2026 - Deildu.net

Ég get eiginlega ekki látið hjá líða að fimbulfamba svolítið um Evrópumálin, svona í tilefni af afturköllun IPA styrkjanna. Mér finnst að ríkisstjórnin geti ekki komist upp með þessa hálfvelgju endalaust. Taka þarf ákvörðun um það hvort ESB-viðræðunum verði haldið áfram eða ekki. Sennilega verður þeim ekki haldið áfram og það er bara í góðu lagi, þó mér finnist það asnaleg ákvörðun. Ég álít að kosningarnar síðastliðið vor hafi ekki síst snúist um ESB og að þjóðin hafi í raun hafnað inngöngu. Hinsvegar er nauðsynlegt að hafa einhverja formlega afgreiðslu á málinu. Hér dugir engin hálfvelgja.

Mér er alveg sama þó Sigmund dauðlangi til að halda áfram að fá sem mesta styrki. Ákvörðun þarf að taka og það sem allra fyrst. ESB getur ekki beðið endalaust. Ef núverandi ríkisstjórn hrökklast fljótlega frá völdum, sem alveg gæti gerst, og ný tekur við standa þá yfir viðræður við ESB eða ekki? Ef alþingi treystir sér ekki til að taka á málinu þá er það einfaldlega óstarfhæft. Kannski var ákvörðunin um upphaf viðræðnanna tekin á röngum forsendum en hún var þó löglega tekin. Að velta vandamálunum svona á undan sér eins og núverandi ríkisstjórn virðist helst vilja gera gengur einfaldlega ekki. Fyrrverandi stjórn komst upp með ansi margt í því tilliti en í þessu máli er ekkert til nema af eða á.

Engin hætta er á að ESB þróist í sömu átt og Bandaríkin. Samvinna Evrópuþjóða mun ekki ná lengra en nú er. Sameiginleg mynt er toppurinn. Ekki er með neinu móti hægt að gera eina þjóð úr Evrópuþjóðunum öllum. Til þess eru þær of margar og of ólíkar og eiga sér mismunandi sögu. Sagan skiptir vissulega máli og Bandaríkjamenn tóku landið bara frá „vitlausum indíánum“ og eiga því að mestu sömu söguna. Evrópumenn ekki. Þeir börðust löngum hver við annan og veitti ýmsum betur. Að menn skuli hafa ákveðið að hætta því er mesti sigur ESB. Sérhæfingin í öllum iðnaði og tækni og sameiginlegur markaður er það sem viðheldur sambandinu. Við Íslendingar eigum að sækjast eftir því samstarfi eins og aðrar smáþjóðir álfunnar.

Deildu.net málið er ansi heitt um þessar mundir. Vel er hægt að taka undir flest það sem rétthafar segja um málið. Áætlaðar tjónstölur þeirra eru þó alveg í skýjunum og þar af leiðir að tillögur þeirra til úrbóta eru óraunhæfar með öllu. Það hefur löngum verið þannig og mun að líkindum verða um ókomna tíð að þeir sem kunna sæmilega á tölvur og kæra sig um geta fengið það efni sem þeim sýnist og á því verði sem þeir vilja greiða fyrir það. Einnig þurfa þeir að sæta því að lagalegur réttur þeirra er vafasamur. Ef deildu.net verður lokað spretta bara upp önnur slík vefsetur í staðinn. (Ath. mætti bæði með deildu.is og deildu.com) Hvað almenning varðar frestar það bara því að raunhæfar aðgerðir sjái dagsins ljós.

Ef ég lít á ágúst-dagatalið við hliðina á blogginu mínu sýnist mér að mér sé loksins að takast það sem ég hef lengi ætlað mér. Það er að blogga bara öðru hvoru. Vera ekki bundinn við að blogga á hverjum degi eða svotil. Hingað til hefur mér fundist að ég þyrfti þess. En það er ágætt að vera ekki síbloggandi því ég fjalla mjög lítið um fréttatengd mál og pólitíkin og fjölskyldan er að mestu leyti í sumarfríi núna.

Einu sinni var haldinn hreppsnefndarfundur. Einhverjum sem mjög gjarnt var að nota orðið „nefnilega“ var þar mjög tíðrætt um vegarspotta einn sem laga þyrfti því menn:

Nefnilega í náttmyrkri
nefnilega mættu
nefnilega nokkurri
nefnilega hættu.

Þetta er á margan hátt ágætisvísa og minnir mig á aðra sem mamma kenndi mér:

Aldrei skal ég eiga flösku
aldrei bera tóbaksskrín.
Aldrei reiða ull í tösku
aldrei drekka brennivín.

Auðvitað má nota „alltaf“ í staðinn fyrir „aldrei“ ef mönnum hugnast það betur.

IMG 3557

Hér hefur tré verið misþyrmt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband