1955 - Aumingja gamla fólkið

Einn af stóru kostunum við Fésbókina er að þar getur maður spjallað við einhverja sem maður hugsanlega þekkir afar lítið, en samtölin geta oft orðið endaslepp og þar er hægt að hætta samtali serimóníulaust hvenær sem er. Kannski þarf maður að fara á klósettið eða er að hugsa um eitthvað allt annað svo þetta er oft alveg ágætt. Ef talað er við marga í einu geta samtölin samt orðið ansi furðuleg. Um að gera að kippa sér ekki upp við það.

Í kosningaáróðrinum undnafarnar vikur var mikið klifað á því að við gamlingjarnir hefðum það svo skítt. Eflaust er það einhver klaufaskapur hjá mér en ég hef eiginlega ekkert orðið var við þetta. Hver og einn hefur það nákvæmlega eins skítt og honum sýnist. Alltaf er hægt að ímynda sér kjörin bæði verri og betri. Alltaf eru líka einhverjir sem hafa það verra en við og líka einhverjir sem hafa það mun betra.

Auðvitað er það samt svo að deila má þjóðarauðnum jafnar en gert er. Þeir sem áhuga hafa á slíkum málum sinna að sjálfsögðu pólitíkinni. Við sem minni áhuga höfum erum ekki með því að leggja blessun okkar yfir eitt né neitt. Það geta bara ekkert allir verið að fylgjast með hverju fótmáli þessara blessaðra pólitíkusa daginn út og daginn inn. Sigmundur þetta og Sigmundur hitt, mér bara leiðist þessi sífelldi söngur.

Ef allt sem ég gat gert eða hefði átt að geta gert árið 2007 er eitthvað sem ég hef verið rændur af misvitlausum stjórnvöldum með því að orsaka Hrunið þá held ég því bara fram að sú lifskjör sem sumir sáu í hillingum það ár hafi verið lygi. Mikil lygi og ekkert nema lygi. Með því að vera búsett hér á lítilli eða miðlungsstórri eyju lengst úti í Ballarhafi höfum við fallist á (þó við höfum svosem aldrei verið spurð) að lífskjör okkar séu um margt erfiðari en þeirra letingja sem bara þurfa að rétta út hendina til að ávextirnir komi skríðandi þangað. (Jæja, þetta er nú kannski svolítið orðum aukið.)

Það eru margir hlutir sem eru jákvæðir við að búa hér á Íslandi og ég ætla ekkert að fara að tíunda það. Þjóðrembukarlarnir geta gert það. Ég er bara að segja það að ég ætla ekkert að flytja til Noregs úr þessu. Hér hef ég lifað og hér ætla ég líka að drepast. (Verst að ég hefði viljað bíða aðeins með það – þó það sé svosem ekkert yfirvofandi.)

Finnst Internetið alveg eiga rétt á sér. Sumir láta það samt alveg kæfa sig og þá er verr af stað farið en heima setið. Ef menn hafa enga stjórn á Internetnotkun sinni þá er auðvelt að verða of háður því og forðast allt sem í raunheimum er. Hafa samt ótakmarkaðan áhuga á öllu sem í sýndarheimum gerist. Stunda tölvuleiki eða góna á sjónvarpið í þau fá skipti sem hvíld er tekin frá Internetinu.

IMG 3056Fundur uppi á þaki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband