1900 - Nítján hundruð

Já, þetta er víst blogg númer 1900. Ekki er ég að hugsa um að halda neitt uppá það. Furða er samt hvað ég hef haldið þessu lengi áfram. Samkvæmt heimildum þeim sem aðgengilegar eru hér á Moggablogginu hef ég skrifað mitt fyrsta blogg þar í desember árið 2006. Fyrir þann tíma hafði ég gert lítilsháttar tilraunir með bloggskrif, en þau eru að mestu marklaus og týnd. Finnast kannski á „pitas.com“. Númeringin er mitt einkenni og ég get ekki hætt.

Nú er ég semsagt að lesa það sem ég veit að enginn annar er að lesa. Nefnilega gömlu bloggin mín. Assgoti hef ég skrifað vel þá. Held að mér hafi bara farið aftur síðan.

Samkvæmt frétt á RUV.IS hefur Halldór Gunnarsson í Holti sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum og segir eftirfarandi í yfirlýsingu:

„Það er því með eftirsjá og hryggð, að ég kveð flokkinn, vegna þess fólks, sem ég hef átt samleið með lengi. Þau hafa verið misnotuð til varðstöðu um hagsmuni auðs og valds í landinu, eins og ég fram að þessu, síðustu ár. Ég kveð því minn gamla flokk, sem er orðinn annar flokkur.“

Við þetta er engu að bæta.

Mitt álit á Íslandssögunni er í stuttu máli þannig: Sturlunga er eins og besta glæpasaga nútímans. Atburðirnir þar eru sannir og lítið færðir í stílinn. Auðvitað fjalla atburðirnir þar einkum um upplifanir skrásetjara af þeim. Íslendingasögurnar gerast flestar svona þrjúhundruð árum fyrr og eru mikið færðar í stílinn, þó sennilega séu einhver sannindi að baki þeim.

Íslendinga saga Sturlu Þórðarsonar er í mínum huga aðalrit Sturlungu. Flestar Íslendingasagnanna eru skrásettar á svipuðum tíma og sú bók er rituð. Eftir Sturlungaöld og ritunartíma Íslendingasagnanna fer íslensku þjóðlífi mjög aftur og Íslendingar eru við hungurmörk framundir lok nítjándu aldar. Þá fer að rofa eilítið til og Þórbergur kemst á skútu. Svo kemur blessað stríðið sem reyndar er í tveimur hlutum.

Óli Gneisti Sóleyjarson spurðu útí Sturlungu á fésbók. Sennilega er fróðleikur minn um Sturlungu heldur meiri en venjulegt er. Ætlaði að svara Óla Gneista með því að tala eitthvað um þríleik Einars Kárasonar um efni úr Sturlungu en gat ómögulega munað hvað fyrsta bókin hans hét þó ég myndi vel um hvað hún fjallaði. Nafnið á henni kom ekki upp í hugann fyrr en nokkru seinna. Bækurnar heita: Óvinafagnaður, Ofsi, og Skáld. Ég á enn eftir að lesa þá síðustu en hún mun einkum fjalla um Sturlu Þórðarson. Að sjálfsögðu hef ég lesið „Ofsa“ sem fjallar um Eyjólf Ofsa og Flugumýrarbrennu. Einnig hef ég lesið „Óvinafagnað“ sem er aðallega um Þórð Kakala og aðdraganda Flóabardaga.

Satt að segja finnst mér einkennilegt að fólk skuli ekki hafa helstu atburði Sturlunga-aldar á hraðbergi. Það sem þá gerðist er einstakt í Íslandssögunni. Segja má að þá  hafi eina borgarastyrjöldin sem háð hefur verið á Íslandi átt sér stað. Auðvitað er ekki hægt að láta það sem gerðist á þrettándu öld vísa sér mikið veginn í stjórnmálum dagsins, en samt.

Nóg efni er þar enn að finna, þó Einar Kárason hafi gert fáeinum atburðum þaðan nokkur skil í skáldsöguþríleik sínum. Þekking þjóðarinnar á efni sem tengist Íslendingasögunum og Sturlungaöld er áreiðanlega allmikil.

Af yngri höfundum, sem hafa sótt sér efni þangað, finnst mér einkum bera að  nefna Ármann Jakobsson sem með skáldsögu sinni „Glæsi“ hefur  haslað sér völl þar svo eftir er tekið. Því miður á ég eftir að lesa þá sögu.

Þeir sem ekki nota gleraugu að staðaldri eiga kannski erfitt með að gera sér í hugarlund hve nauðsynlegt getur verið að þekkja í sundur í (lélegri) sjónhendingu lesgleraugu og venjuleg gleraugu. Þetta þarf ég samt að búa við og eftir talsverðar tilraunir hef ég komist að því að rörateip hentar ágætlega til slíkra merkinga.

IMG 2710Auglýsingabás eða strætóskýli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband