1980 - Lúxustangi

Margt má gott um fésbókina segja þó ég sé sífellt að hallmæla henni. Ætli ég endi ekki með því að fara að kalla hana fasbók, einsog bæði Sigurður Þór og Páll Berþórsson vilja. Þar er til dæmis orðhengillinn. Líklega er það sú málfræðileiðbeiningarstöð sem ég nota einna mest. Um daginn var verið að ræða þar um greini og eignarfornöfn ásamt ýmsu fleiru. Bíllinn minn, mitt nef o.s.frv.

Ætli það sé ekki það sem útlendingar flaska oftast á að nota ýmislegt í því sambandi öðruvísi en vant er á því svæði sem verið er á. Mér finnst það eitt af einkennum íslenskunnar hve orðaröðin er frjálsleg. Man að þegar ég tók landspróf var verkefnið í bragfræðinni að segja til um í hvaða röð eftirfarandi orð ættu að vera í byrjun vísu svo bragfræðireglum væri fylgt: „Skipta sínum skerfi mátti.“

Annars var það ekki þetta sem ég ætlaði að segja. Ég er alltaf dálítið snokinn fyrir íþróttamáli. Þegar sagt er í lýsingum (til að vinna tíma) „markvörðurinn spyrnir nú frá marki sínu,“ fer ég ætíð að hugsa um að eignarfornafninu sé algerlega ofaukið. Ef hann spyrnti frá marki andstæðinganna væri það óneitanlega sögulegt.

Vísur eru mér hugleiknar. Í einhverri rímu er eftirfarandi vísa:

Greiddi upp trýnið gluggasvín
greitt að hnefabragði.
Sverðarunn tók sér í munn
og saman aftur lagði.

Ég get aldrei munað hvað rímnahættirnir heita, en þetta er töluvert dýrt kveðið. Eins get ég aldrei munað eftir hvern vísurnar eru, sem ég kann. Þetta gæti þó verið eftir Sigurð Breiðfjörð. Það segi ég bara vegna þess að ég veit að hann orti rímur (Númarímur) og Jónas Hallgrímsson hallmælti honum. Þetta gæti sem best verið gátuvísa og ráðningin væri þá að maður bankaði á dyr og opnað væri fyrir honum og lokað aftur.

Mikið er rifist um það hver hafi rekið hvern og af hverju einhvern tíma í fyrndinni. Einkum virðist nú vera horft til Stöðvar 2 af því tilefni. Þetta var áður fyrr og er kannski enn fjölmennur vinnustaður og upplýsingar af þessu tagi eru núna hrein sagnfræði. Kannski ætti ég að reyna að rifja upp ýmislegt þaðan. Sumir sjá allt með pólitískum gleraugum. Ég fullyrði að ekki var litið sömu augum á uppsagnir í gamla daga og margir gera nú. Uppsögn getur verið til bóta fyrir báða aðila og er það oft.

Á heimleiðinni frá Akureyri um daginn datt mér í hug efst í Norðurárdalnum eða jafnvel á Holtavörðuheiðinni sjáfri að rifja upp nokkur myndræn heiti yfir fáeina bæi í Borgarfirðinum sem ég hafði einhverntíma búið til. Þau gerðu nokkra lukku og styttu okkur svolítið stundirnar. Þessum man ég eftir:

Strákatalfæri = Sveinatunga; Bognibrestur = Svignaskarð; Efri stofur = Uppsalir: Luxustangi = Munaðarnes o.s.frv.

Að frátöldum skuldamálunum er flugvallarmálið kannski það heitasta um þessar mundir. Svo vill til að ég er því hlynntur að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Borgaryfirvöldum og ríkisstjórn kemur alls ekki saman um það mál. Báðir aðilar virðast ætla að þumbast sem mest við í von um að tíminn vinni með þeim. Eflaust verður tekist á um það mál af talsverðri tilfinningu í borgarstjórnarkosningunum næsta sumar.

IMG 3240Steypt af tilfinningu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband