1946 - Hrægammar hér og hrægammar þar

Já, nú er eiginlega kominn tími á eins og eitt pólitískt blogg. Kosningarnar sem framundan eru virðast ætla að verða fremur skrýtnar. Mér finnst skrýtið að Framsóknarflokkurinn skuli njóta svona mikils fylgis eins og skoðanakannanir sýna. Mér sýnist að þessi loforð hjá Sigmundi Davíð séu mestmegnis út í loftið.

Í fyrsta lagi er ekkert víst að þessir hrægammasjóðir vilji neitt semja þó Sigmundur vilji það. Ef samið verður má hinsvegar búast við að ríkið eignist peninga. En hvort þeim verður varið í flata niðurgreiðslu á húsnæðislánum er annað mál. Ég held að þó Framsóknarflokkurinn fengi hreinan meirihluta þá yrði það ekki gert. Það er einfaldlega svo margt annað sem kallar að. Verðtryggingarkerfið má auðvitað bæta heilmikið og verður áreiðanlega gert. Með atbeina Sigmundar Davíðs eða án hans.

Mér finnst líka skrýtið að Dögun og Lýðræðisvaktin virðast engu flugi ætla að ná. Að fólk skuli raunverulega halda að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn séu búnir að bæta sig svo mikið að rétt sé að færa þeim stjórnartaumana aftur, finnst mér með miklum ólíkindum. Ríkisstjórnin á hinsvegar engin verðlaun skilið og svo er að sjá sem kjósendur ætli að segja henni það.

Litlu flokkarnir ættu að vera með miklu meira fylgi samtals. Hverjir koma mönnum að er ómögulegt að segja. Mér finnst fjórflokkurinn ekki eiga neitt gott skilið. Þó ekki væru nema efstu menn úr Bjartri Framtíð sem kæmust að hef ég engar áhyggjur af  kunnáttuleysi í löggjafarstarfi, því alþingi mundi skána talsvert við að losna við allt úrvalsdeildarliðið á einu bretti. Það hefur ekki gert rassgat síðustu fjögur árin og ekki er hægt að reikna með neinum framförum þar.

Mér finnst hætt við að við Íslendingar verðum álitnir óheiðarlegir í viðskiptum ef gengið er útfrá því að allir sem eiga eignir hér á landi og hlutabréf í bönkunum séu „hrægammar“ sem virðingarvert sé að ná sem mestu frá. Þetta mætti e.t.v. orða með ákveðnari hætti, en sem fyrrum stuðningsmaður samningsleiðar í Icesave-málinu þori ég það ekki.

IMG 3012Er hún örugglega flutt?


mbl.is Brostnar vonir um hagvöxt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hrægammasjóðir (vulture funds) er viðurkennt hugtak og ekkert móðgandi. Það er notað um sjóði sem kaupa kröfur í þrotabú á hrakvirði til að kreista sem mest verðmæti út úr þrotabúum. Þessir sjóðir nota sér að lítil eftirspurn er eftir kröfunum og að talið er að ólíklegt sé að þær innheimtist. Þeir eru þannig að reyna að eignast mikið fyrir lítið og því er ekkert rangnefni að kenna þá við þessa ógeðfelldu fuglategund.

Theódór Norðkvist, 22.4.2013 kl. 03:11

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Alveg sammála þér Sæmundur. Ég er næstum farinn að halda að það sé rétt mat hjá Jónasi Kristjánssyni að íslenskir kjósendur séu óttalegir blábjánar.  En ég hef velt fyrir mér undanfarið hvort þessar skoðanakannanir eigi rétt á sér. Held að þær séu stórhættulegar fyrir ný framboð.  Hjarðhegðunin er svo mikil að allir vilja vera í vinningsliðinu og enginn vill kasta atkvæði sínu á flokk sem samkvæmt skoðanakönnunum á ekki von í að ná mönnum inn á þing.

Þórir Kjartansson, 22.4.2013 kl. 08:33

3 identicon

Sumir þessara  "hedge funds" eru ekkert annað en hrægammasjóðir samanber vandræði Argentínu.

Jóhannes Skaftason 22.4.2013 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband