11.6.2013 | 16:52
1979 - The invisible gorilla
Svo mikill hefur hamagangurinn verið í maílok að 40 manna gestakoma sést varla á súluritinu hjá Moggablogginu núna. (Já, ég minntist víst á Vigdísi Hauksdóttur þá) O, jæja, ætli það verði ekki að vera í lagi. Var að enda við að lesa Dalsmynnisbloggið og það var eins og venjulega hressilegt og gott. Enginn barlómur og aumingjaskapur þar. Veðrið er sæmilega þurrt núna og e.t.v. er sumarið sjálft loksins að koma. Einhverjum finnst það víst vera á seinni skipunum, en mér er alveg sama bara ef nokkrir hlýjir sólardagar koma.
Í stórum dráttum er eiginlega allt ómark sem ekki er á netinu. Vorkenni næstum því aumingja dagblöðunum sem streitast við að selja afurðir sínar, sem ekki eru sérlega merkilegar samanborið við allt það sem fá má á netinu fyrir ekki neitt. Hef sagt það áður og segi það enn að það er eiginlega hrein guðsblessun að fá ekki fréttablaðið á hverjum degi því þá mundi blaðakassinn vera fljótur að fyllast. Eins og nú er tekur hann furðu lengi við, því fátt annað fer í hann en bæklingarusl sem kemur með póstinum.
Líklega hef ég lengi ort vísur. Þó lét ég það ekki mikið í ljós á Bifröst, en eftir að ég kom þaðan sendum við hvorir öðrum ljóðabréf Þórir E. Gunnarsson og ég. Eflaust hefur þar verið mikill og vandaður leirburður. Eftirfarandi vísa kom óforvarendis (líklega dönskusletta) upp í hugann rétt áðan og hefur sennilega verið ort til konunnar minnar þegar ég hef verið á leiðinni að heimsækja hana á fæðingardeildina. Líklega hefur Benni verið nýfæddur þá.
Í strætó um bæinn ég bruna
bölvandi sjálfum mér.
Fyrir að muna ekki að muna
maltextrakt handa þér.
Það sem sendi mig á þá braut að muna eftir þessu snilldarljóði (ehemm) var að Árni Bergmann minntist á malt í fésbókarfærslu sem ég var að enda við að lesa.
Einhverjir (margir) hafa haldið því fram að vani sé að afgreiða stjórnarskrárbreytingar í mikilli sátt. Svo er ekki. Þó ég sé ekki nema rúmlega sjötugur man ég vel eftir stjórnarskrárbreytingunni 1959. Hún var aldeilis ekki afgreidd í neinni sátt, heldur beinlínis gerð til höfuðs framsóknarflokknum enda hafði hann hann hagnast allra flokka mest á misjöfnu vægi atkvæða. Auðvitað man ég ekki eftir eldri stjórnarskárbreytingum.
Eftir 1959 hafa allar stjórnarskrárbreytingar verið minniháttar hvað vægi atkvæða, stjórnskipan lýðveldisins o.þ.h. snertir og þingflokkum gengið nokkuð vel að komast að samkomulagi um orðalag. Ef misvægi atkvæða væri endanlega afnumið mundi framsóknarflokkurinn að sjálfsögðu tapa verulega.
Vægi atkvæða er alls ekki það eina sem máli skiptir varðandi stjórnarskrá, en vissulega það sem þingflokkarnir hafa átt erfiðast með að koma sér saman um. Nú eru það kannski auðlindamálin sem erfiðust yrðu. Að sjálfsögðu á þjóðin ein að ráða þessu. Alþingi kemur stjórnarskráin lítið við.
Ef alþingi á annað borð sættir sig við að deila valdi sínu til breytinga á stjórnarskránni með þjóðinni (í þjóðaratkvæðagreiðslum), þá er hentugast að drífa í því. Fulltrúar sjálfstæðisflokksins hafa þó rétt fyrir sér í því að ekki liggur nein lifandis skelfing á því að koma splunkunýrri stjórnarskrá um alla mögulega hluti í gagnið. Betra er að vanda sig við það verk. Margt í því uppkasti sem stjórnlagaþingið lagði fram er anski tilraunakennt og alls ekki víst að það þróist á þann hátt sem vonast er til.
Að stórum hluta er stjórnarskráin umgerð um störf alþingis og skilgreining á þeim. Svipað má segja um forseta lýðveldisins. Stjórnarskráin hlýtur óhjákvæmilega að fjalla um hlutverk hans. Óheppilegt er til framtíðar að hann ráði því einn hvert hlutverk hans er.
Minntist á the invisible gorilla í blogginu mínu um daginn. Mér er frekar illa við youtube eins og flest vinsælustu fyrirbrigðin hjá öðrum. Þessvegna linka ég ekki beint í ósýnilegu górilluna en vil samt hvetja alla til að leita að henni á youtube. Þar er manni sagt að telja vandlega sendingar körfuboltaliðs og þá sér maður ekki górillu sem kemur samt fram á skjánum. Þetta sýnir glögglega að maður getur ekki treyst sínum eigin skynfærum.
Hversvegna ætti maður þá að treysta öðrum? Ég er ekkert sérstaklega að tala um Sigmund Davíð Gunnlaugsson með þessu heldur frekar það hvort í raun sé nokkru að treysta. Þónokkuð margir vilja bendla SDG við sjónhverfingar og blekkingar, en mér finnst það óviðeigandi. Auðvitað blekkja stjórnmálamenn ef þeir mögulega telja sig geta. Þessvegna kaus ég pírata. Þeir vilja að allt sé uppi á borðum og ónauðsynlegum hlutum sé ekki haldið leyndum. Fólk er heldur alls ekki fífl og það er bara hroki að halda slíku fram.
Líklega hefur núverandi stjórnarandstaða ekki gert sér grein fyrir að sumarþing yrði haldið. Það er engin sérstök ástæða til þess. Líkurnar til þess að þetta sumarþing hafi eitthvað að segja fyrir stöðu stjórnarskrármála eru hverfandi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.