2107 - Sience fiction

Aðallega er það útaf einhverri misskilinni skyldurækni sem ég minnist á Ásgautsstaðamálið hér í upphafi þessa bloggs. Líkt og nokkuð lengi undanfarið gerist fátt í því máli þessa dagana. Ég mun þó halda áfram að fylgja því eftir og alls ekki er útilokað að eitthvað gerist í því fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar.

Eins og mörgum er kunnugt er orðið „dystopia“ tengt vísindaskáldsögum (science fiction). Eiginlega er það nokkurs konar andstaða við „utopia“ sem ennþá fleiri kannast við. Í flestra hugum er það sennilega uppáhaldslandið þeirra. Útópían altsvo. Af vísindaskáldsögum hugnast mér einna best svokallaðar „post-apocalyptískar“ sögur sem gerast hér á jörðinni. Gjarnan mega þær vera einskonar sambland af utopiu og dystopiu eins og sagan sem ég er að lesa núna þessa dagana í Kyndlinum mínum. „Gone to Ground“ heitir hún og er eftir Cheryl Taylor.

Rómantíkin og dramatíkin flækist mikið fyrir höfundi þeirrar sögu en hún er samt prýðilega gerð og afar raunveruleg nema þá helst í bláendann. Sú saga gerist á kúrekaslóðum í Bandaríkjunum og á sama hátt og í bókinni „The Stand“ eftir Stephen King eru, til þæginda fyrir höfundinn, næstum allir íbúar jarðarinnar dauðir eftir harkalegan innflúensufaraldur. Cheryl þessi Taylor jafnast þó ekki sem rithöfundur á við Stephen King (sem er snillingur).

Eina bók man ég eftir að hafa lesið á íslensku um svona efni. Hún heitir „Eftir flóðið“ og er eftir PC Jersild ef ég man rétt. Það eru allmargir áratugir síðan ég las þá bók og kannski hefur það verið fyrsta „post-apocalyptíska“ bókin sem ég las.

Hversvegna ekki að vanda sig svolítið við blogg- og fésbókarskrif? Mér finnst það vera hálfgerð vanvirðing við lesendurnar að vanda sig ekki neitt. Láta semsagt allt flakka. Jafnvel þó allir geti lesið það og geri það kannski. Hugsanlega þó ekki fyrr en eftir áratugi en líklega verður þetta alltaf þarna. Munum það. Ég vanda mig oft heilmikið við bloggskrifin. Gæti varla hugsað mér að vera rithöfundur og fá ekkert um það að vita fyrr en eftir ár eða svo hverning til hefur tekist. Man vel eftir því úr skóla hvað okkur lá alltaf á að fá að vita einkunnirnar.

Er hugsi yfir því hve auðvelt er að gefa út bækur þessa dagana.  Amazon og eflaust fleiri bjóða uppá þá þjónustu að maður geti gefið út sínar eigin bækur fyrir lítinn pening. Hugsanlega leggur enginn í að lesa ósköpin en gamla skilgreiningin (a.m.k. hér á Íslandi) var sú að allir sem hefðu gefið út bók væru rithöfundar. Dóttir mín gaf út sína fyrstu bók þegar hún var þriggja ára. Ætli sonardóttir mín hafi ekki verið orðin svona tveggja ára þegar gefin var út bók sem innihélt eingöngu myndir af henni. Konan mín gaf út bók (sem seldist vel og lengi) þegar dóttir mín fór sem skiptinemi til Bandaríkjanna. Það var ein af fyrstu matreiðslubókunum á íslensku og sérstaklega sniðin að túristum.

Nú er þorrinn að byrja og í kvöld (laugardagskvöld) verðum við víst í einhverskonar þorrablóti. Hver og einn tekur með sér það sem honum þykir best af þorramat og svo fá allir að smakka hjá öllum. Þetta er afar auðvelt að skipuleggja.

Auðvitað er bloggið mitt að sumu leyti dagbók. En af hverju í ósköpunum er maður að þessu? Ekki er það í hagnaðarskyni. Ekki er það einhver sérstök þörf á að láta ljós sitt skína. Að einhverju leyti finnst mér samt sú vera raunin. Er maður að þessum sífelldu skrifum fyrir sjálfan sig eða einhverja aðra. Ég verð að viðurkenna að ég blogga fremur fyrir aðra, en fyrir sjálfan mig. Á sínum tíma hélt ég dagbók sem var algjörlega fyrir sjálfan mig. En hvert er gildi hennar ef maður lítur aldrei í hana? Með aðstoð Gúgla gamla get ég fundið flest það sem ég vil í blogginu mínu. Oft lýsir það ágætlega því sem ég hef verið að hugsa um á þeim tíma sem það er skrifað. Kannski ætti ég einmitt að gera bloggið mitt að meiri dagbók.

Núna áðan var ég að lesa blogg Óla Gneista. Hann kallar það dagbók og handahófskennt þvaður. Eiginlega lýsir það mínu bloggi líka. Þetta er ákaflega handahófskennt hjá mér um hvað ég skrifa. Hvort rétt er að kalla það þvaður finnst mér að aðrir eigi að skera úr um. Í þessu bloggi Óla Gneista er margt mjög merkilegt. Einkum er ég sammála honum um allt sem höfundarréttarmálum viðkemur. Hljómsveitaráhugi minn er hinsvegar ekki í takti við hans.

IMG 5838Áfram veginn í vagninum ek ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband