1872 - Einhleypingar og tvíhleypingar

Greinilegt er að kosningarnar í vor eru ofarlega í huga þeirra sem áhuga hafa á stjórnmálum. Sennilega verður á næstu vikum og mánuðum, betur en venjulega fylgst með fréttum, skoðanakönnunum, hrunmálum og öðru sem líklegt er að hafi áhrif á stjórnmálaskoðanir fólks. Netið mun ekki fara varhluta af þessu öllu, en ég ætla að reyna að láta það ekki hafa of mikil áhrif á mig og halda áfram að blogga á líkan hátt og ég hef gert. Stjórnmálin hafa samt áhrif á mig og í rauninni mun á næstunni allt litast af þessum ósköpum.

Flestir hafa svolitlar ranghugmyndir um sjálfan sig. Það er bara eðlilegt því ef þú sérð ekki sjálfur hve frábær þú ert (í einhverju) þá er ekki hægt að ætlast til þess af öðrum. Ég hef löngum huggað mig við það að enginn maður gæti staðið mér framar að öllu leyti. Ég hlyti að geta slegið hann út í einhverju!! Þannig er vel hægt að þumbast í gegnum lífið. Að sjá genin sín svo halda áfram að vera til í einhverjum öðrum er mikil sæla. Kannski sú mesta.

Sigurður Þór Guðjónsson skrifaði um einhleypinga og tvíhleypinga um daginn. (Ekki byssur þó.) Það er alveg rétt hjá honum að öll þjóðfélagsgerðin, skattkerfið og hvað sem er, virðist einkum vera gert fyrir tvíhleypinga. Kannski er það skiljanlegt. Mörgum finnst að sú þjóðfélagsgerð sem við lifum í hljóti að vera sú besta. En er hún það? Um það má vissulega deila, en ákveðið magn af pólitískri rétthugsun, föðurlandsást, trúgirni, íhaldssemi og frjálslyndi er nauðsynlegt til að halda þjóðfélaginu saman. Sundrað þjóðfélag er hættulegt bæði sjálfum sér og öðrum. Einhleypingar hafa lítinn rétt. Allt miðast við að fara sem líkastar leiðir og aðrir. Tvíhleypingarnir gera það.

Sumir sem eru fátækir vilja endilega að þeir ríku verði fátækir líka. Það finnst mér lítilmennska. Jöfnuður á sem flestum sviðum er þó æskilegur. Um skiptingu landsins gæða snúast stjórnmál einkum. Þessvegna eru þau svona einstök og merkileg. Breytingar á þjóðfélaginu gerast hratt. Þessvegna skiptir máli að kjósa rétt. En hvað er það rétta í þessu sambandi? Þar er efinn.

Algjör jöfnuður eða algjört einstaklingsfrelsi er ekki til. Lífið er of flókið til þess. Sé reynt að skapa þennan fullkomleika verður hann fyrr en varir bara í orði en allsekki á borði. Það eina sem er alveg öruggt (að minnsta kosti ennþá) er að allir deyja einhverntíma.

Einhverntíma skrifaði ég smágrein um dauðann. Hef áreiðanlega birt hana á blogginu mínu. (Jafnvel tvisvar) Man að ritstjórinn hjá „Heima er best“ vildi ekki birta hana og heldur ekki að ég skrifaði um Bjarna-Dísu þó ég byðist til þess. Samt fannst honum að bloggið mitt benti til þess að ég væri á svipaðri línu og hann um margt.

Sumir kalla það heimildavinnu þegar þeir flakka um netið. Það er óþarfi. Það er jafnmikil heimildavinna að liggja uppi í rúmi og lesa bók. Það gætu vel verið heimildir í henni.

Þetta blogg er númer 1872 í röðinni af þeim bloggum sem ég hef sent frá mér. 1872 er líka fæðingarár ömmu minnar og kannski er ættin og fjölskyldan það mikilvægasta í lífinu.

IMG 2532Jólarest.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband