipta máli. Verkafólk snerist jafnvel gegn verkalýðsfélögunum. Samt komst ekki með öllu á „bandarískt ástand“ að þessu leyti. Félögin héldu áfram að semja, en lögðu nú áherslu á ýmiss konar réttindi umfram beinar launahækkanir.

Lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir um þetta leyti eða fyrr og með því að láta ASÍ fá ítök í stjórn þeirra (ætti auðvitað að hafa þar öll völd – þetta eru í rauninni laun) tókst að fá fulltrúa þeirra að þjóðarsáttinni. Stjórnir sjóðanna skiptu litlu máli meðan þeir voru litlir og lítils megnugir en smám saman fóru fulltrúar SA þar að láta að sér kveða. Stór hluti launa fólks fór þá að renna til fjárglæfra hverskonar og framhaldið þekkja allir. Frelsið og máttleysi stéttarfélaganna leiddi meðal margs annars af sér bankahrunið árið 2008.

Verðtryggingin útaf fyrir sig er ekki svo vitlaus. Vísitalan sem miðað er við er það hinsvegar. Það tók ekki langan tíma að fá fólk almennt til að sætta sig við löng lán og verðtryggingu. Greiðslubyrðin varð við það viðráðanlegri og með því að SA lét ASÍ-félaga njóta að hluta þess sem sparaðist við að losna við sífelld verkföll tókst að binda verkalýðshreyfinguna á þann klafa sem síðan hefur ekki bilað.

Að hafa hundsvit á mörgu, en sérfræðivit á fáu er einkenni á mörgum Íslendingum. Kannski ekkert frekar á þeim en annarra þjóða kvikindum. Ég þekki það bara ekki. Annað er svo að koma orðum að hugsun sinni og hvort réttara er að kalla það hundsvit eða sérfræðivit. Ekki veit ég það, en Egill Helgason ætti að vita það. Hann, Ómar Ragnarsson og Jónas Kristjánsson eru mjög færir í því að koma orðum að hugsun sinni. Óvíst er samt að hún sé nokkuð merkilegri en hugsun annarra.

Gunnar Vigfússon var yfirbókari hjá KÁ í eina tíð. Hann var giftur föðursystur minni. Gunnar Álfur var hans helsti aðstoðarmaður. Hann hafði einhverntíma lent í því að listi sem hann hafði unnið fyrir framsóknarfélagið á Selfossi um stjórnmálaskoðanir Selfossbúa hafði komist í óvandaðra manna hendur og verið misnotaður í kosningum. Ekki þótti þetta fallegt þá, en er í raun smámundir einir samanborið við upplýsingamagn það sem á floti er hér á landi og aðgengilegt þeim sem kæra sig um.

Ég vil gjarnan halda Ásgautsstaðmálinu lifandi. En hverskonar líf er það að minnst skuli á það reglulega í einu Moggabloggi, sem ekki er einu sinni vinsælt. Kannski fer Gúgli frændi að kannast við þetta mál.

IMG 5883Í heita pottinum á nýársdag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband