2040 - Salvör Kristjana

Í síðasta pistli mínum ræddi ég víst ekkert um stóra JBH-málið. Ástæðan er einkum sú að umræðan um það er orðin svo mikil að það er að bera í bakkafullan lækinn að fjalla meira um það. Mig minnir að ég hafi rætt um þetta mál fyrir nokkrum dögum og skoðanir mínar hafa ekki breyst verulega síðan þá. Mikið hefur samt verið rætt um siðferðishliðina á málinu og sumir skipt um skoðun við það. Ekki er það óeðlilegt, því sú hlið er vissulega markverð og ber vott um mikinn áhuga þjóðarinnar á henni. Margir hafa verið óþarflega stórorðir í þessu sambandi og jafnvel skemmt fyrir sér með því. Ég er nýbúinn að lesa grein Jóns sjálfs í Fréttablaðinu um þetta mál og mér finnst hann ekki bæta sinn málstað að neinu leyti. Jafnvel er hægt að segja að hann geri hann verri.

Enn er ég að mestu sammála Salvöru Kristjönu um þetta alltsaman. Þeir sem vilja fræðast meira um málið (sem hljóta að vera fáir) geta t.d. farið á vef Salvarar (http://salvor.is/?p=59 ) en þar er að finna krækjur á ýmsar greinar um þetta mikilsverða mál.

Jú, það er svolítið kalt núna. Einu sinni sagði Steingrímur Hermannsson að pabbi sinn hefði sagt: „Allt er betra en íhaldið“. „Allt er betra en rigningin“, segi ég. Finnst vera hægt að segja það núna. Köld slagveðursrigning er leiðinlegasta veður sem ég veit um. Öskubylur er betri.

Einu sinni á sjöunda áratug síðustu aldar, þegar ég vann hjá Hannesi Þorsteinssyni var hringt frá tollstjóra og spurt um tiltekna tollskýrslu. Maðurinn þar vildi fá að vita hverslags efni það væri sem við værum að flytja inn og kallaðist „tík“ eftir því sem hann sagði. Ég skoðaði afrit af þessari skýrslu og sá að um teak (sem á íslensku er oftast kallað tekk) var að ræða. Eftirmál urðu engin.

Mér finnst bloggið hjá mér vera vinsælt og lesið af furðumörgum. Tel sjálfum mér trú um að það sé einkum vegna þess að mér tekst oft að vera sæmilega stuttorður og koma mörgu að. Sú finnst mér vera krafa tímans. Málalengingar eiga samt oft rétt á sér, en miklu síður í bloggi en annarsstaðar. Fésbókin er oft enn stuttorðari og hnitmiðaðri en bloggið. Stundum svo stuttorð að hún er að mestu óskiljanleg öðrum en innvígðum. Aðalástæðana fyrir neikvæðni minni í hennar garð tel ég samt vera, að mér gengur illa að tileinka mér þann hugsunarhátt sem þar ræður ríkjum.

Óþarfi finnst mér vera að leggja nokkra pólitíska merkingu í það að ég skuli enn halda mig við að blogga á Moggablogginu. Þeir sem einu sinni hafa lesið mitt blogg og vilja lesa það aftur geta auðveldlega fundið það, held ég. Áhersla ritstjórnarinnar á blogg hefur samt minnkað mikið síðan ég byrjaði og vissulega blogga hér margir orðljótir menn sem mér finnst ég ekki bera neina ábyrgð á. Þeir hafa heldur ekki nein áhrif á mig. Kannski er versti ókosturinn við þetta blogg mitt algert stefnuleysi um stjórnmálaleg efni. Versti ókosturinn við Moggabloggið sjálft finnst mér vera að það er í rauninni og strangt til tekið ekki annað en athugasemdakerfi við greinar á mbl.is. Margir nota það líka einkum þannig.

IMG 3885Ský og hestar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband