30.7.2013 | 08:11
2019 - Ellin allsherjar
Ellin er búin að vera læðast aftan að mér undanfarið. Þegar ég var innan við fimmtugt fannst mér ég vera ungur. Síðan hætti ég að skipta um vinnu, því ég var orðinn svo gamall. Nú er ég orðinn meira en sjötugur og hættur að vinna. Eða vinn að minnsta kosti sjaldan. Tapa aðallega. Einkum jafnvægi og vöðvamassa. En allt er hægt að endurheimta. Til þess er líkamsræktin. Ef maður er ekki farinn að stunda slíkt þegar elliárin koma, þá hvenær?
Í þessu bloggi mínu ræði ég aðallega um sjálfsagða hluti og einfalda. Annað skil ég ekki. Þeir eru svo einfaldir (hlutirnir sem ég fjalla um) að fólk gleymir stundum að þeir séu til. Annars hættir mér til að skrifa alltof mikið og þá verða hlutirnir flóknir. Eiginlega er ágætt að vera svona gamall. Þá ber maður ekki ábyrgð á neinu. Einu sinni þegar ég hafði ekkert annað að gera greip ég til þess að safna yddi. Það var reyndar afleitt. Blýantsyddið var best. Sérstaklega ef ekki fylgdi því mikil málning. Best var ef ekki var hægt að sjá hvernig blýanturinn hefði verið á litinn. Gulir voru algengastir.
Jæja, þetta var útúrdúr. Mér hugnast fremur illa að vera hér með hugleiðingar um fréttir dagsins. Aðallega er það vegna þess að ég get ómögulega séð að álit mitt á þeim skipti einhverju máli og svo er ég alltaf of seinn að skrifa um þær. Miklu fremur vil ég vera með allskyns hugleiðingar um sundurlausustu efni eða þá að endursegja eldgamlar fréttir sem allir (eða flestir) eru löngu búnir að gleyma.
Les aðallega bækur eftir Stephen King þessa dagana. Hann er samt dálitið misjafnlega góður. Hugmyndirnar sem hann fær eru oftast ágætar. Hann skrifar líka vel. Er full-langorður samt fyrir minn smekk. En ég er nú löngu hættur að nota hann hvort eð er. Smekkinn altsvo. Núna er ég að lesa bókina The long walk. Það er reyndar ein af Bachman-bókunum, en ágæt samt. Byrjaði um daginn á Grænu mílunni en hætti við hana og fór í staðinn að lesa Under the Dome og sé ekkert eftir því. Auðvitað er sú bók langdregin en þó hún sé löng þá finnst manni að maður verði endilega að klára hana.
Þrátt fyrir njósnir Bandaríkjamanna er ég að hugsa um að halda áfram að Gúgla. Þetta var erfið ákvörðum en ég reyni að hugga mig við það að ekki muni mikið um einn kepp (mig) í sláturtíðinni. Auðvitað vildi ég helst vera Angela Merker og henda blautri tusku framaní Obama (eða heitir hann kannski Osama?)
Nenni ekki að æsa mig upp útaf RUV og þessháttar. Í pólitíkinni held ég að menn séu bara að hvíla sig fyrir haustið. Þetta er óttaleg gúrkutíð núna. Brynjar Níelsson virðist vera sá heitasti í stjórnmálunum núumstundir. Mér fannst Guðmundur Andri komast vel að orði þar sem hann var að tala um hjól atvinnufíflsins. Hvernig ætli það hjól sé? Sennilega verða margir í stuði þegar fer að frysta og kólna.
Það er slæmt ef tölurnar sem maður er að heyra um endurreisn landsins eftir Hrunið eru allar lygimál. Egill segir það og hefur það eftir einhverjum útlendingi. En þeir eru nú svo margir og hafa takmarkað vit á svonalöguðu. Það kom líka vel í ljós í undirbúningi Hrunsins hvað vit þeirra var takmarkað. Að setja traust sitt á frekar á Bjarna Benediktsson er eiginlega alveg sjálfsagt.
Athugasemdir
Needful things er mjög góð
pjakkur 30.7.2013 kl. 13:19
Góð bíómynd, Græna mílan, með Tom Hanks
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.7.2013 kl. 21:47
Ég verð sextugur að ári. Mér líður dálítið eins og ég standi á brún hengiflugs.
Theódór Gunnarsson, 30.7.2013 kl. 22:24
Mér finnst sorglegt að enginn skuli þora að fjalla sómasamlega um Jóhannes í Bónus. Það er ekki langt síðan menn voru sammála um að hann vær besti vinur litla mannsins.
Theódór Gunnarsson, 30.7.2013 kl. 22:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.