30.11.2013 | 09:40
2083 - Mesti svíðari skáksögunnar
Heimsmeistaraeinvígið í skák sem haldið var á Íslandi árið 1972 er mörgum í fersku minni. Einnig er endurkoma Robert James Fishers til Íslands árið 2005 fólki minnisstæð. Margar bækur hafa verið skrifaðar um þennan snilling skáklistarinnar. Hann var greinilega geðbilaður (þ.e.a.s ekki eins og fólk er flest) og eftir að hafa unnið heimsmeistaratililinn hér í Reykjavík tefldi hann ekki opinberlega fyrr en árið 1992 og þá enn og aftur við Spassky.
Nýlokið er í Chennai á Indlandi heimsmeistaraeinvígi í skák, en þar sigrðaði Norðmaðurinn Magnus Carlsen Indverjann Viswanathan Anand í einvígi með talsverðum yfirburðum. Einvígið sem haldið var hér í Reykjavík árið 1972 hefur oft verið kallað einvígi aldarinnar og er þá átt við tuttugustu öldina. Vel getur verið að einvígið á Indlandi verði með tímanum kallað einvígi tuttugustu og fyrstu aldarinnar.
Þó margt sé líkt með þeim Fischer og Carlsen er ekki líklegt að Carlsen loki sig af á sama hátt og Fischer. Fischer kom frá brotnu heimili og sá að mestu leyti um sig sjálfur. Carlsen hefur aftur á móti lifað venjulegu fjölskyldulífi og er á flestan hátt ósköp venjulegur ungur maður. Skákhæfileikar hans og minni er samt með ólíkindum. Skákin hefur á undanförnum árum gengið í gegnum mikla erfiðleika hér á Íslandi og víðar, en mun hugsanlega ganga í endurnýjun lífdaga eftir þennan fræga sigur Carlsens.
Magnus Carlsen er okkur á Íslandi að góðu kunnur. Hann verður 23 ára í dag þann 30. nóvember og var því aðeins 22 ára þegar hann vann heimsmeistaratitilinn. Hann tefldi hér á Íslandi fræga atskák (umhugsunartími um hálftími) árið 2004 við Garry Kasparov sem þá var heimsmeistari. Kasparov var fjarri því að vera ánægður með að þurfa að sætta sig við jafntefli við strákinn (13 ára) í þeirri skák.
Í einvíginu á Indlandi voru þeir Carlsen og Anand aðskildir frá áhorfendum með glervegg. Ekkert slíkt var til staðar í Laugardalshöllinni árið 1972 þegar þeir Fischer og Spassky leiddu saman hesta sína. Á margan hátt var því líkast sem þeir Anand og Carlsen væru dýr í búri sem væru til sýnis fyrir forvitna og ágenga áhorfendur og ljósmyndara.
Víst er skákin í eðli sínu brútal. Þar er menn drepnir til hægri og vinstri og markmiðið er að lama kóng andstæðingsins. Samt er það svo að skákin ber með sér sigur andans yfir efninu og þó líkamlegt atgervi sé nauðsynlegt til að ná langt í þeirri íþrótt er það ekki skilyrði og aldur skiptir oftast litlu máli.
Í dag klukkan fjögur er blaðamannafundur og þar mun Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skýra frá tillögum nefndar um skuldamál heimilanna og samkomulagi milli stjórnarflokkanna um meðferð þeirra. Eflaust verður miklu pólitísku moldviðri þyrlað upp í framhaldi af því, en ekki er líklegt að það verði stjórninni að falli.Vinsældir hennar hafa þó dvínað mjög undanfarið og halda sennilega áfram að gera það. Annað mál er sennilegt að verði stjórninni hættulegra, en það er um skipun rannsóknarnefndar vegna Icesave-málsins. Þar er ruglað saman pólitískri og lagalegri ábyrgð og eingöngu farið af stað í hefndarskyni.
Verður gert í skrefum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.