2105 - Sjálfsþurftarbúskapur

Það fer að verða svolítið vandasamt að halda þessu bloggi úti sem einhverju sérstöku Ásgautsstaðabloggi. Ég vil nefnilega ekki fæla menn frá því að semja um þetta lítilræði með of því að vera of skömmóttur eða orðljótur því hugsanlegt er að menn séu að vitkast pínulítið. Fyrri blogg mín vil ég þó minna á. Ég  byrjaði nefnilega að blogga um þetta mál þann 10. desember s.l. og hef minnst á það í hverju einasta bloggi síðan. Sennilega held ég því áfram þangað til eitthvað verulega róttækt gerist í málinu.

Einhversstaðar sá ég um daginn minnst á sjálfsþurftarbúskap. Hann var mikið stundaður áður fyrr hér á Íslandi. Sveitabýlin þurfu að vera sjálfum sér nóg um flesta hluti. Kaupstaðarferðir voru ekki margar. Kannski svona tvær á ári.

Bærinn Traðir er skammt frá Staðastað á Snæfellsnesi. Þegar ég fluttist að Vegamótum á Snæfellsnesi árið 1970 var einhver Guðmundur að mig minnir bóndi þar. Hann var einbúi. Sá bóndi held á að hafi komist næst því að vera með sjálfsþurftarbúskap af öllum sem ég hef þekkt. Í þau örfáu skipti sem hann kom á Vegamót vanhagaði hann ekki um annað en lýsi og rúgbrauð. Kannski keypti hann svolítið af haframjöli líka. Er ekki viss.

Fidel Castro og Hriflu-Jónas hafa sennilega verið afar líkir. Ekki kannski í útliti en þeim mun meira andlega séð. Þó var annar þeirra mikill aðdáandi bandarískrar og breskrar menningar en hinn sneri sér meir að Krúsjéffum og Andrópoffum Sovétríkjanna. Þetta kemur fram í athugasemd við bloggfærslu Stefáns Snævarrs á Eyjunni.is og er ekki ástæða til að efast um að sé rétt. Báðir voru þeir á vissan hátt fórnarlömb kalda stríðsins og hefðu þeir alist upp saman eða í samskonar menningu og við svipuð tækifæri hefðu ferlar þeirra sennilega orðið nauðalíkir hvor öðrum.

Tók eftir því í gærkvöldi hve langt er síðan ég hef skoðað Baggalútsfréttir. Sennilega er ég þessvegna svona súr jafnaðarlega. Síðasta fréttin áður en blaðsíðunni lauk var nefnilega tímamótafréttin um eignina sem fannst í þrotabúinu. Þá merkilegu frétt hafði ég séð áður. Sumum finnst hún kannski hálfútúrsnúningsleg. Svo er þó alls ekki. Heldur er þetta einmitt tímamótafrétt. Næstum því eins merkileg og fréttin um konuna sem dó úr hlátri og sagt var frá í fyrra.

Mér virðist að Sjálfstæðismenn séu að skjóta sig í fótinn varðandi borgarstjórnarkosningarnar í vor. Réttara væri kannski að segja að Davíð fyrrverandi formaður sé að skjóta Halldór frá Ísafirði í fótinn. Davíð, og Mogginn kannski líka, er greinilega búinn að gefa Reykjavík uppá bátinn. Mosfellssveit og Garðabær skal það vera, félagi.

Ég er búinn að sjá að það eru margir góðir kostir við að vera gamall. T.d. reiknar enginn með að maður geti neitt og sé ákaflega vitlaus. Vel má nýta sér það. Fáir eru eins vitlausir og þeir sýnast. Skárra væri það nú. Flestir eru mun gáfaðri en þeir líta út fyrir að vera. Á þessu má vara sig. Nú vantar mig bara góða sögu eftir Jens Guð eftir þennan fína inngang. Kannski ég reyni bara að semja hana sjálfur.

Einu sinni fyrir langalöngu var gamall maður sem var hreint ekki svo vitlaus. Hann leit bara út fyrir það því hann fór sér svo hægt að öllu. Það ber einmitt vott um miklar gáfur að flýta sér ekki um of. Þetta vita flestir nema þeir sem flýta sér um of. Þegar hann fór t.d. niður stiga tók hann bara eitt þrep í einu og hvíldi sig vel og vandlega eftir það. Þetta gerði hann vegna þess að hann nennti ekki að gera annað. Auðvitað var hann ekki heilan dag að fara niður (eða upp) einn stiga en hann passaði sig á að vera líka lengi að öllu öðru. Þannig tókst honum að eyða deginum.

Annars er þetta ekki góð saga. Eiginlega þyrfti að vera mynd með þessu til útskýringar, en ég nenni bara ekki að leita að henni.

Til að geta bloggað oft og mikið (eins og ég) þarf maður að vera tilbúinn til að skrifa allskyns vitleysu. Þetta hef ég vanið mig á. Stórhættulegt er að taka alvarlega það sem ég skrifa. Sumt skrifa ég þó í fúlustu alvöru. Enginn ætti samt að taka það of alvarlega. Nú er ég eiginlega hættur að skilja þetta bull sjálfur.

Ekki kæmi mér á óvart þó þjóðaratkvæðagreiðsla yrði um klukkuna. Ég mundi vilja láta flýta henni um svona mánuð.

IMG 5669Hættulegt jólaskraut.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband