2025 - Hafnfirðingur sofnaði í baði

Það er svo hræðilega margt sem ég veit ekki, kann ekki og get ekki. Samt er ég einhvern vegin búinn að slampast gegnum lífið. Margt hefði svosem mátt fara betur. Þó sé ég eiginlega ekki eftir neinu. Hefði sennilega ekki getað orðið neitt annað en það sem ég á endanum varð. Gamalmenni með óstöðvandi bloggáráttu. Þó hefði mér aldrei dottið það í hug á mínum sokkabandsárum enda var ekki búið að finna bloggið upp þá. Undarlegar finnst manni samt þær tilviljanir sem ráðið hafa miklu um hvernig lífið varð. Þó getur vel verið að þetta hafi allt saman verið fyrirfram ákveðið.

Nenni ekki að pæla meira í þessu en sný mér að öðru. Einhverju sinni barst bloggnáttúra mín í tal á bekkjarsamkomu af einhverju tagi. Þá sagði einhver að hann hefði alls ekki búist við því að ég yrði helsti bloggarinn í hópnum. Sennilega átti þetta að vera hrós en það var nú svolítið beggja blands því bloggarar eru víst ekki álitnir merkilegir. Nú langar mig að vera eins og þessi bekkjarbróðir minn, sem ég get alls ekki munað hver var, og segja frá því að þegar við vorum með sultardropana á nefinu í Samkomuhúsinu í Dalsmynni og þóttumst vera að halda Lionsfundi þar þá hefði mér ekki dottið í hug að Svanur væri efni í þann úrvalsbloggara sem hann vissulega er.

Nú vilja Kínverjar kaupa Íslandsbanka eftir því sem sagt er. Eru þetta ekki einhverjir bölvaðir hrægammar? Hvernig þekkja Bjarni og Co. þá frá venjulegum hrægömmum? Vilja þeir ekki bara gleypa okkur íslensku vesalingana með húð og hári? En auðvitað eru það víst peningarnir eins og venjulega sem skipta mestu máli. Snjóhengjan er ekkert að bráðna, sumarið er svo kalt. Svo eru víst einhverjar Íslands-krónur á Litla-Hrauni sem hægt er að koma í vinnu með því að selja bankaræfilinn. Ég verð að játa að æðri fjármál skil ég ekki.

Bókin sem ég er að lesa þessa dagana er um Braga Kristjónsson þann fræga bókasafnara, lífskúnstner og sjónvarpsstjörnu og er tekin saman af Hrafni systursyni hans. Ekki var ætlunin að fara að fjölyrða um bókina hér enda er ég þess ekki umkominn. Man bara vel eftir því þegar hann var að byrja í Kiljunni hjá Agli Helgasyni og núna er hann eiginlega orðinn frægari en þátturinn sjálfur. Það er villan hjá Agli. Nú veit enginn hvor leggur upp laupana á undan þátturinn eða Bragi. Egill segist ætla að hætta með Silfrið til að einbeita sér að Kiljunni en vel getur verið að hún hafi runnið sitt skeið. Bókmenntaþáttur á samt alveg rétt á sér í sjónvarpi.

Var að lesa áðan á mjólkurfernu yfir morgungrautnum hvað það væri að vera í spólandi formi og að spól væri þýðing á enska orðinu spinning. Áður fyrr reyndi fólk (fullorðið a.m.k.) að djöflast að einhverju gagni. Nú er það ekki lengur nauðsynlegt því djöflagangurinn sjálfur er orðinn aðalatriðið. Bara að spögúlera.

Síðustu aldir hafa byrjað heldur illa fyrir okkur Íslendinga. Hjaðningavígin hafa verið með meira móti. Uppkastið svonefnda fór illa í marga í upphafi tuttugustu aldarinnar. Á endanum reyndist það okkur samt ágætlega. Bankahrunið í byrjun þeirrar tuttugustu og fyrstu var mörgum erfitt. Vonandi verður það samt á endanum til góðs. Gaman er að hafa upplifað þá upplausn sem hér hefur verið að undanförnu. Aldrei hefur samt borðið á ótta hjá mér um að allt færi á versta veg. Skynsemin verður á endanum grimmdinni yfirsterkari. Þó allt sé í heiminum hverfult er samt um framfarir að ræða.

Hafnfirðingur sofnaði í baði, er ein af aðalfyrirsögnunum á mbl.is. Auðvitað er þetta stóralvarlegt mál en spurning samt hvort það á erindi í fjölmiðla. Ef lögreglumaður segir fjölmiðlamanni eitthvað er það samstundis orðið að frétt. Veit ekki hvar þetta endar. Held að lögreglumönnum væri hollast að þegja sem allra mest. 

Selvfölgeligheder, selvfölgligheder. Já, auðvitað er flest það sem sagt er sjálfsagðir hlutir. Annars væru ekki allir sammála um það. Það var þó ekki sjálfsagt að skipta heimsstyrjöldinni, sem einkenndi tuttugustu öldina, í fyrri og seinni hálfleik. Það var heldur alls ekki sjálfsagt að drepa svona marga bara til þess að þjóna lund fáeinna sérvitringa. Vonum bara að eitthvað annað en heimsstyrjaldir einkenni tuttugustu og fyrstu öldina. Hún líður nefnilega að lokum í aldanna skaut eins og aðrar á undan henni.

IMG 3554Hér hefur tré verið drepið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hreinn hafnarfjarðarbrandari þessi með þann sofandi í baðinu og hrjótandi í þokkabót.

Númi 10.8.2013 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband