1996 - RUV

Ég hef tekið eftir því að undanförnu þegar ég er að senda blogg upp á Moggabloggið þá uppfærist það ekki alveg strax. Stundum líða svona 3 til 4 mínútur. Hef velt fyrir mér hvort þetta sé einhver næturstilling því oft gengur þetta glimrandi vel og allsekkert stopp er. Þetta gerir mér svosem ekkert til, en ég get þurft að bíða smávegis því ég þori ekki að auglýsa bloggið á fésbókinni fyrr en greinin hefur birst á réttum stað. Þetta er nú eiginlega það eina sem ég get fundið að því að blogga á Moggablogginu. Jú, einhverjir hafa kvartað undan því að sífellt verði erfiðara að finna bloggið á mbl.is síðunni. Vandalaust ætti að vera fyrir þá sem hugsa sér að koma aftur að setja bloggið í bookmark eða eitthvað. Sumir vilja líka líta á það sem einhverskonar pólitískt „statement“ hvar bloggað er. Ekki finnst mér það.

Ríkisstjórnin vill koma böndum yfir Ríkisútvarpið. Menntamálaráðherra hefur flutt um það tillögu á alþingi. Sérstaklega hugsa ég að þeir vilji þagga niður í sjónvarpsfréttamönnunum. Það mál ásamt afslættinum á veiðileyfagjaldinu gæti orðið stjórninni þungt í skauti. Fyrrverandi ríkisstjórn virtist stundum hikandi mjög. T.d. hefði vel verið hægt að stöðva málþóf sem beint var gegn henni. Það mátti samt ekki. Núverandi stjórn er mun líklegri til að beita slíku valdi. Þeim meðölum kann vel að verða beitt, jafnvel á yfirstandandi sumarþingi.

Ég horfi stundum á sjónvarp frá alþingi. Það getur verið fróðlegt en oft er það hundleiðinlegt. Þó ég hafi oftast gaman af að nefna nöfn ætla ég ekki að gera það að þessu sinni. Mér finnst einfaldlega að ef menn eru illa kvefaðir eigi þeir ekki heima í ræðustól alþingis. Óáheyrilegt mjög er að hlusta á sífelldar ræskingar og nefsog meðan fyrirfram samin ræða er lesin með erfiðleikum. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja að það sé dónaskapur að sjúga upp í nefið svo aðrir heyri.

Skógarþröstur í sjálfheldu, var fyrirsögn í blaði sem ég las áðan hér á netinu. Nennti ekki að lesa alla fréttina. Á hverjum degi villast tugir eða hundruð smáfugla hér á Íslandi inn í gróðurhús eða önnur hús. Þegar ég var unglingur vann ég í gróðrarstöð. Það kom fyrir næstum daglega að smáfuglar villtust inn í gróðurhús þar og komust ekki út aftur. Að ná þeim var mjög einfalt. Aðeins að elta þá í smástund og þá urðu þeir svo þreyttir að þeir gátu ekki lengur flogið og auðvelt var að handsama þá og hjálpa út aftur.

Úr nærfataverslun. (sennilega á Þorláksmessu). Viðskiptavinur ætlar að kaupa brjóstahaldara á konu sína en veit ekki alveg um rétta skálastærð.

Afgreiðslukona: Já einmitt það. Hvað ætli brjóstin á henni séu stór? Eins og melónur?
Viðskiptavinur: Neei, ætli það.
Afgreiðslukona: Eins og appelsínur þá?
Viðskiptavinur: Neei, varla.
Afgreiðslukona: Eins og epli, Kannski?
Viðskiptavinur: Neei, það held ég ekki?
Afgreiðslukona: Sítróna?
Viðskiptavinur: Nei.
Afgreiðslukona: En egg?
Viðskiptavinur: Já, spælegg.


Eiginlega er þetta Internet hrútleiðinlegt.

Nú, eru hrútar þá leiðinlegir?

Ég sagði það ekki. En hefurðu séð hrútaberjalyng?

Nei, af hverju ættu þeir að berja það?

Erpulsakum?‘

Já, auðvitað er púls á þeim.

IMG 3375Fífill.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband