9.10.2013 | 23:19
2054 - SDG og BjBe
Það er svosem ágætt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands, er frábitinn kaldastríðshugsunarhættinum sem plagað hefur suma íslenska stjórnmálamenn undanfarin ár. Það er samt bagalegt að hann skuli hafa fært sig afturfyrir hann og í raun til millistríðsáranna. Hriflu-Jónas var á margan hátt á undan sinni samtíð. Sigmundur er hinsvegar langt á eftir henni. Á vissan hátt er Bjarni Ben. mun nútímalegri en hann. Samt þarf að vara sig á honum. Fjölþjóðafyrirtækin sanka að sér sífellt stærri hluta af auðlegð þjóðanna og Bjarni er fulltrúi þeirra.
Er sá hagnaður sem Sigmundur Davíð talar um að eigi að nota til lagfæringar á skuldastöðu heimilanna, ekki að stórum hluta fólginn í því að Íslendingar borgi skuldir sínar við útlendinga. Mér finnst það. Erum við ekki að glíma við að endurgreiða það sem rænt var af grunlausum útlendingum. Sú trú sem var á Íslenska kerfinu kemur aldrei aftur. Henni stálu útrásarvíkingarnir. Mikilmennskubrjálæði eins og þjóðremba ber alltaf vott um minnimáttarkennd. Ég er viss um að SDG er í rauninni þjáður af henni. Honum finnst hann áreiðanlega of feitur og svo leiðist honum eflaust að vera Íslendingur. Vildi gjarnan vera af einhverju marktæku þjóðerni. Orðspor Íslendinga er ekki gott um þessar mundir.
Eitt af því sem núverandi ríkisstjórn er langt komin með að eyðileggja er heilbrigðiskerfið. Það er ekki nóg að spara og spara. Skera niður miskunnarlaust. Menntakerfið og heilbrigðiskerfið er það mikilvægasta sem þjóðin á. Eftir að búið er að ræna frá henni því trausti sem henni var áður sýnt af umheiminum er það orðið afar fátt sem hún á sameiginlega.
Fæ reglulega áminningar frá fésbókarveldinu um að klára síðuna mína. Dettur ekki í hug að fara eftir því auk þess sem ég veit ekkert hvernig á að gera það. Fésbókarfjandinn er að verða svo uppáþrengjandi að það hálfa væri nóg. Alla vill hann eigna sér með húð og hári. Sú ánægja sem ég fæ af því að hunsa flest tilmæli sem ég fæ þar er mér alveg nóg umbun fyrir andstöðu mína við þetta stórhættulega veldi. Það er jafnvel hættulegra en sjálft Morgunblaðsveldið, sem reyndar lætur mig alveg í friði. Ég reyni líka að líta á sem flest mál án pólitískra gleraugna, en það gerir ritstjórinn snjalli allsekki. Hann (fésbókarfjandinn en ekki Doddson) er langt kominn með að leggja tölvupóstinn minn í rúst en hefur ekki enn fundið farsímann minn. Þar eru það að mestu bara olíufélögin sem sífellt eru að ónáða mig með tilkynningum um pínulítinn afslátt af bensíninu rándýra. Atlantsolía átti að vera skárri en hin félögin, en er það alls ekki.
Eitt hefur gys.is fram yfir baggalút. Þeir auglýsa sig á fésbókinni, eins og margir fleiri. Eiginlega ættu baggalútsmenn að gera það líka. Þeir eru nefnilega ansi sniðugir oft. Sennilega les ég samt oftar gys.is núorðið og það hlýtur að vera vegna þess að þeir auglýsa sig á fésbókinni. Það er ekki hægt að treysta því að allir séu með sig í bookmarki og hverjir fara reglulega á sitt eigið bookmark og kemba það. Ekki hann ég. Svo mikið er víst. Ég læt mér nægja að fara á fésbókina og bloggið mitt og ef þar er ekkert að finna sem áhuga minn vekur fer ég bara eitthvað annað. Eða gef tölvunni alveg frí svo hún geti dundað sér við screen-saverinn.
Hér var strætóskýli, en það er farið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.