1945 - Manifesto

Í dag er laugardagur og enn styttist til kosninga. Vorkenni litlu framboðunum sem enga von virðast eiga. Stóru hákarlarnir gína yfir öllu. Það er þyngra en tárum taki, en svona er þetta. Það er ekki nóg að segja að kerfinu þurfi að breyta, það verður að gera það. Stóru flokkarnir breytast hægt, ef þeir breytast þá nokkuð. Stuðningur þeirra við markaðinn svokallaða er gulltryggður. Kommúnisminn og allt sem honum tengist er fyrir bí. Sósíalisminn jafnvel líka. Fólkið sjálft skiptir engu máli. Allt á að vera sem ódýrast og hagkvæmast. Markaðurinn segir það. Reyndar er hann ekkert betri en gamli guðinn. Þeim fjölgar sífellt sem afneita honum, en þeir eru ofurliði bornir af hagkvæmni stærðarinnar. Það er hún sem öllu ræður. Veðrið bregst samt ekki. Þó rignt hafi talsvert í gærkvöldi er fínasta gluggaveður a.m.k. núna.

Já, drepum allt sem heitir þjóðlegt einstaklingsframtak. Það er svo dýrt og óhagkvæmt. Trúum á stórfyrirtækin og að við getum breytt þeim. Við getum það alveg. Gert þau stórum mannlegri en þau eru. Það er afdalamennska og útúrboruháttur að vilja loka sig inni og búa að sínu. Tímarnir eru breyttir. Stórfyrirtækin eru búin til úr fólki. Það er ekki ósnertanlegt. Íslendingar eru ekki einir í heiminum. Okkur kemur við hvað aðrir gera. Internetið og samband fólksins hvert við annað er það sem mestu máli skiptir. Skipting heimsins í smávasa eftir tungu og menningu er bölvun hans. Þrátt fyrir allt hugsar fólk svipað í Súdan og Grímsnesinu.. Það er til einskis að berjast gegn framförum og dýrka hið gamla endalaust. Samvinna er lykilorðið. Látum ekki stærðina eina hræða okkur. Drekarnir forðum daga voru hræðilega stórir en samt sigruðu hetjurnar þá og fengu sínar prinsessur að launum.

Verndum þá sem vilja kjafta frá. Alltaf eru einhverjir sem eru tilbúnir að fórna sínum eigin hagsmunum og jafnvel krónum líka fyrir heildina. Gerum þeim auðveldara að setja sínar járnstengur í kerfið. Látum ekki ópersónulegt og illt vald ná tökum á okkur. Berjumst ekki endalaust gegn öllu sem hægt er að kalla pólitíska rétthugsum. Bara af því að einhverjir ópersónulegir pótintátar hafa sagt okkur það. Gerum Netið (með stórum staf) að því afli sem það getur hæglega verið. Píratar eru lausnin.

Þetta er mitt manifesto. Sumum finnst að þau eigi að vera óralöng, en ég er á því að athygli fólks verði ekki haldið endalaust. Því styttra, því betra.

IMG 3011Hver skyldi eiga heima hér?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband