2044 - Háskólar á Íslandi

Á Íslandi eru einir sjö eða átta háskólar og veitir ekki af. Ég er að hugsa um að telja þá upp af því ég held að ég geti það. Fyrst er frægastan að telja Háskóla Íslands. Tveir aðrir eru í Reykjavík. Háskólinn í Reykjavík (sem reyndar er í Nauthólsvíkinni.) og Listaháskóli Íslands (sem ég veit ekkert hvar er.) Svo er það háskólinn að Bifröst. (Þar var ég í skóla endur fyrir löngu en þá var það ekki háskóli.) Háskólar eru á Hvanneyri og Hólum í Hjaltadal. (Líklega eru það landbúnaðarháskólar hvorttveggja og Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi útibú frá öðrum þeirra, sennilega þeim á Hvanneyri.) Þá er líklega ekki annar ótalinn en Háskólinn á Akureyri. Jú, sennilega er einhverskonar háskóli á varnarsvæðinu (sem var) hjá Keflavík.

Samkvæmt þessu er minna en helmingur háskólanna á Reykjavíkursvæðinu og það gengur náttúrulega ekki.

Ef ég væri með annan fótinn í krapavatni og hinn í sjóðandi vatni liði mér sennilega að meðaltali nokkuð vel. Væri ég við sjávarmál væri mér þó kannski fullheitt. Suða á vatni minnkar við hæð. Ekki veit ég hvort mér mundi duga að fara uppá Esjuna til að meðaltalið yrði viðunandi en það hef ég hvort eð er ekki í hyggju.

Sagt er að lokaorrustan um flugvöllinn í Vatnsmýrinni sé hafin og verði mjög hörð. Áhrif þessa máls á bæjarstjórnarkosningarnar næsta vor er ekki víst að verði eins mikil og margir halda. Í Reykjavík er það landsmálapólitíkin sem mestu ræður og svo bætist við núna að úrslitin fyrir 4 árum voru óvænt mjög. Skyldi Jón Gnarr bjóða sig fram aftur? Ég reikna frekar með því og á von á að hann nái svipuðum árangri og síðast. Bæti kannski ekki við sig en haldi sínu. Annars er ekki mikið að marka spádóma mína. Ég er heldur hlynntur því að flugvöllurinn fari en finnst þetta ekki vera mál sem þörf sé á að skipa sér í fylkingar útaf.

Það voru talsvert margir sem óskuðu mér til hamingju með afmælið á Facebook og ég reyndi að svara þeim og þakka fyrir það en kann ekki nógu vel á fésbókina til að vera viss um að það hafi tekist. Ef einhverjir þeirra leggja í vana sinn að lesa þetta blogg er það hérmeð endurtekið til vonar og vara. Reyndar er ég ekki nema 71 árs og ekkert séstakt afrek að ná þeim aldri. Gerði þetta einu sinni sjálfur (þ.e. að óska til hamingju með afmæli á fésbókinni) en nenni því ekki lengur. Einu sinni komu upplýsingar um afmæli sjálfkrafa en nú þarf maður víst að gera reka að því að fá þær. Kannski er hægt að hafa hamingjuóskirnar líka sjálfvirkar. Veit það bara ekki.

Hugsanlega (en ekki líklega) sakna þess einhverjir að fá ekki afmæliskveðju frá mér. Ég var vanur að muna eftir þeim sem ég var minntur á. Þetta er semsagt skýringin. Einu sinni lagði ég það líka í vana minn að safna fésbókarvinum, en það er liðin tíð. Samþykki líka alla sem óska efir fésbókarvináttu við mig. Vera Illugadóttir, sem ég held að eigi sama afmælisdag og ég (13. sept.) kann víst arabisku að því að sagt er. Skyldi hún kunna hebresku líka? Ég kann hvorugt en kemst samt af.

Þunglyndi og sjúklegt þunglyndi. Er þunglyndi að vera alltaf í fýlu? Er maður alltaf í fýlu ef öðrum finnst það? Margir virðast flagga þunglyndinu sem einhverri skrautfjöður. Er ekki nóg að vera bara ljótur og leiðinlegur? Fræga fólkið vill endilega vera þunglynt líka. Það er svo smart. Nefni engin nöfn. Það gæti verið hættulegt. Er ekki nóg að vera frægur? Hvað þurfa margir að kannast við mann til að maður sé það. Sumir virðast halda að þeir verði frægir á því einu að vera nógu andskoti þunglyndir.

IMG 4085Skilti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband