2053 - Konungsbrúin

Japanski ferðamaðurinn stöðvaði bílinn minn og spurði með mikilli kurteisi á ensku:

„Geturðu sagt mér hvar konungsvegurinn er?“

Þetta skeði einhverju sinni þegar ég dvaldist í bústað Verzlunarmannafélags Reykjavíkur við Úthlíð í Biskupstungum.

Auðvitað kom mér það mér svolítið á óvart að japanskur ferðamaður skyldi vera með kort í hendi að leita að konungsveginum á 21. öldinni á þessum afleggjara frá aðalveginum milli Laugarvatns og Geysis í Haukadal. Fór samt ekkert nánar útí það við hann. Sýndi honum bara veginn sem ég hafði einmitt farið um gangandi daginn áður. Þetta er í dag fremur ómerkilegur ruddur reiðvegur. Honum fannst líka svo lítið til um hann að helst vildi hann ekki trúa mér. Eflaust hefur þetta verið sagnfræðistúdent og fundist merkilegt að lagður skyldi sérstakur vegur vegna jafn ómerkilegs atburðar og konungskomu.

Konungskoman árið 1907 var samt enginn ómerkilegur atburður. A.m.k. var hún það ekki í augum okkar Íslendinga. Konungsbrúin yfir Brúará stendur enn og þykir mikið og merkilegt mannvirki. Strax og ég sá hana í fyrsta sinn fannst mér það. Upphaflega var sú brú gerð árið 1901 og ekki endilega vegna konugskomunnar  heldur sem göngubrú yfir vatnsfall sem var mikill farartálmi og hættulegur. Vegurinn og brúin eru alls ekki gerð fyrir bíla, heldur bara fyrir ríðandi og gangandi fólk. Þannig var það 1907 og þannig er það enn. Það hlýtur að þykja einn merkilegasti reiðtúr á landinu að fara frá Þingvöllum að Geysi eftir konungsveginum og yfir konungsbrúna.

Steinboginn sem eitt sinn var skammt fyrir ofan þann stað þar sem Konugsbrúin er núna gerði það mögulegt að komast klakklaust yfir þessa mestu bergvatnsá landsins var samt enn merkilegri náttúrusmíð. Skömm þeirra Skálholtsmanna, sem létu á 17. öld brjóta þann steinboga niður til að fátæklingar ættu erfiðara með að komast í Skálholt, er mikil.

Ef menn vilja skoða þetta mannvirki í dag, sem ekki sést frá þjóðveginum,  er einfaldast að fara úr bílnum við brúna yfir Brúará og ganga svona 1 til 2 kílómetra upp með ánni. Ég fór vinstra megin við ána þegar ég fór fyrst þangað en sennilega hefði verið hagstæðara að fara hægra megin. Tungnamenn kannast svo auðvitað allir við Konungsbrúna og geta vísað á hana.

Fræðast má meira um konungskomuna 1907 meðal annars á Wikipediu  á þessu urli: https://is.wikipedia.org/wiki/Konungskoman_1907  og svo hefur margt fleira verið skrifað um þennan merkisatburð.

Auðvitað er lífið allt einn risastór brandari. En að þriggja ára krakki skuli vita það er merkilegt. Sonardóttir mín sem stundum kemur í heimsókn til mín í Kópavoginn brosir oft svo undirfurðulega að hún hlýtur að vita það á sinn hátt. Það einkennilega við þennan brandara er að maður kemst ekki útúr honum. Sumir átta sig aldrei á þessu eðli lífsins en stritast við það alla sína ævi að vernda sínar Tortólaeignir og öfundast út í aðra sem hugsanlega eiga meira af slíku. Ennfremur tíma þeir oftast ekki að eyða því sem þeir afla og eiga. Reyna jafnvel að framlengja brandarann með því að safna steinsteypu eða einhverju öðru. Allar framfarir í veröldinni byggjast samt á því að fólk taki lífið ekki mjög alvarlega og hugsi meira um aðra en sjálft sig.

Ja, nú er það svart maður allt orðið hvítt. Fullyrt hefur samt verið að snjórinn verði ekki lengi. A.m.k. hér á Stór-Kópavogssvæðinu. Vonandi verða engin merki um hann um næstu helgi.

IMG 4119Ógeðslegt – en sveppur samt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband