2082 - Uppsagnirnar á RUV

Guðjón E. Hreinberg hefur skrifað margt athyglisvert. M.a. bækur og ýmislegt fleira. Hann hefur yfir léninu not.is (http://not.is/ ) að ráða og þar má nálgast allt hans efni. Í bók sinni „Varðmenn kvótans“ kemur hann t.d. ágætlega inná muninn sem er á því hvernig menn nálgast tölvur. Tölvur og tölvuvinnsla, forrit, stýrikerfi og gagnavinnsla eru að mörgu leyti samsafn af vandamálum. Illyfirstíganleg gjá getur myndast á milli þeirra sem nálgast þau vandamál með hugarfari notandans og þeirra sem gera það með hugarfari forritarans eða hugbúnaðarhönnuðarins, alveg eins og bifvélavirkinn hefur ekki sömu sýn á bíla og ökumenn oft hafa. Um þetta má margt segja og þetta getur haft talsverð áhrif á mannleg samskipti.

Uppsagnirnar á RUV hafa eflaust áhrif. Mér finnst samt ekki samræmi í því að gagnrýna allt sem RUV gerir og líka fyrir að vilja spara. Geri ekki ráð fyrir að skrifa undir áskoranir um að hætta við uppsagnirnar. Þekki einfaldlega ekki málið nógu vel til þess. Undirskriftasafnanir eru einfaldlega að verða viðurkennd aðferð í pólitískum aðgerðum. Vopnið er að slævast. Um atburðina í dag vil ég bara segja að Helgi Seljan (yngri) hefur sennilega vaxið í áliti hjá mörgum og Páli Magnússyni væri hollt að minnast málsháttarins um að sannleikanum verði hver sárreiðastur.

Þegar ég var í forsvari fyrir videokerfið í Borgarnesi vakti tilvist þess talsverða athygli hjá fjölmiðlum þess tíma. Svo langt gekk það, að einu sinni a.m.k. var haft samband við mig sem álitsgjafa. Ekkert var þó DV-ið og engin fésbókin í þann tíma. Þar lærði ég það að fréttamiðlar segja sjaldnast alveg satt og rétt frá og það hvaða fréttir komast að, helgast fyrst og fremst af áhuga fjömiðilsins og hvað hann heldur (eða vonar) að fólk vilji lesa. Áhugi miðilsins stjórnast stundum af von um aukið traust, en líka oft af mögulegum gróða. Fréttir eru samt yfirleitt ekki hafðar viljandi vitlausar og villandi. Heldur stafar það oftast einfaldlega af þekkingarskorti.

Sennilega fer fésbókin að syngja sitt síðasta, nema sem tenging milli náinna félaga og venslamanna. „Statusarnir“ eru óðum að verða álíka vitlausir og jafnmikið út í hött og athugasemdirnar hjá Vísi og DV. Ætli „virkur á fésbók“ verði ekki bráðum (eða sé nú þegar) álíka mikið skammaryrði og „virkur í athugasemdum“.

IMG 4801Í Feneyjum.


mbl.is Ekki komist hjá uppsögnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband