16.8.2013 | 08:02
2029 - Fuoristrada (sjá mynd)
Þorsteinn Pálsson er nú loksins búinn að jafna sig dálítið á meðferðinni sem hann fékk hjá Davíð Oddssyni og kumpánum hans þegar hann var hrakinn úr formannsstól Sjálfstæðisflokksins. Greinar hans um Skúla fógeta, Jón Sigurðsson og fleiri andans jöfra fyrri tíðar bera vott um það. Gjalmiðilsmál og innganga í ESB eru honum auðvitað talsvert hugleikin. Skrif hans um þau efni eru góðra gjalda verð og verða einkum að skoðast sem gagnrýni á stjórnarstefnuna. Ekki er samt sjáanlegt að hann sé að bila neitt sem Sjáfstæðismaður og stefna hans í málum sem tengjast ESB eru miklu meira í ætt við gömul grundvallarstefnumál Sjálfstæðisflokksins en stefna þeirra sem fyrirskipuðu fulltrúum á síðasta landsfundi flokksins að kjósa gegn ESB-aðild.
Að andstæðingar aðildar að ESB skuli geta notað áðurnefnd nöfn til stuðnings fáránlegri einangrunarkröfu sinni sýnir bara að þeir hafa komið víða við. (Altsvo jöfrarnir en ekki andstæðingarnir) Engin leið er að sjá núna hvernig þeir mundu hafa brugðist við vandamálum dagsins í dag. ESB-aðild stendur ekki og fellur með hugsanlegum stuðningi eða andstöðu Skúla fógeta og Jóns Sigurðssonar heldur hvernig stjórnmálamenn dagsins í dag haga sér og tekst að lesa í hugmyndir almennings.
Sagt er að Arkimedes hafi hlaupið allsber beint úr baði út á götu og hrópað: Hevreka, hevreka. Á nútímamáli hefði það sennilega hljómað einhvern vegin svona: Nú er ég búinn að fatta það, nú er ég búinn að fatta það. Þetta er sagt að hann hafi hrópað þegar hann var búinn að uppgötva aðferð til að komast að eðlisþyngd hluta. Kóngurinn hafði nefnilega falið honum að komast að því hvort gullkóróna sem honum hafði verið færð að gjöf væri kannski blönduð með ódýrari málmum. Lögmálið er svona: Hlutur sem settur er í vatn ryður frá sér vatni sem er nákvæmlega jafnt og rúmmál hans. Útfrá þyngd vatnsins (sem hluturinn ruddi frá sér) var síðan hægt að reikna eðlisþyngd málmblöndunnar í hlutnum. Kórónan var svikin og Arkimedes græddi mikið á þessari uppgötvun sinni. Þetta er auðskilið núna en lá alls ekki í augum uppi á dögum Arkimedesar.
Það var samt ekki allt saman alveg rétt sem Arkimedes hélt fram. (T.d. pönnukökuhugmyndin um jörðina.) Sigmundur Davíð hafði að mestu rétt fyrir sér í sambandi við Icesave. Þar með er þó ekki sagt að hann hafi alltaf rétt fyrir sér. Ég efast mikið um að hann sé fullkomnari en Arkimedes var.
Í fyrsta og eina skiptið sem ég fékk þursabit í bakið brá mér alveg rosalega. Ég gat alls ekki með nokkru móti rétt úr mér fyrir kvölum. Þetta skeði þegar ég var að lyfta einhverju smáræði sem ég man ekki lengur hvað var. Ég var ekkert ákaflega illa haldinn svo lengi sem ég hélt mig við það að vera kengboginn. Næstu daga rjátlaðist þetta svo smám saman af mér og ég held að ekkert sérstak hafi verið gert. Minningin er samt alltaf til staðar og sársaukinn jafnaðist a.m.k. á við sinadrátt í lærinu og finnst mér þá langt til jafnað.
Nú er von á enn einu dómsmáli um blogg. Páll Vilhjálmsson bloggarinn sem kallar sjálfan sig blaðamann og hamast á móti ESB verður líklega fyrir því. Ekki get ég vorkennt honum og ekki á það neinn uppruna í því að hann er andstæðrar skoðunar við mig varðandi ESB. Nei, hann kallaði fréttamann hjá RUV lygara og falsara og ekki er nema rétt að hann fái tækifæri til að sanna að það sé rétt. Hingað til hefur fréttastofa RUV haft á sér fremur gott orð og á flestan hátt mun betra en Páll þessi Vilhjálmsson.
Þetta sjálfstæðishjal í Sigmundi og Co. er mestan part blekking. Við Íslendingar erum ekki par sjálfstæðir lengur. A.m.k. er fráleitt að álíta að við séum sjálfstæðari en aðrir. Sjálfstæðishugtakið sjálft er allt öðruvísi nútildags en það var í byrjun síðustu aldar. Að ætla sér að vekja upp þjóðrembu með samskonar tali og tíðkaðist hér þá er hlægilegt. Samt er eins og núverandi stjórnarflokkum hafi tekist það að nokkru leyti í síðustu alþingiskosningum. Það er samt eingöngu vegna þess að Steingrímur og Jóhanna kunnu ekkert skárra. Ef menn eru gersneyddir því að kunna nútímalegt tungutak er ekki von að vel fari. Síðasta ríkisstjórn var með allt niðrum sig á síðustu metrunum og ákveðin í því að tapa. Það tókst og nú eru komnir nýjir herra en vandséð mjög að þeir séu nokkuð betri.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.