2027 - Hommafóbía

Ég hef dálitlar áhyggjur af þeim Gylfa Ægissyni og Guðmundi Andra. Þeir hafa nefnilega ekki að öllu leyti sömu skoðanir og ég á viðkvæmum málefnum. Og bloggheimar loga eins og sagt er. Fésheimar ætti kannski frekar að segja. Af þessu tilefni hef ég ákveðið að styðja ævinlega, ef ég mögulega get, meirihlutann. Vera semsagt eins pólitískt rétthugsandi og fræðilega er mögulegt. Skyldi nokkuð vera hægt að banna mér það? Ef ég verð (er) í vafa um rétthugsunina í einhverju máli áskil ég mér rétt til að fresta því að taka afstöðu. Samt ætla ég ekki að vera á móti ESB-aðild þó það sé greinilega minnihluta-afstaða. Það er nefnilega prinsippmál. Já, prinsippin. Ég átti alveg eftir að athuga þau.

Djöfull er það eitthvað skítt að maður skuli ekki lifa endalaust. Undarleg ósköp að deyja sagði Hannes Pétursson fyrir margt löngu. Man að þessi orð hans festust mér mjög í minni þó ungur ég væri. Hann líka ef útí það er farið. Þetta var í einhverju kvæða hans og honum var mjög hampað um þessar mundir sem verðandi stórskáldi ef ég man rétt.

Mér finnst það ágæt hugmynd hjá þeim Stígamótakonum að opna kampavínsklúbb. Þó það verði kannski bara til þess að þeir sem slíka klúbba reka finnist að þeir þurfi endilega að skipta um nafn, er vissulega betur af stað farið en heima setið. Leigubílstjórar gætu fundið uppá því að keyra þá sem vilja fara á kampavísklúbb til Stígamóta.

Fékk krampa í bensínfótinn. Sinadráttur hét það einu sinni. Mér finnst þetta óvenjulega léleg afsökun. Flestir mundu taka fótinn af bensíninu (gæti reyndar gengið illa að bremsa) ef þeir fengju krampa eða sinadrátt í löppina. En það má svosem reyna að finna uppá einhverju. En trúgjarnir mega tryggingamennirnir vera, ef þeir trúa þessari vitleysu.

Í mínum huga snýst skák fyrst og fremst um það hvort eitt peð sé nóg til sigurs eða hvort þurfi tvö til. Auðvitað getur staða verið unnin þó liðsmunur sé ekki í hag þeim sem vinnur. Einnig getur eitt peð oft dugað til sigurs, en ekki alltaf. Tvö peð gera það heldur ekki alveg alltaf, en oftast nær. Meiri liðsmunur dugar næstum alltaf til sigurs og þarf nánast ótrúlega óheppni eða klaufaskap til að klúðra slíkum yfirburðum.

Sonardóttir mín þriggja ára sagði við mig um daginn þegar ég var í frotté-náttslopp:

„Af hverju ertu í þessu handklæði?“

Við nánari athugun er þetta fyllilega rökrétt hjá henni. Hún hefur næstum áreiðanlega fyllstu ástæðu til að álíta að nafnið „handklæði“ geti eins átt við efnið eins og notkunina. Svo kallar hún að vísu grjónagraut alltaf hafragraut og rennibraut rennigraut, en það er önnur saga.

Stúlka ein var á leiðinni í vist og faðir hennar sagði við hana: „Gættu þess svo að láta hann Jón ekki barna þig. Hann er manna líklegastur til þess. Og þau hjónin bæði.

Ál.IMG 3565


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband