2018 - Mánudagsblogg

Þetta gengur náttúrulega ekki. Hef ekki bloggað síðan á laugardaginn. Verð að taka mig saman í andlitinu og blogga smá. Sem betur fer hafði ég byrjað á einhverju. Þetta er semsagt upphafið, en sett í bloggið í lokin. Skelfingar bull er þetta. Sjáum til hvað úr þessu verður. Klukkan er ekki orðin svo margt ennþá. Kannski ég lesi þetta bara yfir og sendi á Moggabloggið. Það hlýtur að þola þetta.

Eru íslendingar upp til hópa milljarðamæringar í tímabundnum fjárhagserfiðleikum? Það held ég ekki og ég held að alltof mikið sé gert úr almennum fjárhagsörðugleikum. Auðvitað hafa margir það fjandi skítt. Það er líka dýrt og á margan hátt ömurlegt að vera Íslendingur. Samt eru kostirnir miklu fleiri en gallarnir við að hafa orðið fyrir því að fæðast hér. Íslendingar eru ótrúlega einsleitir og búa á eyju og þurfa þess vegna ekki að hafa miklar áhyggjur af síbreytilegum landamærum. Veðurfarið leggur alls ekki þunga þraut á íbúa landsins þrátt fyrir norðlæga legu og kuldalegt nafn. Fiskimiðin í kringum landið hafa á skömmum tíma gert okkur auðugri en við héldum lengi vel að mögulegt væri.

Auðvitað er það þáttur í því gjörbreytta landslagi sem orðið hefur nú í seinni tíð á allri fjölmiðlun, að hver sem er getur sagt hvað sem er um hvern sem er. Myndefnið, ljósmyndir, jafnt sem hreyfimyndir, hafa stöðugt að auka mikilvægi sitt og orðið meiri almenningseign. Samt er það svo að vinsælir fjölmiðlar hafa enn talsvert forskot varðandi áhrif á skoðanir fólks og kosningahegðun þess.

Það er einfaldlega vegna þess að þeir eru útbreiddari og þar á sér stað einhver ritstjórn. Hver nennir að lesa það sem einn ómerkingur segir um annan slíkan? Ef sýnd er hugkvæmni í fjölföldun og dreifingu og skrifin góð má þó ná langt. Engan vegin er þó tryggt að athafnir fylgi orðum. Um það er fjölmörg dæmi að bent er á ýmiss konar óréttlæti, án þess að nokkur tilraun sé gerð til að leiðrétta það. Þar er pottur brotinn. Sá sem fyrir óréttlætinu verður þarf oftast sjálfur að finna úrlausn þess réttan farveg.

Skák á Íslandi hefur undanfarin misseri og ár látið talsvert mikið undan síga. Fyrir því eru margar ástæður. Útbreiðsla hennar um heiminn hefði ekki átt að valda þar miklu um. Pólitísk umbrot hafa e.t.v. gert það. Þegar Sovétríkin liðu undir lok gátu íslenskir skákmeistarar vegna alhliða menntuna sinnar hæglega og með engum fyrirvara snúið sér að öðru. Það gátu sovéskir meistarar ekki gert. Þeir tóku lifibrauðið að miklu leyti frá þeim íslensku m.a. vegna mun minni krafna. Margt bendir til að íslenskt skáklíf sé á uppleið aftur. Að skólakerfið skuli að nokkru leyti hafa tekið það að sér er afar jákvætt. Án ungdómsins er aðstaðan vonlaus. Þeir eldri falla óhjákvæmilega í valinn. Við áttum okkar Friðrik Ólafsson um miðja síðustu öld. Nýr slíkur getur aðeins komið fram ef skáklífið í landinu blómstrar.

Hvaða munur er á fésbók og twitter? Ég hef nefnilega aldrei orðið svo frægur að skrá mig á twitter eða kíkja nokkuð á það fyrirbrigði. Er ekki alveg hægt að komast hjá því ef maður passar sig á að kíkja öðru hvoru á fésbókina? Og gætir þess að vera skráður þar. Annars er skemmtilega asnalegt að biðja um samanburð á twitter og fésbók á bloggi. En ég er allur fyrir asnaskapinn. Skilst líka að unga fólkið sé unnvörpum að gefast upp á fornaldarfyrirbrigðinu facebook og sé farið eitthvert annað. Man bara ekki hvert. Umræðuefni á borð við þetta finnst mér mun betra en pólitísk umræða. Hún fer oftast fljótlega í hund og kött og sama er að segja ef maður glæpist til þess að minnast á trúmál. Eiginlega ættu pólitík og trúmál að vera tabú á netinu.

IMG 3521Fíflastóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband