27.3.2013 | 12:12
1923 - Laugavegurinn
Tvisvar hef ég farið Laugaveginn svonefnda. Þ.e.a.s. leiðina milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Og þær eru með eftirminnilegustu ferðum sem ég hef farið. Um aðra þeirra ( líklega þá seinni ) skrifaði ég einhverntíma óralanga (5 eða 6 véritaðar síður) ferðasögu sem ég fann í rusli hjá mér um daginn. Nei, ég ætla ekki að þreyta hugsanlega lesendur með því að birta hana. Þeir sem hafa glæpst til þess að fara hingað inn vegna Laugavegsins eins geta hætt hér. Allt sem á eftir fer eru hugleiðingar um pólitík o.þ.h.
Fékk yfir 700 heimsóknir hingað í gær og líklega er það met. Þetta er nokkuð örugglega því að þakka að ég linka í mbl.is fréttir sem eru nokkuð vinsælar. Auðvitað vil ég að sem flestir lesi bloggið mitt en þetta er samt ekki það sem ég stílaði inná. Meðvirkandi faktor í þessari miklu aðsókn er líka óvenjuleg staða i stjórnmálum landsins og til úrslita mun víst hafa dregið í nótt. Fór samt fremur snemma að sofa og fylgdist ekki með því sem orðið var ljóst.
Held að úrslitin í kosningum í apríl í vor verði ekki í því nána sambandi við síðstu skoðanakannnanir sem oft hefur verið. Kannski er það bara ósköp venjuleg óskhyggja sem veldur því og svo eru þessar kosningar á margan hátt óvenjulegar. Hef alls ekki rýnt í tölur úr einstökum kjördæmun eins og ég gerði þó einu sinni. Tölvurnar eru farnar að gera þetta sífellt betur.
Sé framá að eftirlaunin og ellistyrkurinn verði að duga mér og okkur til viðurværis úr því að kemur fram á næsta sumar. Peningaleysi kann að hafa einhver áhrif á það hvað við borðum og hve mikið við notum bílinn, en vonandi verða áhrifin ekki meiri en það. Vitanlega komum við til með að þurfa að velta hverri krónu fyrir okkur en það er ekkert nýtt. Þannig hefur það alltaf verið. Vellystingar og gullát hafa bara verið fyrir þá sem duglegastir eru við að svíkja og stela. Þannig hefur það löngum verið. Valkosturinn á móti hefur hingað til verið algjör kommúnismi sem reynslan sýnir að er ekkert betri. Kapítaliska kerfið er opnara og frjálsara ( ef einhver munur er ) og séu settar hindranir á misnotkun þess getur það kerfi starfað ágætlega. Ég er samt eindregið þeirrar skoðunar að við eigum heldur að halla okkur að Skadinavíska modelinu en því bandaríska.
Með sjálfum mér hef ég oftast skipt stjórmálaöflum í hægri og vinstri flokka. Vitanlega hef ég kosið ýmist til hægri eða vinstri. ( Fer mest eftir því hvað er kallað hægri og hvað vinstri.) Getuleysi þeirra stjórnmálaafla sem hér hafa starfað á undanförnum kjörtímabilum hefur verið svo mikið að ég get ekki lengur varið það fyrir sjálfum mér að ganga þessum spilltu og skelfilegu eiginhagsmunaöflum á hönd. Það skiptir mig engu þó þau öfl sem ég kem til með að kjósa virðist á pappírnum ekki eiga mikla möguleika á að koma manni eða mönnum að. Atkvæði mitt er miklu betur hjá þeim komið, en gömlu valdaflokkunum.
Vegna þess að ég skynja að Internetið er það afl sem vex mjög að áhrifum þessi misserin og verndin og nafnleysið þar skiptir máli, er ég nokkuð ákveðinn í að kjósa píratana en ég mun eftir sem áður ekki starfa á neinn hátt fyrir þá og gagnrýna ákvarðandir þeirra ekki síður en annarra.
Einhverjir kalla þetta bloggstand mitt raus og það er eiginlega alveg rétt. Ég reyni samt að hafa þetta ekki of langt í hvert sinn, en auðvitað er þetta tómt raus í augum margra. Eiginlega er aldrei neitt bitastætt hérna. Það er að segja nægilega bitastætt í huga lesandans. Mér finnst það kannski bitastætt, en get alls ekki séð fyrir hvað aðrir hugsa.
Sumir ætla að hegna fjórflokknum með því að kjósa ekki, en í raun hjálpa þeir honum með því. Líka er, held ég, rangt að kjósa taktísk og óttast að atkvæði sitt falli ónotað til jarðar. Það er hugsanlega ímyndun. Þannig ónýtt atkvæði er mun betra en ónotað, finnst mér.
Uppselt á Laugaveginn í sumar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.